Þessi vika hefur að mestu snúist um samræmdu prófin hjá strákunum og við erum því sérlega glöð yfir því að helgin sé framundan. Það er greinilega aðeins of langt síðan ég var í 7. bekk og ég stend í mikilli þakkarskuld við alnetið og þær upplýsingar sem þar má finna þegar ég stend á gati. Ætli ég sé ein um að vera svona ryðguð? Æ, hvað ég eiginlega vona það þó það væri vissulega huggun í að vita af fleirum sem klóra sér í kollinum yfir kenniföllum og rómverskum tölum.
Þar sem það styttist í helgina ætla ég að koma með hugmynd að æðislegum helgarmat. Okkur þykir þessi réttur svo dásamlega góður að við borðuðum hann tvisvar í síðustu viku (alveg dagsatt!). Í annað skiptið buðum við mömmu í mat og hún dásamaði hann í bak og fyrir. Við höfum bæði borið réttinn fram með taglatelle og með ofnbökuðum kartöflubátum og salati. Bæði er mjög gott en mér þykir pastað þó standa upp úr. Það er bara eitthvað ómótstæðilegt við kjúklinginn með beikon/steinselju/parmesan hjúpnum og bragðmikilli soðsósunni sem pastað tekur í sig. Svoooo brjálæðislega gott og mín besta tillaga fyrir helgina.
Kjúklingur með beikoni, steinselju og parmesan í dásamlegri sinnepssósu
- 4 kjúklingabringur (um 700 g)
- pipar og salt
- um 160 g beikonstrimlar
- 2 dósir sýrður rjómi
- 1/2 sóló hvítlaukur
- 1 msk Hunt´s Yellow Mustard
- 2 msk sojasósa
- 1-2 kjúklinga- eða grænmetisteningar (mér þykir best að blanda þeim)
- smá cayenne pipar
- handfylli af hakkaðri steinselju
- handfylli af rifnum parmesan
Skerið kjúklingabringurnar í sneiðar og leggið í eldfast mót. Saltið lítillega og piprið. Setjið sýrðan rjóma, teninga, pressaðan hvítlauk, sinnep og sojasósu í pott og látið sjóða saman við vægan hita í nokkrar mínútur. Hellið sósunni yfir kjúklinginn. Steikið beikonstrimla á pönnu og stráið yfir. Stráið að lokum hakkaðri steinselju og rifnum parmesan yfir. Bakið við 175° í 40 mínútur.
Berið fram með tagliatelle, pipar og vel af ferskrifnum parmesan.