Gleðilegan þjóðhátíðardag! Það eru eflaust fáir sem sitja við tölvuna í dag en þó eru alltaf einhverjir sem velja að nýta frídaginn í afslöppun heima við. Sjálf hefði ég ekkert á móti því. Það virðist þó ætla að rætast úr veðrinu og því kannski ráð að vera í fyrra fallinu á ferðinni til að nýta veðurblíðuna. Mér skildist á veðurfréttunum í gær að það ætti að rigna seinnipartinn. Þá er nú líka notalegt að koma heim og eiga góðgæti með kaffinu.
Það fer enginn svangur út í daginn hér því ég bjó til brauðtertu í gærkvöldi sem við ætlum að gæða okkur á í dag. Brauðtertan dugar vel sem kvöldmatur enda bæði með kjúklingi og beikoni, og minnir því einna helst á klúbbsamloku! Hún er matarmikil og dugar eflaust fyrir 10 manns.
Brauðterta með kjúklingi og beikoni (uppskrift úr Buffé)
- 200 g beikonstrimlar
- 1 grillaður kjúklingur
- 10 sólþurrkaðir tómatar í olíu
- 1 dl majónes
- 3 dl hreint jógúrt
- 1 dl graslaukur, skorinn fínt
- 1 tsk dijonsinnep
- 1/2 tsk salt
- smá svartur pipar
- 18 franskbrauðsneiðar
- 400 g philadelphia ostur, við stofuhita
- kirsuberjatómatar
- ruccola
Steikið beikonið á pönnu. Látið fituna renna af og leggið beikonið til hliðar. Hreinsið kjúklingakjötið frá beinunum og skerið í smáa bita. Hakkið sólþurrkuðu tómatana. Blandið sólþurrkuðum tómötum, majónesi, jógúrti, graslauk, sinnepi, salti, pipar, kjúklingi og beikoni saman í skál.
Skerið kanntinn af brauðsneiðunum. Leggið 6 brauðsneiðar á fat og setjið helminginn af fyllingunni yfir. Leggið aðrar 6 brauðsneiðar yfir fyllinguna og setjið það sem eftir er af fyllingunni yfir. Leggið síðustu 6 brauðsneiðarnar yfir. Setjið plastfilmu yfir og látið standa í ísskáp í 3-4 klst. Smyrjið philadelphia ostinum meðfram hliðunum og yfir brauðtertuna. Skreytið með ruccola og kirsuberjatómötum.
Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í