Nutellaformkaka

Nutellaformkaka

Gleðilegan bolludag! Ég vona svo sannarlega að bolludagurinn hafi verið ykkur ljúffengari en mér. Í gærkvöldi bakaði ég 10 stórar vatnsdeigsbollur og í morgun fór ég á fætur fyrir allar aldir til að setja á þær svo að krakkarnir gætu tekið með sér bollu í nesti í skólann. Ég hugsaði með mér að mikið yrði notalegt að koma heim úr vinnunni í dag og fá rjómabollu. Þegar ég kom heim mætti ég þó alsælum börnum með rjóma út á kinnar og galtómu kökufati.

Nutellaformkaka

Þar sem ég náði ekki að mynda eina einustu rjómabollu áður en þær kláruðust þá ætla ég að gefa uppskrift að annari dásemd, mjúkri Nutellaformköku, sem ég var með í kvöldkaffi í vikunni sem leið. Kökuna bakaði ég aðallega vegna þess að ég keypti mér nýtt kökuform sem mér þótti svo fallegt og langaði að prófa að baka í því. Krakkarnir voru að vonum ánægð með nýbakaða köku og kalda mjólk fyrir svefninn og voru á einu máli um að kakan væri stórgóð.

Nutellaformkaka

Nutellaformkaka

  • 2 + 3/4 bolli hveiti (420 g)
  • 2 ½ tsk lyftiduft
  • ¼ tsk salt
  • 1 bolli smjör við stofuhita (135 g)
  • 2 bollar sykur (465 g)
  • 4 stór egg
  • 1 bolli Nutella (300 g)
  • 1 bolli nýmjólk

Hitið ofninn í 175° og smyrjið formkökuform. Hrærið saman hveiti, lyftidufti og salti og leggið til hliðar. Hrærið saman í annarri skál smjör og sykur þar til blandan verður ljós og létt, það tekur um 3 mínútur.   Hrærið einu eggi í einu saman við og þar á eftir Nutella. Setjið helminginn af þurrefnunum í deigið og helminginn af mjólkinni. Hrærið saman og endurtakið með afganginum af þurrefnunum og mjólkinni. Hrærið þar til allt hefur blandast en varist að hræra deigið of lengi.

Setjið deigið (sem er frekar þykkt) í smurða formkökuformið og bakið í 45-55 mínútur.