Mjúkís ársins 2017 og dásamleg hindberjabaka

Mjúkís ársins 2017 og dásamleg hindberjabaka

Vissuð þið að Mjúkís ársins er kominn í verslanir? Í ár er ísinn með pistasíuhnetum og fær því fullt hús stiga hjá mér. Mér þykja pistasíuhnetur svo æðislega góðar og ef þið hafið ekki smakkað þær í ís þá mæli ég með að prófa. Ísinn er dásamlegur einn og sér en þegar ég bar hann fram með nýbakaðri hindberjaböku í gær ætlaði allt um koll að keyra.

Mjúkís ársins 2017 og dásamleg hindberjabakaMjúkís ársins 2017 og dásamleg hindberjabaka

Það er allaf gott að eiga ís í frystinum því þá er hægt að galdra fram eftirrétt á svipstundu. Hér er mjög góð súkkulaðisósa sem fer frábærlega með ís. Eins þykir mér ís nánast ómissandi með heitum bökum. Eplabaka með vanilluís hittir alltaf í mark og þar sem mér þykja hindber og pistasíuhnetur passa svo vel saman þá langaði mig að sjálfsögðu að baka hindberjaböku til að bera fram með pistaísuísnum. Til að gera stórgott enn betra splæstum við í smá karamellusósu yfir.  Þetta verður seint toppað!

Mjúkís ársins 2017 og dásamleg hindberjabaka

Hindberjabaka

Deig

  • 125 g smjör
  • 1 dl sykur
  • 2 dl hveiti
  • 1 msk vanillusykur

Fylling

  • um 5 dl hindber, frosin eða fersk
  • 1 msk kartöflumjöl
  • 1 msk sykur

Hitið ofninn í 200°.

Setjið öll hráefnin í deigið saman í skál og vinnið saman með gaffli eða fingrunum þannig að úr verði mulningur

Blandið hindberjum, kartöflumjöli og sykri saman í annarri skál.

Smyrjið eldfast mót. Setjið hindberjablönduna í botninn og deigmulninginn yfir. Bakið við 200° í 25-35 mínútur, eða þar til bakan hefur fengið fallegan lit.

Berið bökuna fram heita með Mjúkís með pistasíuhnetum.

Mjúkís ársins 2017 og dásamleg hindberjabaka