Ljúffeng möndlukaka

Það eru ekki mörg ár síðan ég féll fyrir möndluköku en núna þykir mér hún svo góð og alveg ekta kaka til að hafa með kaffinu. Það tekur enga stund að baka hana og ekki skemmir fyrir hvað hún er falleg á borði.

Í gær bakaði ég möndluköku til að hafa með kaffinu. Í sumar hefur deginum seinkað hægt og sígandi hjá okkur og kaffitíminn í gær var ekki fyrr en um fimmleytið. Það var svo hlýtt á pallinum að við ákváðum að borða kökuna þar. Að drekka kaffið á pallinum slær öllu við í notalegheitum á sumrin og við borðum þar eins oft og við getum.  Ég veit þó ekki hvað nágranninn hefur haldið í gær því þegar við sátum og gæddum okkur á nýbakaðri möndlukökunni þá stóð hann og var að grilla kvöldmatinn. Við ákváðum því í snatri að við værum að borða mjög smart og lekkeran forrétt.

Uppskriftina fann ég í nýja veftímaritinu, Home & Delicius. Okkur fannst kakan æðislega góð og ég ætla ekki að segja ykkur hvað það er lítið eftir af henni.

Möndlukaka

  • 75 gr smjör
  • 1 dl sykur
  • 2 egg
  • 2 1/2 dl hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk salt
  • 1 tsk möndludropar
  • 1 dl mjólk

Hitið ofninn í 180°. Hrærið saman smjöri og sykri þar til létt og ljóst. Bætið eggjum saman við einu í einu og hrærið vel. Bætið þurrefnum saman við ásamt möndludropum og mjólk. Hrærið þar til deigið verður slétt og kekkjalaust. Setjið deigið í smurt bökunarform (ég notaði 22 cm form til að fá kökuna aðeins hærri) og bakið í 20 mínútur (ég hafði kökuna í 25 mínútur). Passið að baka hana ekki of lengi svo hún verði ekki þurr.

Glassúr

  • 3 dl flórsykur
  • 1 msk heitt vatn
  • 1 msk Ribena sólberjasafi

Blandið vatni og Ribena sólberjasafanum saman. Hrærið flórsykur og djúsblöndu saman þar til kekkjalaust. Mér fannst kremið of þykkt og bætti því smá meira af vatni saman við. Hellið kreminu yfir kökuna og berið fram.