New York Times-brauð

Það er orðið langt síðan ég setti inn uppskrift að brauði. Upp á síðkastið hefur brauðbakstur minn verið nokkuð einhæfur því ég, eflaust síðust af öllum, uppgötvaði hið margrómaða New York Times-brauð sem einnig gengur undir nafninu „No-knead bread“.

Þetta brauð er meiriháttar gott og þó það þurfi að hefast í amk 12 klst þá er vinnuframlagið í algjöru lágmarki. Ég set hráefnið í skál að kvöldi og rétt hræri því saman með sleif, set plastfilmu yfir skálina og læt hana standa á borðinu þar til daginn eftir. Oftast helli ég deginu þá, sem minnir helst á graut eftir alla þessa hefun, á hveitistráð borð og rétt set það saman í kúlu sem ég læt hefast undir viskastykki í tvo tíma til viðbótar. Ég hef sleppt þessari seinni hefun og verð að viðurkenna að ég fann engan sérstakan mun. Mikilvægast er síðan að baka brauðið í funheitum ofni í lokuðum potti sem er hitaður í ofninum áður en brauðið fer í hann.

Ég smakkaði þetta brauð fyrst á makkarónu-námskeiðinu hjá Salt Eldhúsi og varð mjög spennt að prófa að baka það. Á morgun fer ég á jólagaldra-námskeiðið og ég get ekki beðið. Ég hlakka svo til að eyða kvöldinu í jólaundirbúning og það verður frábært að eiga góðgæti til að njóta yfir aðventuna. Ég ætla að reyna að muna eftir myndavélinni og get þá sýnt ykkur myndir frá kvöldinu.

New York Times-brauð

  • 3 bollar hveiti
  • ¼ tsk þurrger
  • 1 ¼ tsk salt
  • 1 ½ bolli + 2 msk vatn (ég hef það alltaf við stofuhita)

Blandið hveiti, þurrgeri og salti saman í skál og hrærið vatni saman við. Setjið plastfilmu yfir skálina og látið hana standa við stofuhita í amk 12 klst. en helst í 18 klst.

Hellið deginu á hveitistráð borð og stráið hveiti líka yfir degið. Brjótið degið saman þannig að það myndi nokkurs konar kúlu og látið hefast undir viskastykki í 2 klst.

Setjið lokaðan ofnpott í ofn og hitið í 230°. Takið ofnpottinn út, setjið brauðið ofan í hann, lokið pottinum og setjið hann aftur í ofninn í 30 mínútur. Takið lokið af og bakið áfram í 5-10 mínútur.