Ég held að ég hafi útbúið þetta pestópasta oftar en eðlilegt getur talist. Það er í algjöru uppáhaldi hjá Ögga og nánast undantekningalaust það sem hann stingur upp á að hafa í matinn ef ég spyr hann.
Yfirleitt geri ég mjög stóran skammt því þetta er ekki verra daginn eftir. Þá þykir mér gott að bæta aðeins meira af pestói og fetaosti saman við, setja réttinn síðan í eldfast mót, salta og pipra vel og rífa parmesan ost yfir. Ég set hann síðan í ofninn þar til hann er heitur í gegn og finnst rétturinn verða mjög góður við það.
Pestó-pastað er sniðugt að gera fyrir veislur eða útilegur og bera þá fram kallt. Mér finnst þetta alltaf gott og ég held að Öggi gæti lifað á þessu.
Pestó-pasta
- pasta
- gott grænt pestó
- rauðlaukur, skorin fínt niður
- rauð paprika, skorin í bita
- tómatar (ég nota oftast kirsuberjatómata eða plómutómata)
- fetaostur (ég nota fetaost í kryddolíu)
- ferskur parmesan
- gott jurtasalt eða venjulegt salt
- pipar
Pastað er soðið samkvæmt leiðbeiningum á pakka. Þegar það er tilbúið er vatninu hellt af og pastað sett aftur í pottinn. Hrærið pestói saman við ásamt fetaostinum (mér þykir gott að stappa hluta af ostinum með smá af olíunni), rauðlauknum, paprikunni og tómötunum. Piprið og saltið og rífið ferskan parmesan ost yfir. Berið fram með hvítlauksbrauði.