Þegar Svala keppti í eurovision í maí voru við með smá eurovisionpartý hér heima. Ég var sein heim úr vinnunni þann daginn, var ekki búin að undirbúa neinar veitingar og hafði ekki tíma til að standa í stórræðum í eldhúsinu. Ég ákvað því að prófa quesadillas sem ég hafði séð á Buzzfeed en þeir eru duglegir að setja inn myndbönd af einföldum og girnilegum réttum. Þessar quesadillas hafði ég verið á leiðinni að prófa og fannst þarna kjörið tækifæri til að láta verða af því.
Þetta hefði ekki getað verið einfaldara hjá mér. Í bílnum á leiðinni heim úr vinnunni heyrði ég að KFC var með tilboð á hot wings fötum þannig að ég kom við og keypti eina. Síðan keypti ég tilbúið ferskt guacamole, grillaðan kjúkling og það sem mig vantaði í quesadillurnar í Hagkaup. Hér heima átti ég salsa sósu, sýrðan rjóma og Doritos. Það tók mig enga stund að gera quesadillurnar, meðlætið fór beint í skálar og á innan við hálftíma var allt klárt. Það er óhætt að segja að quesadillurnar vöktu mikla lukku en þær kláruðust upp til agna! Í eftirrétt var ég síðan með súkkulaðimús sem ég hef gert svo oft að það nær engri átt. Við fáum ekki nóg af henni!
Sriracha kjúklinga quesadillas (uppskriftin er fyrir 8)
- 2 bollar rifinn grillaður kjúklingur
- 1/3 bolli sriracha (ég mæli með að byrja með helming af sósunni og smakka sig áfram)
- 2 msk sýrður rjómi
- 2 bollar rifinn cheddar ostur
- 4 tsk bragðdauf olía
- 4 stórar tortillakökur
- 1/4 bolli hakka kóriandar
Blandið saman kjúklingi, Sriracha, sýrðum rjóma og osti. Skiptið blöndunni á tortillakökurnar þannig að þær þeki helming þeirra og brjótið hinn helminginn yfir. Hitið olíu á pönnu (eða hitið grillið) og steikið tortilluna í um 2 mínútur á hvorri hlið, eða þar til hún er orðin stökk að utan og osturinn bráðnaður inn í.
Skerið hverja tortillu í 4 sneiðar, leggið á fat og skreytið með kóriander. Berið fram með sýrðum rjóma, guacamole og/eða salsa og ostasósu. Mér þykir líka gott að hafa nachos með.