Ofnsteiktur kjúklingur með kartöflumús og dásamlegri sósu

Við enduðum helgina á  einföldum og klassískum rétti, ofnsteiktum kjúklingi. Við fáum reglulega löngun í heilsteiktan kjúkling og viljum þá hafa kartöflumús og þessa dásamlega góðu sósu með. Sósan er nánast aðalatriðið og er algjörlega ómissandi. Við berum réttinn alltaf fram með rifsberjahlaupi, sem ég veit að hljómar furðulega en ég lofa að það fer vel með.

Dásamleg sósa með kjúklingi

  • 3 dl rjómi
  • 1 ½ dl sýrður rjómi
  • 1-2 kjúklingateningar
  • 1-2 msk sojasósa
  • 1-2 msk rifsberjahlaup
  • salt og hvítur pipar
  • maizenamjöl til að þykkja (eða 1 msk hveiti hrært út í smá vatn)

Blandið öllu saman í pott og látið suðuna koma upp. Sjóðið í 5 mínútur og smakkið til með sojasósu og rifsberjahlaupi (byrjið með 1 msk af hvoru og bætið við).