Sveppasúpa

Mér finnst eitthvað notalegt við súpur og hef yfirleitt súpu einu sinni í viku. Krakkarnir eru hrifin af þeim og þessi sveppasúpa er ein af þeirra uppáhalds. Áður en ég ber súpuna fram leyfi ég töfrasprotanum að mauka sveppina niður.  Það gerir súpuna ekki bara barnvænni heldur gefur henni dásamlegt sveppabragð og skemmtilega áferð.

  • 400 gr sveppir
  • 1 laukur (ég átti ekki lauk og notaði 4 skarlottulauka í staðinn)
  • 2 hvítlauksrif
  • olía
  • 2 dl rjómi
  • 6 dl vatn
  • 1 kjúklingatengingur
  • 1 grænmetisteningur
  • 3 dl mjólk

Sneiðið sveppina, afhýðið laukinn og hvítlauksrifin og hakkið smátt. Steikið sveppina og hökkuðu laukana í nokkrar mínútur í stórum potti í smá olíu. Bætið vatni, mjólk, rjóma og teningum í pottinn og látið sjóða við vægan hita í ca 15 mínútur. Smakkið til og bætið ef til vill smá salti út í eða hálfum grænmetisteningi. Setjið í lokin töfrasprota í pottinn og maukið sveppina niður þannig að súpan verður slétt. Það er líka hægt að nota matvinnsluvél ef töfrasprotinn er ekki fyrir hendi.

Með súpunni borðuðum við síðustu sneiðarnar af brauðinu góða sem ég skar í sneiðar, smurði með smjörva og Dijon sinnepi og reif Gouda og Cheddar ost yfir. Stakk svo í 200° heitan ofninn þar til osturinn var bráðnaður.