Fiskur í okkar sósu

Fiskur í okkar sósu

Fyrir mörgum árum reif ég blaðsíðu úr Morgunblaðinu, setti í plastvasa og hef passað eins og gull síðan. Ástæðan er einfaldlega sú að blaðsíðan hefur að geyma eina af mínum uppáhalds fiskiuppskriftum. Uppskriftina gaf kona sem hafði átt fiskbúð á Lækjargötu í Hafnarfirði en selt hana. Hún var svo indæl að gefa lesendum blaðsins nokkrar uppskriftir og sú sem er í mestu uppáhaldi hjá mér segir hún að hafi selst eins og heitar lummur í fiskbúðinni. Ég er ekki hissa því rétturin er æðislegur. Sósuna má búa til fyrirfram og hafa tiltæka í ísskápnum en ég sé enga ástæðu til þess því það tekur enga stund að útbúa hana.

Rétturinn hét Fiskur í okkar sósu í blaðinu og hét það eflaust í fiskbúðinni líka. Ég vona að nafnið valdi ekki misskilningi því þó ég vildi glöð hafa fundið sósuna upp sjálf þá gerði ég það ekki. Ég hef ekkert átt við uppskriftina enda þykir mér hún stórgóð eins og hún er.

Fiskur í okkar sósuFiskur í okkar sósuFiskur í okkar sósuFiskur í okkar sósu

Fiskur í okkar sósu (uppskrift fyrir 4-5)

  • 1/2 líter súrmjólk
  • 1 bolli majónes
  • 1 tsk karrý
  • 1/2 tsk túrmerik
  • 1 tsk aromat
  • 1 tsk season all
  • 1 niðurskorið epli
  • 1/4 dós brytjaður ananas
  • 800 g beinlaus ýsa eða þorskur
  • rifinn ostur

Hitið ofninn í 180°. Skerið fiskinn í stóra bita og setjið í eldfast mót. Setjið epli og ananas yfir fiskinn. Hrærið súrmjólk, majónesi, karrý, túrmerik, aromat og season all saman og hellið yfir fiskinn, eplið og ananasinn. Stráið rifnum osti yfir og setjið í ofninn í 20 mínútur. Berið fram með hrísgrjónum eða soðnum kartöflum og salati.