Í kvöld ætlum við Öggi að bregða undir okkur betri fætinum og fara á Grillið á Hótel Sögu með vinnufélögum mínum. Við ætlum að byrja kvöldið í for-fordrykk í heimahúsi, færa okkur síðan yfir í fordrykk á Mímisbar og þaðan í þriggja rétta kvöldverð á Grillinu. Það er því skemmtilegt kvöld framundan og ég má ekkert vera að því að sitja við tölvuna.
Þar sem ég mun ekki elda í kvöld datt mér í hug að gefa uppskriftina að kökunni sem er hér efst á síðunni, sjálfri forsíðumyndinni. Kakan er æðislega góð og passar vel með kaffinu um helgina.
Mokkakaka
Botn:
- 2 egg
- 3 dl sykur
- 1 ½ dl mjólk
- 4 ½ dl hveiti
- 3 tsk lyftiduft
- 150 gr smjör
- 2 tsk vanillusykur
- 1 msk kakó
Glassúr:
- 3 ½ dl flórsykur
- 50 gr brætt smjör
- 4 msk kaffi
- 1 msk kakó
- 2 tsk vanillusykur
- kókosmjöl til að setja yfir kökuna
Hitið ofninn í 225°. Hrærið egg og sykur létt og ljóst. Blandið hveiti og lyftidufti saman og hrærið saman við eggjablönduna á víxl við mjólk og brætt smjör. Hrærið að lokum kakói og vanillusykri saman við deigið. Setjið deigið í skúffukökuform sem hefur verið klætt með bökunarpappír og bakið í ofninum í ca 15 mínútur.
Hrærið hráefnunum í glassúrinn saman og breiðið yfir kökuna. Stráið að lokum kókosmjöli yfir.
Úúú… ekki slæmt að fara í þríréttað á Grillinu! Skemmtið ykkur vel! 🙂
Geggjaðir skór og kakan örugglega góð !
Skórnir eru í uppáhaldi – Chie Mihara skór úr Kron ♥
Og hvernig var í Grillinu?
Kveðja, Þorbjörg (laumulesari)
Sæl Þorbjörg laumulesari – gaman að þú komst úr felum : )
Grillið var upplifun, mjög skemmtilegt kvöld í góðum félagsskap.
Bestu kveðjur,
Svava.
Kaffið í uppskriftinni er þetta instant kaffi eða uppáhellt ? Alveg önnum kafin við að prófa frábærar uppskriftir frá þér…;o)
Gaman að heyra að þú sért að prófa uppskriftirnar – vona að þær reynist góðar 🙂 Kaffið í þessari mokkaköku er uppáhellt.
Bestu kveðjur, Svava.