Kjúklinga, sveppa og parmesan lasagna

Kjúklinga, sveppa og parmesan lasagna

Þá erum við komin heim eftir frábæra eurovision-ferð. Öll plön um að blogga síðustu dagana fuku út í veður og vind þegar krakkarnir komu út til okkar og í staðin nýttum við hverja stund í að gera eitthvað skemmtilegt. Veðrið var svo gott að ég gat ómöglega slitið mig frá þeim til að fara inn að blogga. Ég var þó mikið á Instagram og setti margar myndir á dag þangað inn.

Kjúklinga, sveppa og parmesan lasagna

Ég fékk fallega tölvupósta frá mörgum ykkar sem hittu mig beint í hjartastað. Ég er svo þakklát fyrir að þið gefið ykkur tíma og sendið mér línu. Ég fékk bæði ábendingar um skemmtilegar verslanir í Malmö (Alma, ég fann ekki búðina þína! Langaði svo til að kíkja á hana og dró krakkana með mér í tóma vitleysu í von um að finna hana) og skemmtilega veitingastaði. Í kvöld ætla ég að setjast niður og svara bæði tölvupóstum og kommentum. Ég skammast mín fyrir að hafa ekki gefið mér tíma til þess fyrr.

Þó að ferðin hafi verið æðisleg þá jafnast ekkert á við að koma aftur heim. Ég var farin að þrá að dunda mér í eldhúsinu og að borða heimalagaðan mat. Ég keypti matreiðslublöð á Kastrup sem ég las í þaula á leiðinni heim og eftir flugið var ég með fullt af nýjum hugmyndum til að prófa.

Kjúklinga, sveppa og parmesan lasagna

Við eyddum gærdeginum í rólegheitum hér heima, tókum upp úr töskunum, fengum gesti og versluðum inn. Öggi fór með strákana í sund seinnipartinn og á meðan eldaði ég kvöldmat. Fyrir valinu varð kjúklingalasagna sem kom skemmtilega á óvart og féll vel í kramið hjá okkur öllum, sérstaklega svöngum sundgörpum sem ætluðu ekki að hætta að borða.

Kjúklinga, sveppa og parmesan lasagna

Kjúklinga, sveppa og parmesan lasagna

  • 3 kjúklingabringur (ca 600 g)
  • ólívuolía
  • 1 laukur, hakkaður
  • 4 hvítlauksrif
  • 150 g sveppir, sneiddir
  • 150 g spínat
  • 200 g parmesan (1 pakkning), skorinn með ostaskera eða kartöfluflysjara í þunnar sneiðar
  • 160 g rifinn mozzarellaostur (1 poki)
  • 400 g pastasósa eða góð tómatsósa
  • lasagnaplötur

Setjið kjúklingabringurnar í pott með vatni og sjóðið þar til þær eru soðnar í gegn (um 10-15 mínútur). Takið kjúklinginn úr pottinum og sneiðið hann niður í þunna bita.

Hitið ólívuolíu á pönnu við miðlungshita. Setjið hakkaðan lauk á pönnuna og steikið við miðlungshita þar til hann er mjúkur, um 5-6 mínútur. Bætið sneiddum sveppum á pönnuna og steikið í aðrar 3-4 mínútur. Bætið pressuðum hvítlauksrifum og spínati á pönnuna og steikið þar til spínatið er orðið mjúkt. Bætið sneiddum kjúklingabringum á pönnuna og takið hana af hitanum. Hrærið um 50 g af parmesan og 50 g af mozzarella saman við.

Smyrjið eldfast mót og leggið eitt lag af lasagnaplötum í botninn, síðan eitt lag af kjúklingablöndunni, pasta/tómatsósunni og af báðum ostunum. Endurtakið eins oft og hráefnið leyfir (ég náði 4 lögum). Endið á ostinum.

Bakið við 175° í 35 mínútur. Látið standa í nokkrar mínútur og berið síðan fram með góðu salati og jafnvel hvítlauksbrauði.

Ein athugasemd á “Kjúklinga, sveppa og parmesan lasagna

  1. Prófaði þennan í kvöld og hann var ofsalega góður! Var samt aðeins sparsamari á ostinn og kjúllann – en bætti það upp með meira spínati og sveppum – hrikalega gott! Kominn á „gera aftur“ listann! 🙂

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s