Sloppy Tacos

Sloppy Tacos

Ég var svo lánsöm að fá þessa glæsilegu bók eftir Steingrím Sigurgeirsson senda frá Forlaginu. Bókin kom í verslanir á fimmtudaginn og ætti að vera til á hverju heimili. Hún er stútfull af fróðleik um vín og gaman að blaða í henni. Bókin mun klárlega liggja á sófaborðinu hjá okkur til að grípa í á næstunni. Kærar þakkir og hamingjuóskir til Forlagsins og Steingríms með bókina.

Sloppy Tacos

Við áttum rólega og góða helgi. Planið var að fara í útgáfuteiti MAN magasíns á föstudagskvöldinu en þegar til kastanna kom hætti ég við. Gunnar var á fimleikaæfingu, Malín á leið á skólaball og Öggi og Gunnar á leið í Hörpu á tónleika seinna um kvöldið. Það að eyða kvöldinu heima með Jakobi lokkaði meira en allt annað og við enduðum á að baka okkur pizzu og eiga notalegt föstudagskvöld saman.

Sloppy Tacos

Fyrir helgi datt nýjasta Bon Appétit inn um lúguna og ég ákvað að prófa fyrstu uppskriftina í gærkvöldi.  Valið féll á Sloppy Tacos og það er óhætt að segja að engin varð svikinn af því vali. Stórgóður réttur sem mun verða á borðum hér oftar. Ekta föstudagsmatur!

Sloppy Tacos

Sloppy Tacos

Sloppy Tacos

Sloppy Tacos (uppskrift úr Bon Appétit)

Límónu sýrður rjómi:

 • 1 bolli sýrður rjómi
 • 1 msk fínrifið límónuhýði (lime)
 • ¼ bolli ferskur límónusafi
 • 2 msk hakkað ferskt kóríander
 • 1 msk hrísgrjónaedik (rice vinegar)
 • Gróft salt

Setjið öll hráefnin í skál og hrærið þeim saman. Smakkið til með salti. Setjið  plastfilmu yfir skálina og geymið í kæli í að minnsta kosti 1 klst. eða upp í 1 sólarhring.

Fylling og samsetning:

 • 2 msk ólívuolía
 • 900 g nautahakk
 • 1 laukur, hakkaður
 • 6 hvítlauksrif, fínhökkuð
 • 1 dós heilir tómatar (400 g)
 • 1 flaska Heinz chilisósa
 • ¼ bolli Worcestersósa
 • 3 msk chiliduft (ég notaði 2 msk af sterku mexíkósku chilidufti)
 • 1 msk hvítlauksduft (ath. ekki hvítlaukssalt!)
 • 1 msk laukduft
 • 1 msk púðursykur
 • 1 msk cumin
 • 12 stökkar tacoskeljar, hitaðar
 • rifinn cheddar ostur
 • iceberg
 • ferskt salsa
 • ferskt kóriander
 • lime bátar

Hitið 1 msk af ólívuolíu á pönnu yfir miðlungsháum hita. Setjið nautahakkið á pönnuna og steikið þar til allt hakkið er steikt, um 5 mínútur. Takið af pönnunni og leggið til hliðar.

Bætið 1 msk af ólívuolíu á pönnuna og setjið lauk og hvítlauk á hana. Steikið laukana þar til þeir byrja að brúnast, um 5 mínútur. Passið að hafa ekki of mikinn hita á pönnunni.

Hitið ofn í 200°.

Bætið tómötum á pönnunna og brjótið þá í sundur. Látið sjóða við vægan hita í 8-10 mínútur, eða þar til sósan byrjar að þykkna. Bætið nautahakki, chilisósu, Worcestersósu, chilidufti, hvítlauksdufti, laukdufti, púðursykri og cumin á pönnuna og blandið öllu vel saman. Látið sjóða í 10-12 mínútur við vægan hita og hrærið reglulega í.

Setjið fyllinguna í eldfast mót (sirka 20×30 cm) og bakið i ofninum í 30-40 mínútur.

Berið fyllinguna fram í heitum tacoskeljum með rifnum cheddar osti, iceberg, salsa, kóríander, límónu sýrðum rjóma og límónubátum.

New York Times súkkulaðibitakökur

New York Times súkkulaðibitakökur

Skrýtið hvernig lífið breytist alltaf á haustin. Það er eins og allt fari í gang með einum hvelli. Skólarnir og tómstundirnar byrja hjá krökkunum, saumaklúbbar vakna til lífs eftir sumarið og áður en maður veit af eru vikurnar uppbókaðar og næstum tvær vikur liðnar á milli bloggfærslna. Líf og fjör sem gerir haustið svo skemmtilegt.

New York Times súkkulaðibitakökur

Við fórum vel inn í haustrútínuna. Helgina áður en skólinn byrjaði gerði ég súkkulaðibitakökudeig sem við nutum góðs af á hverju kvöldi fyrstu skólavikuna. Uppskriftin af kökunum, sem ber það mikla nafn The New York Times Best Chocolate Chip Cookie Recipe, var fyrst birt í blaðinu sumarið 2008 og hefur síðan þá farið sem stormsveipur um internetið. Þessar kökur hafa orðstýr í bloggheimum um að vera ómótstæðilegar og ég get lofað að það er hverju orði sannara.

Bestu súkkulaðibitakökurnar

Uppskriftin er svakalega stór og þeir skynsömu myndu eflaust helminga hana. Ég gerði það þó ekki, enda hefur aldrei vottað fyrir skynsemi hjá mér þegar kemur að sætindum, heldur naut þess að eiga deigið í ískápnum og baka nokkrar kökur á hverju kvöldi í tæpa viku. Það var góð vika. Okkur hlakkaði öllum til að setjast niður á kvöldin með kalda mjólk og nýbakaðar kökurnar og það var ákveðin sorg sem fylgdi því þegar deigið á endanum kláraðist.

New York Times súkkulaðibitakökur

New York Times súkkulaðibitakökur

 • 2 bollar mínus 2 msk hveiti
 • 1 1/3 bolli brauðhveiti (ef þú átt það ekki notar þú venjulegt hveiti)
 • 1 1/4 tsk matarsódi
 • 1 1/2 tsk lyftiduft
 • 1 1/2 tsk gróft salt
 • 1 1/4 bolli ósaltað smjör
 • 1 1/4 bolli ljós púðursykur
 • 1 bolli plús 2 msk sykur
 • 2 egg
 • 2 tsk vanilludropar
 • 560 g dökkir súkkulaðibitar
 • sjávarsalt eða gróft salt til að strá yfir kökurnar

Aðferð:

 • Sigtið hveiti, matarsóda, lyftiduft og salt saman í skál og leggið til hliðar.
 • Setjið smjör og sykur í hrærivélaskál og hrærið saman i um 5 mínútur eða þar til blandan verður mjúk og kremkennd.
 • Hrærið eggjunum saman við, einu í einu, og hrærið vel á milli.
 • Bætið vanilludropum út í deigið.
 • Stillið hrærivélina á hægan hraða, bætið þurrefnunum í deigið og hrærið þar til hráefnin hafa blandast saman. Passið að ofhræra ekki deigið, það ætti að duga að hræra það í 5-10 sekúndur.
 • Bætið súkkulaðibitunum varlega í deigið.
 • Setjið deigið í plastfilmu og geymið í ískáp í 48 klst (eða að minnsta kosti 24 klst. Það má geyma það í allt að 72 klst. en ég geymdi það aðeins lengur).
 • Þegar það á að baka kökurnar er ofninn hitaður í 175°. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og mótið kúlur úr deiginu á stærð við golfkúlu. Setjið deigkúlurnar á bökunarplötuna (passið að hafa gott bil á milli því þær renna út) og stráið salti yfir.
 • Bakið kökurnar í 18-20 mínútur eða þar til þær eru gylltar á lit en mjúkar. Látið kökurnar kólna á grind í 10 mínútur.