Humar með eplarjómasósu

Eins og fram hefur komið var ég með humarforrétt á gamlárskvöld. Þennan rétt smakkaði ég fyrst hjá Ernu vinkonu minni fyrir mörgum árum og kolféll fyrir honum. Sósan er himnesk! Uppskriftin kemur úr Veislubók Hagkaups (eftir matreiðslumeistara Argentínu-steikhúss) og ég hef greinilega eldað þennan rétt oftar en ég vil kannast við, því bókin hangir saman á lyginni og blaðsíðan með humaruppskriftinni er laus í henni.

Í uppskriftinni er talað um að nota súputening frá Maggi (eru þeir ennþá til?) en ég nota grænmetistening frá Knorr í staðin. Síðan á að bera réttinn fram með grófu brauði en ég hef alltaf borið hann fram á ristuðu fransbrauði, eins og Erna gerir. Þá rista ég brauðið, sker það i tvennt þannig að brauðsneiðin myndi tvo þríhyrninga og set svo réttinn yfir brauðsneiðina. Ég skreyti síðan réttinn með steinselju en ég hafi hreinlega gleymt að kaupa hana núna. Það kom þó ekki að sök. Þetta er svo brjálæðislega gott að það fengu sér allir aftur á diskinn og Jakob matgæðingurinn minn fékk sér þrjá diska og bræðurnir fengu sér síðan afganginn í morgunmat daginn eftir. Það er ekki lélegt að byrja árið með humarmorgunverði!

Humar með eplarjómasósu (fyrir 6)

 • 500 g skelflettur humar
 • 2 gul epli
 • 50 g smjör

Sósa:

 • 2 skalottlaukar, litlir
 • 1 dl hvítvín
 • 2,5 dl rjómi
 • 1 tsk dijon sinnep
 • 1/2 stk fiskikraftur (teningur frá Knorr)
 • 1/2 – 1 grænmetisteningur frá Knorr
 • salt og pipar
 • sósujafnari

Byrjið á sósunni. Saxið laukinn og steikið glæran í olíu á pönnu (passið að hafa hitann ekki of háan, ég nota stillingu 5 af 9). Bætið hvítvíni og rjóma saman við og sjóðið við vægan hita í 5 mínútur. Þykkið ögn með sósujafnara. Bragðbætið með súputeningi, salti, pipar og sinnepi.

Afhýðið og kjarnhreinsið eplin og skerið í smáa teninga. Bræðið smjörið á pönnu og steikið humarinn ásamt eplunum í 1-2 mínútur. Hellið sósunni á pönnuna og látið sjóða í 1 mínútu. Berið strax fram.

 

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

Himneskar humarvefjur

Himneskar humarvefjur

Ég sá athugasemdir varðandi bollamálin í möffinsuppskriftinni góðu. Það er lítið mál að breyta bollamáli yfir í dl, 1 bolli er 2,3-2,4 dl. Ég mæli þó hiklaust með að fjárfesta í bollamálum, þau kosta nokkra hundraðkalla og koma oft að góðum notkum.

Himneskar humarvefjur

Mér datt í hug að setja inn uppskrift fyrir helgina, sem er í sjálfu sér engin nákvæm uppskrift heldur kannski frekar hugmynd að helgarmat, himneskar humarvefjur. Ég hef boðið upp á þær í forrétt þegar ég er með matarboð en einnig sem léttan kvöldverð með hvítvínsglasi. Þetta hittir alltaf í mark!

Himneskar humarvefjur

 • franskbrauð
 • íslenskt smjör
 • hvítlaukur, pressaður
 • fersk steinselja, hökkuð
 • skelflettur humar

Hitið ofn í 180°. Bræðið smjör, hvítlauk og steinselju saman. Skerið skorpuna af brauðsneiðunum, veltið hverri brauðsneið upp úr bræddu smjörblöndunni og fletjið síðan brauðsneiðarnar út með kökukefli. Setjið humar í hverja brauðsneið og rúllið þeim svo upp. Setjið í eldfast mót og inn í ofn í 8 mínútur.

Mér þykir gott að bera humarvefjurnar fram með ruccolasalati, smá balsamikgljáa og aioli eða hvítlaukssósu. Gott hvítvínsglas fullkomnar svo máltíðina.