Papriku- og kartöflusúpa með fetaostmulningi

Papriku- og kartöflusúpa með fetaostmulningi

Eftir allan hátíðarmatinn var okkur farið að dreyma um létta máltíð og súpa og brauð var efst á óskalistanum. Það vildi mér til happs að ég rakst á uppskrift að papriku- og kartöflusúpu með fetaostmulningi þegar ég var að skoða myndir í símanum mínum. Ég tek oft myndir á símann þegar ég rekst á spennandi uppskriftir og þessa uppskrift hafði ég séð í dönsku blaði (sem ég þori eiginlega að veðja á að hafi verið Spis Bedre). Ég ákvað að prófa að elda súpuna og hún vakti stormandi lukku. Með súpunni bar ég fram New York Times-brauðið sem er alltaf jafn gott og svo ótrúlega einfalt að baka.

Papriku- og kartöflusúpa með fetaostmulningi

Þeir sem fylgjast með mér á Instagram eru þegar búnir að sjá mynd af herlegheitunum en hér kemur uppskriftin fyrir þá sem vilja prófa.

Papriku- og kartöflusúpa

 • 1 laukur
 • 4 miðlungsstórar kartöflur
 • 4 rauðar paprikur
 • 2 kjúklingateningar (ég notaði 1 kjúklinga- og 1 grænmetistening)
 • ólífuolía
 • 1 tsk salt
 • nýmalaður pipar

Til skrauts

 • 150 g fetaostur (fetakubbur sem er mulinn niður)
 • 1 msk ólífuolía
 • fersk steinselja eða mynta (eða 2 tsk þurrkuð mynta)

Hitið 1 líter að vatni að suðu. Hakkið laukinn, skrælið kartöflurnar og skerið í þunnar sneiðar. Hreinsið paprikuna og skerið þær í strimla.

Stekið laukinn í 2 msk af ólívuolíu í stórum potti í 3 mínútur. Bætið kartöflum í pottinn og steikið áfram í 3 mínútur. Bætið papriku í pottinn og steikið áfram í aðrar 3 mínútur. Myljið teninga yfir og hellið helmingnum af soðna vatninu yfir. Látið sjóða við vægan hita í 10 mínútur.

Takið pottinn af hitanum og maukið súpuna með töfrasprota. Þynnið súpuna með því sem eftir var af soðna vatninu þar til óskaðri þykkt er náð. Kryddið með salti og pipar.

Papriku- og kartöflusúpa með fetaostmulningi

Blómkálssúpa

Ég var ekkert að flækja hlutina í kvöld og eldaði blómkálssúpu í matinn. Okkur finnst hún alltaf jafn góður og notalegur matur. Blómkálssúpuna elda ég oft enda einföld, fljótleg og að mínu mati mjög góður hversdagsmatur. Það þarf bara að eiga blómkálshaus og smá rjómaslettu til að geta töfrað fram góðan kvöldverð á svipstundu.  Ég á alltaf baguette brauð frá Délifrance í frystinum sem ég kaupi frosið í matvörubúðinni og þykir þægilegt að geta gripið í og hitað til að hafa með súpunni.

Ég geri alltaf súpur frá grunni og get ekki ímyndað mér að pakkasúpur séu góðar. Það er án nokkurns vafa hægt að finna fínni uppskriftir að blómkálssúpum en okkur þykir þessi svo góð og hún klikkar aldrei.  Í kvöld ákvað ég að skrifa niður hvernig ég geri súpuna ef einhvern langar að prófa. Uppskriftin er ekki heilög og mér dytti ekki í hug að fara út í búð eftir öðru hráefni en blómkálinu. Ef ég á ekki rjóma þá nota ég meiri mjólk, ef ég á ekki grænmetistening þá nota ég bara kjúklingatening og öfugt. Það virðist ekki skipta neinu máli, súpan verður alltaf góð.

Blómkálssúpa

 • stór blómkálshaus
 • 50 gr smjör
 • 1 dl hveiti
 • 6-7 dl soð
 • 2 dl rjómi
 • 3 dl mjólk
 • 1 grænmetisteningur
 • 1 kjúklingateningur
 • hvítur pipar
 • salt

Skerið blómkálshausinn niður og setjið í pott. Hellið vatni þannig að rétt fljóti yfir og sjóðið þar til blómkálið verður mjúkt.

Í öðrum potti er smjörið brætt og hveitinu hrært saman við. Bætið blómkálssoðinu smám saman í pottinn og hrærið vel á milli. Bætið rjómanum, mjólkinni og teningunum út í. Leyfið að sjóða saman um stund og smakkið til með hvítum pipar og salti. Ef súpan er bragðlítil þá er bætt við meiri krafti. Bætið að lokum blómkálinu í pottinn og leyfið að sjóða saman um stund áður en súpan er borin fram.

Ég leyfi töfrasprotanum stundum að mauka blómkálið áður en ég ber súpuna fram og hef alltaf brauð með súpunni.