Tómatsúpan á Nordstrom café

Tómatsúpa

Sagan segir að tómatsúpan sem fæst á kaffihúsum Nordstrom verslana í Bandaríkjunum sé stórkostlega góð. Mér hefur aldrei dottið í hug að fara á kaffihúsið þegar ég hef verið í Nordstrom, það eru svo margir aðrir matsölustaðir í Bandaríkjunum sem mér þykja meira lokkandi. En kannski hef ég verið að missa af einhverju stórkostlegu?

Tómatsúpa

Nordstrom hefur gefið út matreiðslubækur og í einni þeirra leynist uppskriftin af tómatsúpunni vinsælu. Krakkarnir hættu ekki að dásama hana þegar ég prófaði uppskriftina hér heima. Grilluð ostasamloka færi vel með en hér var boðið upp á nýbakað New York Times-brauð með osti. Krakkarnir voru í skýjunum! Einfaldur,  barnvænn, ódýr og góður hversdagsmatur.

Tómatsúpa

  • ⅓ bolli ólívuolía
  • 4 stórar gulrætur, afhýddar og skornar í teninga
  • 1 stór laukur, sneiddur
  • 1 msk þurrkuð basilika
  • 3 dósir heilir tómatar
  • 1 líter vatn
  • 2 kjúklingateningar
  • ½ líter rjómi
  • salt og pipar
Hitið ólívuolíuna yfir miðlungshita í rúmgóðum potti. Setjið gulrætur og lauk í pottinn og eldið þar til byrjar að mýkjast, um 10 mínútur, bætið þá basiliku saman við og eldið þar til grænmetið er orðið alveg mjúkt, eða um 5 mínútur til viðbótar. Bætið tómatdósunum, vatni og kjúklingateningum í pottinn og látið sjóða við vægan hita í 20-30 mínútur, eða upp til 45 mínútur ef þú hefur tíma. Setjið súpuna því næst í matvinnsluvél eða setjið töfrasprota í pottinn og maukið súpuna. Bætið rjómanum saman við og hitið aftur. Smakkið til með salti og pipar.

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Í gærkvöldi kom ég í seint heim og þá hentaði ósköp vel að eiga hráefni í einfaldasta og fljótgerðasta pastarétt sem ég veit um. Kvöldmaturinn var kominn á borðið á innan við 15 mínútum eftir að ég kom heim og var svo dásamlega góður.

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Ég nota ferskt tortellini í þennan rétt, það þarf að sjóða í 1 mínútu og er mjög gott. Salvíusmjörið tekur nokkrar mínútur að útbúa og þá er rétturinn tilbúinn. Ég bar hann fram með hvítlauksbrauði ásamt vel af parmesan og smá rauðu í glasinu. Dásemdar veislumatur!

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri (uppskrift fyrir 2)

  • 50 g smjör
  • 10 fersk salvíublöð
  • 1½  msk hunang
  • 2 msk balsamik edik
  • maldonsalt
  • svartur pipar úr kvörn
  • parmesan
  • Ferkst tortellini, gjarnan með ostafyllingu eða skinku- og ostafyllingu

Bræðið smjörið í potti (eða á lítilli pönnu) og bætið salvíublöðunum í. Látið malla við miðlungsháan hita þar til smjörið hefur brúnast. Bætið hunangi og balsamik ediki saman við og smakkið til með salti og pipar. Sjóðið tortellini samkvæmt leiðbeiningum á pakkningu. Blandið sósunni saman við nýsoðið tortellini og stráið ríkulega af rifnum parmesan yfir.

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöriHér hefur smjörið verið brætt og salvíu bætt á pönnuna

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöriHér er smjörið tekið að brúnast

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Hér hefur hunangi og balsamik edik verið bætt saman við. Tilbúið!

 

Nautahakks og makkarónupanna

Nautahakks og makkarónupannaMér þykir þessi vorönn hafa liðið svakalega hratt og nú er síðasta skólavikan fyrir sumarfrí runnin upp hjá strákunum. Eins og oft vill verða í lok annar (og í lífinu almennt!) þá er í nógu að snúast og kannski ekki alltaf tími til að standa yfir pottunum. Þá er gott að geta gripið til einfaldra uppskrifta og ekki skemmir fyrir þegar hún er svona góð. Krakkar elska þennan mat og á meðan ég kýs að raspa parmesan yfir diskinn minn vilja krakkarnir bara tómatsósu. Einföld, ódýr og stórgóð máltíð!

Nautahakks og makkarónupanna

Nautahakks- og makkarónupanna (uppskrift fyrir 4-5)

  • 1 laukur, hakkaður
  • 2 hvítlauksrif, pressuð
  • 1 msk ólívuolía
  • 500 g nautahakk
  • 2 dósir (samtals 800 g) hakkaðir tómatar
  • 1 dós (400 ml) vatn
  • 225 g makkarónur, óeldaðar
  • salt og pipar
  • parmesan til að rífa yfir (má sleppa)

Steikið lauk og hvítlauk í ólívuolíu við vægan hita þar til mjúkt. Takið af pönnunni og leggið til hliðar. Brúnið nautahakkið,  hellið vökvanum frá og kryddið hakkið eftir smekk. Bætið tómötum, vatni (notið aðra tómatdósina til að mæla vatnið), hráar makkarónur, salt, pipar, lauk- og hvítlauksblönduna og grænmetistening á pönnuna og látið sjóða í 15-20 mínútur, eða þar til makkarónurnar eru mjúkar. Berið fram með góðu brauði og/eða salati. Í þetta sinn voru það kirsuberjatómatar sem fengu að skreyta réttinn hjá mér.

Nautahakks og makkarónupanna

Spaghetti alla carbonara

Spaghetti alla carbonara

Það styttist í helgina og eflaust margir farnir að huga að helgarmatnum. Ég ætla því að setja inn uppskrift af einföldum en ljúffengum föstudagsmat sem tekur stutta stund að útbúa og gæti verið kjörið að enda vinnuvikuna á. Mér þykir svo notalegt að eyða föstudagskvöldunum heima og það hentar vel að borða þennan rétt í sjónvarpssófanum til að gera kvöldið enn notalegra.

Spaghetti alla carbonara

Stundum þurfa hlutirnir að gerast í einum grænum og þá koma svona uppskriftir sér vel. Þessi réttur er ó, svo góður og það tekur eflaust styttri tíma að útbúa hann en að panta pizzu. Með öðrum orðum, fullkominn föstudagsmatur!

Spaghetti alla carbonara

Spaghetti alla carbonara (fyrir 4) – uppskrift frá Allt om mat

  • 1 laukur
  • 1 hvítlauksrif
  • 250 g beikon
  • 50 g pecoriono ostur
  • 50 g parmesan ostur
  • 2 msk ólífuolía
  • 2 egg
  • 2 eggjarauður
  • pipar úr kvörn
  • 400 g spaghetti

Fínhakkið lauk og skerið hvítlauk í sneiðar. Skerið beikon í bita og fínrífið pacoriono og parmesan ostana.

Hitið olíuna á pönnu og steikið hvítlaukinn í henni þar til hann byrjar að fá gylltan lit. Takið hvítlaukinn af pönnunni. Setjið lauk og beikon á pönnuna (í olíuna sem hvítlaukurinn var í) og steikið þar til laukurinn er mjúkur og beikonið fallegt á litinn, það tekur um 3 mínútur. Hrærið egg og eggjarauður saman við ostana og kryddið með pipar.

Sjóðið spaghettí samkvæmt leiðbeiningum á pakkningu. Geymið 1 dl af pastavatninu.

Hærið saman spaghettí, lauk og beikon. Hrærið eggja- og ostablöndunni saman við og blandið vel saman. Hrærið pastavatninu saman við, smátt og smátt, þar til réttri áferð er náð. Mér þykir 1 dl. passlegt.

Berið fram með ferskrifnum parmesan, pipar og jafnvel steinselju.