Tómatsúpan á Nordstrom café

Tómatsúpa

Sagan segir að tómatsúpan sem fæst á kaffihúsum Nordstrom verslana í Bandaríkjunum sé stórkostlega góð. Mér hefur aldrei dottið í hug að fara á kaffihúsið þegar ég hef verið í Nordstrom, það eru svo margir aðrir matsölustaðir í Bandaríkjunum sem mér þykja meira lokkandi. En kannski hef ég verið að missa af einhverju stórkostlegu?

Tómatsúpa

Nordstrom hefur gefið út matreiðslubækur og í einni þeirra leynist uppskriftin af tómatsúpunni vinsælu. Krakkarnir hættu ekki að dásama hana þegar ég prófaði uppskriftina hér heima. Grilluð ostasamloka færi vel með en hér var boðið upp á nýbakað New York Times-brauð með osti. Krakkarnir voru í skýjunum! Einfaldur,  barnvænn, ódýr og góður hversdagsmatur.

Tómatsúpa

  • ⅓ bolli ólívuolía
  • 4 stórar gulrætur, afhýddar og skornar í teninga
  • 1 stór laukur, sneiddur
  • 1 msk þurrkuð basilika
  • 3 dósir heilir tómatar
  • 1 líter vatn
  • 2 kjúklingateningar
  • ½ líter rjómi
  • salt og pipar
Hitið ólívuolíuna yfir miðlungshita í rúmgóðum potti. Setjið gulrætur og lauk í pottinn og eldið þar til byrjar að mýkjast, um 10 mínútur, bætið þá basiliku saman við og eldið þar til grænmetið er orðið alveg mjúkt, eða um 5 mínútur til viðbótar. Bætið tómatdósunum, vatni og kjúklingateningum í pottinn og látið sjóða við vægan hita í 20-30 mínútur, eða upp til 45 mínútur ef þú hefur tíma. Setjið súpuna því næst í matvinnsluvél eða setjið töfrasprota í pottinn og maukið súpuna. Bætið rjómanum saman við og hitið aftur. Smakkið til með salti og pipar.

3 athugasemdir á “Tómatsúpan á Nordstrom café

  1. Þessi súpa er svakalega góð ! 100% meðmæli fra okkur eins og allt sem kemur fra þessari síðu 😉

Færðu inn athugasemd