Ég er hér enn þó það hafi ekki heyrst frá mér í heila viku. Við erum búin að vera í Svíþjóð og þó ég hafði ætlað mér að blogga þaðan þá fór það svo að ég leit aldrei hingað inn. Þeir sem fylgja mér á Instagram fengu þó daglegar uppfærslur.
Við áttum yndislega viku í fyrrum heimabæ okkar Uppsölum. Það er alltaf svo góð tilfinning að koma til Svíþjóðar og það var erfitt að kveðja og halda aftur heim.
Við náðum að nýta tímann vel og fórum m.a. tvær ferðir til Stokkhólms, út að borða, í bíó, hittum gamla vini, versluðum, sýndum strákunum dómkirkjuna í Uppsölum (sem er ólýsanlega falleg og ég fæ enn gæsahúð þegar ég hugsa um Luciutónleikana sem við fórum á þar ein jólin), fórum í risastórt leikland, á Vasasafnið, á Skansinn og nutum þess að vera með Unni, Friðrik og börnum.
Ég fór næstum því að gráta þegar ég sá þetta fallega bökumót frá Höganäs í Ittala outlettinu og fór í alvöru að gráta þegar ég kom heim og sá að það hafði brotnað á leiðinni. Ég vona að ég eigi eftir að eignast það aftur. Þá mun ég baka pæ á hverju kvöldi sem ég mun bera fram með góðum ís eða rjóma.
Það er alltaf mikil stemmning fyrir bókaútsölunum í Uppsölum. Þegar við bjuggum úti þá hófust þær á miðnætti og ég man eftir að hafa sent Ögga á miðnæturútsöluna með langan lista yfir matreiðslubækur sem ég varð að eignast. Núna vorum við svo heppin að útsölurnar byrjuðu daginn áður en við fórum heim. Við náðum að gera góð kaup og ég bind miklar vonir við nokkrar matreiðslubækur sem ég vona að eigi eftir að enda hér á blogginu. Meðal annars keypti ég bók með girnilegum pæuppskriftum sem hefðu notið sín vel í nýja forminu. Ég ætla samt ekki að gráta það meira…
Ég held að ég bæti upp fyrir fjarveru mína með þessari köku sem ég er búin að vera svo spennt fyrir að setja á bloggið. Hún er svo æðislega góð að mér finnst þið verða að baka hana til að eiga með helgarkaffinu. Ég get eiginlega lofað að þið eigið eftir að falla fyrir henni. Hér kláraðist kakan upp til agna á svipstundu og verður klárlega bökuð aftur fljótlega.
Kaffikaka með valhnetum og hlynsírópsglassúr (uppskrift frá Shutterbean)
Kaka:
- 1 ½ bolli smjör
- 1 ½ bolli sykur
- 1 ½ tsk vanilludropar
- 3 egg
- 1 ½ bolli sýrður rjómi
- 3 bollar hveiti
- 1 ½ tsk lyftiduft
- ½ tsk matarsódi
- ¼ tsk salt
- 1 bolli grófhakkaðar valhnetur
- 1 ½ tsk kanil
- ¾ bolli púðursykur
- 2 msk vanilludropar
- 2 msk vatn
Glassúr:
- 1 ¼ bolli flórsykur
- ½ bolli hlynsíróp (maple syrup)
- 1 tsk vanilludropar
Hitið ofninn í 165°.
Hrærið smjör og sykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Bætið 1 ½ tsk af vanilludropum saman við og eggjunum, einu í einu og hrærið vel á milli. Hrærið sýrða rjómanum saman við. Sigtið hveiti, lyftiduft, matarsóda og salt saman og blandið saman við deigið.
Hrærið saman valhnetum, kanil og púðursykri í annari skál.
Smyrjið formkökuform (passið að hafa það í stærri kanntinum) og setjið 1/3 af deiginu í botninn á því. Stráið 1/3 af hnetublöndunni yfir. Endurtakið þar til komin eru þrjú lög af deigi og hnetublöndu (endið á hnetublöndunni). Hrærið vanilludropum ov vatni saman í skál og dreifið yfir efsta lagið af hnetublöndunni.
Bakið kökuna í 80 mínútur eða þar til prjóni stungið í kökuna kemur hreinn upp. Kælið kökuna áður en glassúrið er sett á.
Glassúr: Hrærið saman flórsykri, hlynsírópi og vanilludropum þar til blandan er slétt. Setjið yfir kökuna og njótið.