Kaffikaka með valhnetum og hlynsírópsglassúr

Kaffikaka með valhnetum og hlynsírópsglassúr

Ég er hér enn þó það hafi ekki heyrst frá mér í heila viku. Við erum búin að vera í Svíþjóð og þó ég hafði ætlað mér að blogga þaðan þá fór það svo að ég leit aldrei hingað inn. Þeir sem fylgja mér á Instagram fengu þó daglegar uppfærslur.

Kaffikaka með valhnetum og hlynsírópsglassúr

Við áttum yndislega viku í fyrrum heimabæ okkar Uppsölum. Það er alltaf svo góð tilfinning að koma til Svíþjóðar og það var erfitt að kveðja og halda aftur heim.

Kaffikaka með valhnetum og hlynsírópsglassúr

Við náðum að nýta tímann vel og fórum m.a. tvær ferðir til Stokkhólms, út að borða, í bíó, hittum gamla vini, versluðum, sýndum strákunum dómkirkjuna í Uppsölum (sem er ólýsanlega falleg og ég fæ enn gæsahúð þegar ég hugsa um Luciutónleikana sem við fórum á þar ein jólin), fórum í risastórt leikland, á Vasasafnið, á Skansinn og nutum þess að vera með Unni, Friðrik og börnum.

Kaffikaka með valhnetum og hlynsírópsglassúr

Ég fór næstum því að gráta þegar ég sá þetta fallega bökumót frá Höganäs í Ittala outlettinu og fór í alvöru að gráta þegar ég kom heim og sá að það hafði brotnað á leiðinni. Ég vona að ég eigi eftir að eignast það aftur. Þá mun ég baka pæ á hverju kvöldi sem ég mun bera fram með góðum ís eða rjóma.

Kaffikaka með valhnetum og hlynsírópsglassúr

Það er alltaf mikil stemmning fyrir bókaútsölunum í Uppsölum. Þegar við bjuggum úti þá hófust þær á miðnætti og ég man eftir að hafa sent Ögga á miðnæturútsöluna með langan lista yfir matreiðslubækur sem ég varð að eignast. Núna vorum við svo heppin að útsölurnar byrjuðu daginn áður en við fórum heim. Við náðum að gera góð kaup og ég bind miklar vonir við nokkrar matreiðslubækur sem ég vona að eigi eftir að enda hér á blogginu. Meðal annars keypti ég bók með girnilegum pæuppskriftum sem hefðu notið sín vel í nýja forminu. Ég ætla samt ekki að gráta það meira…

Kaffikaka með valhnetum og hlynsírópsglassúr

Ég held að ég bæti upp fyrir fjarveru mína með þessari köku sem ég er búin að vera svo spennt fyrir að setja á bloggið. Hún er svo æðislega góð að mér finnst þið verða að baka hana til að eiga með helgarkaffinu. Ég get eiginlega lofað að þið eigið eftir að falla fyrir henni. Hér kláraðist kakan upp til agna á svipstundu og verður klárlega bökuð aftur fljótlega.

Kaffikaka með valhnetum og hlynsírópsglassúr

Kaffikaka með valhnetum og hlynsírópsglassúr (uppskrift frá Shutterbean)

Kaka:

  • 1 ½ bolli smjör
  • 1 ½ bolli sykur
  • 1 ½ tsk vanilludropar
  • 3 egg
  • 1 ½ bolli sýrður rjómi
  • 3 bollar hveiti
  • 1 ½ tsk lyftiduft
  • ½ tsk matarsódi
  • ¼ tsk salt
  • 1 bolli grófhakkaðar valhnetur
  • 1 ½ tsk kanil
  • ¾ bolli púðursykur
  • 2 msk vanilludropar
  • 2 msk vatn

Glassúr:

  • 1 ¼ bolli flórsykur
  • ½ bolli hlynsíróp (maple syrup)
  • 1 tsk vanilludropar

Hitið ofninn í 165°.

Hrærið smjör og sykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Bætið 1 ½ tsk af vanilludropum saman við og eggjunum, einu í einu og hrærið vel á milli. Hrærið sýrða rjómanum saman við. Sigtið hveiti, lyftiduft, matarsóda og salt saman og blandið saman við deigið.

Hrærið saman valhnetum, kanil og púðursykri í annari skál.

Smyrjið formkökuform (passið að hafa það í stærri kanntinum) og setjið 1/3 af deiginu í botninn á því. Stráið 1/3 af hnetublöndunni yfir. Endurtakið þar til komin eru þrjú lög af deigi og hnetublöndu (endið á hnetublöndunni). Hrærið vanilludropum ov vatni saman í skál og dreifið yfir efsta lagið af hnetublöndunni.

Bakið kökuna í 80 mínútur eða þar til prjóni stungið í kökuna kemur hreinn upp. Kælið kökuna áður en glassúrið er sett á.

Glassúr: Hrærið saman flórsykri, hlynsírópi og vanilludropum þar til blandan er slétt. Setjið yfir kökuna og njótið.

Kaffikaka með súkkulaði

Kaffikaka með súkkulaði

Við nýttum gærdaginn til dundurs hér heima við. Öggi og Pétur unnu í júróvisjónlaginu þeirra og ég týndi niður jólaskrautið. Eins og mér þykir alltaf gaman að skreyta á aðventunni þá get ekki ekki beðið eftir að losna við skrautið eftir áramót. Núna liggur það á sínum stað í geymslunni og heimilið hefur fengið upplyftingu með nýjum blómum á stofuborðinu.

Í þessum rólegheitum þótti mér ekki annað hægt en að baka köku til að eiga með kaffinu. Ég hef ekki getað hætt að hugsa um kaffiköku sem ég sá á íslensku matarbloggi um daginn sem Kristín Gróa heldur úti, Lúxusgrísir í Florida. Bloggið fann ég fyrir tilviljun í gegnum Instagram, hvar ég fer hamförum þessa dagana, og reyndist mikill fundur. Vorum við og Pétur, sem lenti hér óvænt í kökuboði, öll á einu máli um að kakan væri stórgóð, svo góð að ég stóðst ekki mátið að fá mér aftur sneið af henni eftir morgunverðinn í morgun. Namm!

Kaffikaka með súkkulaði

Kaffikaka með súkkulaði

Botninn:

  • 1 ¼ bolli heitt kaffi
  • 1 bolli kakó
  • 2 ½ bolli hveiti
  • 1¼ tsk salt
  • 2 ½ tsk matarsódi
  • 2 bollar sykur
  • 3 stór egg
  • 1¼ bolli sýrður rjómi
  • 1 bolli + 2 msk grænmetisolía

Kremið:

  • 170 g smjör (helst ósaltað)
  • 170 g suðusúkkulaði
  • 4 msk kaffi
  • 1/3 bolli sýrður rjómi

Hitið ofninn í 175°.

Setjið kaffi og kakó saman í skál og hrærið saman þar til blandan er orðin kekkjalaus. Setjið til hliðar.

Sigtið hveiti, salt og matarsóda saman í aðra skál og setjið til hliðar.

Hrærið sykur og egg saman þar til blandan verður þykk og ljós. Bætið sýrðum rjóma og olíu saman við og hrærið varlega saman. Hrærið þurrefnunum varlega saman við og að lokum er kaffiblandan hrærð varlega út í.

Smyrjið stórt hringlaga bökunarform vel (ég spreyjaði vel af PAM í formið) og hellið deiginu í. Bakið í 45-60 mínútur eða þar til prjóni stungið í kökuna kemur þurr upp.

Látið kökuna kólna í forminu í 20 mínútur. Hvolfið kökunni þá á grind og látið hana kólna alveg áður en kremið er sett á.

Kremið:

Bræðið saman smjör og súkkulaði í skál yfir vatnsbaði. Takið skálina af hitanum og leyfið að kólna aðeins. Hrærið 2 msk af kaffi saman við, þá sýrða rjómanum og að lokum seinni 2 msk af kaffinu. Ég lenti í sömu vandræðum og Kristín Gróa, þ.e. að kremið varð mjög þunnt á þessu stigi og fylgdi hennar ráði um að setja það inn í ískáp og hræra reglulega í því svo það stífni jafnt.

Smyrjið kreminu á kökuna. Ég hafði ekki þolinmæði í að láta kökuna kólna alveg og kremið bráðnaði því aðeins á henni. Það kom þó ekki að sök, kakan var stórgóð og kremið líka.

Kaffikaka með súkkulaði

Sítrónuformkaka Nigellu Lawson

„How to eat“ og „How to be a domestic goddess“ voru fyrstu bækurnar sem ég pantaði mér á Netinu. Það eru 12 ár síðan og mér fannst þetta svo ótrúlega spennandi. „How to eat“ hafði komið út tveimur árum áður og þegar ég sá að „How to be a domestic goddess“  væri væntanleg þá beið ég eftir henni til að getað pantað þær saman. Ég hef skoðað þær svo oft og þær eru allar í litlum post-it miðum við uppskriftir sem ég ætla að prófa og búið að skrifa við þær uppskriftir sem ég hef gert. Post-it miðarnir eru þó fleiri og ég virðist lesa bækurnar oftar en ég elda og baka upp úr þeim.

Sítrónuformkökuna hef ég oft gert. Ég hef fyrir löngu skrifað við hana að hún væri mjög góð og mér finnst það ennþá. Það er gert ráð fyrir „self-raising flour“ í uppskriftinni og ég hef skrifað að það sé passlegt að bæta við hveitið rúmlega 1 1/2 tsk af lyftidufti og 1/2 tsk af salti. Ég hef fylgt því allar götur síðan og kakan heppnast alltaf þannig að það hlýtur að vera rétt.

  • 125 gr ósaltað smjör
  • 175 gr sykur
  • 2 stór egg
  • rifinn börkur af 1 sítrónu
  • 175 gr hveiti
  • rúmlega 1 1/2 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk salt
  • 4 msk mjólk

Hitið ofninn í 180°og smyrjið formkökumót vel. Hrærið saman smjöri og sykri. Bætið eggjum og rifnum sítrónuberki út í og hrærið vel saman. Bætið hveiti, lyftidufti og salti varlega saman við og leyfið að blandast vel saman. Að lokum er mjólkinni bætt út í og hrært þar til blandan er slétt. Setjið degið í smurt bökunarformið og bakið í ca 45 mínútur.

Sítrónusýróp

  • safi frá 1 1/2 sítrónu (ca 4 matskeiðar)
  • 100 gr flórsykur

Setjið sítrónusafann og flórsykurinn í lítinn pott og hitið varlega þar til sykurinn leysist upp.

Þegar kakan er tilbúin þá er hún tekin úr ofninum, stungið litlum götum með kökuprjóni ofan á hana alla og sítrónusýrópinu hellt yfir. Ég nota yfirleitt ekki allt sýrópið en það er auðvitað smekksatriði. Leyfið kökunni að kólna dálítið áður en hún er tekið úr forminu.