Amerískar pönnukökur og besta eggjahræran

Amerískar pönnukökur og besta eggjahræran

Það eru ár og aldir síðan ég vakti krakkana með amerískum pönnukökum, beikoni og eggjahræru en í páskafríinu lét ég verða af því. Ég gæti vel byrjað alla daga á svona veislu, en þá þyrfti ég líka að geta lagt mig aftur alla daga því ég borða alltaf yfir mig. Ég set bæði smjör og hlynsýróp á pönnukökuna mína og fæ mér eggjahræru og beikon með. Síðan vil ég drekka góðan appelsínusafa eða heilsusafa með miklum klökum. Krakkarnir fá sér ýmist hlynsýróp, eggjahræru og beikon eða nutella og jarðaber á sínar pönnukökur. Og ef það verður afgangur af pönnukökunum, þá set ég þær í plast og krakkarnir stinga þeim í brauðristina þegar líður á daginn og smyrja með smjöri og osti.

Amerískar pönnukökur og besta eggjahræranAmerískar pönnukökur og besta eggjahræranAmerískar pönnukökur og besta eggjahræran

Amerískar pönnukökur

  • 3 bollar hveiti
  • 1 bolli sykur
  • 4 tsk lyftiduft
  • 1 egg
  • mjólk eftir þörfum (ca 2 bollar)

Hrærið öllu saman þar til deigið er slétt og kekkjalaust. Steikið á pönnu í bræddu smjöri við vægan hita og snúið við þegar loftbólur myndast. Borið fram með smjöri, sýrópi, beikoni og öllu því sem hugurinn girnist. Ef svo ólíklega vill til að það verði pönnukökur í afgang þá er gott að hita þær upp í brauðristinni.

Eggjahræra

  • 1 msk rjómi á móti 1 eggi

Hrærið saman eggjum og rjóma og steikið við miðlungsháan hita (passið að hafa hann ekki of háan). Hrærið stöðugt í eggjahrærunni á meðan hún er að steikjast. Takið pönnuna af hitanum rétt áður en eggjahræran er tilbúin og klárið að steikja hana á bara eftirhitanum í pönnunni. Eggjahræran á alls ekki að vera þurr og því gott að klára eldamennskuna á þann máta.

Ofnsteikt beikon

Raðið beikonsneiðum á ofnplötu sem hefur verið klædd með bökunarpappír og setjið í 200° heitan ofn í um 10 mínútur.

Amerískar pönnukökur

Amerískar pönnukökur

Ó, hvað ég elska helgarnar.  Ég elska að koma heim eftir vinnu á föstudögum með blóm til að setja í vasa, elska að gera föstudagspizzu með krökkunum, elska sjónvarpskvöldin okkar með fullum skálum af nammi, elska að fara upp í hreint rúm á föstudagskvöldum og ég elska langa helgarmorgunverði.

Amerískar pönnukökur

Ég myndi vilja byrja allar helgar á svona morgunverði. Amerískar pönnukökur með hlynsýrópi og smjöri (ójá, ég set bæði á pönnukökuna. Ég meina, af hverju að velja bara annað þegar bæði er best?), stökkt beikon og hrærð egg með salti, pipar og herbs de provence-kryddblöndu sem tengdó keypti handa mér á markaði í Frakklandi (ég veit, hún dekrar við mig). Á meðan enginn sér set ég smá meira hlynsíróp þannig að það leki yfir allt. Með þessu hef ég ískaldan ávaxtasafa með klökum.

Ein ábending, gerið vel af pönnukökunum svo það verði afgangur eftir morgunverðinn og hafið stærðina á þeim þannig að hægt sé að stinga þeim í brauðristina. Ég stafla þeim á disk og set plast yfir. Um kvöldið eru þær alltaf búnar. Krakkarnir elska að geta stungið sér pönnuköku í brauðristina yfir daginn og smurt með smjöri og osti.

Amerískar pönnukökur

Amerískar pönnukökur (uppskrift fyrir 4)

  • 3/4 bolli mjólk
  • 2 msk hvítvínsedik
  • 1 bolli hveiti
  • 2 msk sykur
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk matarsódi
  • 1/2 tsk salt
  • 1 egg
  • 2 msk brætt smjör
  • 1 tsk vanilludropar

Blandið mjólk og hvítvínsediki saman í skál og látið standa í 10 mínútur. Hafið engar áhyggjur af hvítvínsedikinu, þið eigið ekki eftir að finna bragð af því.

Blandið þurrefnum saman í skál. Blandið mjókur/ediksblöndunni, eggjum og smjöri saman í annarri skál og hrærið blöndunni síðan saman við þurrefnin. Hrærið þar til blandan er að mestu laus við kekkji en passið að ofhræra ekki deigið.

Látið deigið standa í 10 mínútur (ath. að það er þykkt, ekki þynna það). Eftir 10 mínútur verða komnar bólur í deigið, ekki hræra í því. Takið varlega ca 1/4 bolla af deigið og setjið á heita pönnu sem hefur verið brætt smá smjör á. Steikið þar til loftbólur myndast  og snúið pönnukökunni þá við og steikið á hinni hliðinni.