Grískur ofnréttur

Ég hef séð uppskrift að þessum gríska ofnrétti víðsvegar á sænskum matarbloggum og óhætt að segja að hann hafi verið að slá í gegn. Eins og svo oft áður þegar ég sé uppskriftir ganga um netið varð ég spennt að prófa og fannst því upplagt að elda þennan gríska ofnrétt núna um helgina.

Ég skil vinsældir réttsins vel og það er óhætt að segja að hann hafi skotið sér beint á lista yfir uppáhaldsrétti hjá okkur. Marineringin á kjötinu gefur honum æðislega gott bragð og kalda sósan passar mjög vel með. Ég átti þetta hvítlauksbrauð niðurskorið í frystinum sem ég setti frosið í ofninn í stutta stund og bar fram með ofnréttinum ásamt köldu sósunni og ólívum. Þvílík veisla, við vorum öll stórhrifin og gefum máltíðinni hæstu einkunn.

Grískur ofnréttur

 • Kartöflubátar
 • 500 gr svínalund
 • 1 rauð paprika
 • 1 rauðlaukur
 • 1 askja kokteiltómatar
 • 1 fetakubbur

Marinering fyrir kjötið

 • 1 ½ dl olía (ekki ólívuolía)
 • 2 msk sojasósa
 • 3 hvítlauksrif
 • 1 tsk engifer (krydd, ekki ferskt)
 • 1 ½ tsk sambal oelek (chilimauk sem fæst t.d. í Bónus)
 • salt og pipar

Köld sósa

 •  2 dl sýrður rjómi (1 box)
 • 3 msk majónes
 • 1 tsk ítalskt salatkrydd eða jurtakrydd
 • 1 pressað hvítlauksrif

Deginum áður:

Blandið hráefnunum í marineringuna saman. Skerið kjötið í ca 1 cm þykkar sneiðar og leggið í marineringuna. Látið standa í lokuðu boxi eða skál í ískáp í sólarhring.

Blandið hráefnunum í sósuna saman og geymið í ískáp.

Sama dag:

Hitið ofnin í 220°. Skerið kartöflur í báta og leggið í stórt eldfast mót eða ofnskúffu. Saltið og kryddið með smá chili explosion kryddi og setjið í ofninn í 20-25 mínútur.

Skerið rauðlaukin og paprikuna í báta og kirsuberjatómatana í fernt. Takið kartöflurnar úr ofninum og leggið niðurskorið grænmetið yfir þær. Leggið kjötið ásamt marineringunni yfir grænmetið og endið á að mylja fetakubbinn yfir kjötið. Setjið í ofninn í 20-25 mínútur.

Berið fram með köldu sósunni og jafvel ólívum og góðu brauði.