Fræhrökkbrauð með feta-og sítrónumauki

Fræhrökkbrauð og feta-og sítrónumauk

Við buðum mömmu í mat í gærkvöldi og ég gerði forrétt sem okkur þótti svo góður að ég þurfti að fjarlægja af borðinu til að við myndum ekki borða okkur södd af honum. Ó, hvað okkur þótti þetta gott og hvað ég hef notið þess að fá mér af þessu í dag.

Fræhrökkbrauð og feta-og sítrónumaukOg hvað var það sem var svona gott? Heimagerð fræhrökkbrauð með feta- og sítrónumauki. Hollt og brjálæðislega gott. Frábært í saumaklúbbinn, sem forréttur, millimál og sjónvarpssnarl. Eða á ostabakkann. Dásamlegt við hvaða tilefni sem er…

Fræhrökkbrauð og feta-og sítrónumaukFræhrökkbrauð

  • 0,5 dl sesamfræ
  • 0,5 dl hörfræ
  • 3/4 dl sólblómafræ
  • 1/4 dl graskersfræ
  • 2 dl maísmjöl
  • 0,5 dl ólífuolía
  • 2-2,5 dl sjóðandi vatn
  • gróft salt, t.d. maldonsalt
  • rósmarín

Hitið ofninn í 150°. Setjið öll hráefni fyrir utan vatnið í skál og hrærið saman. Hellið sjóðandi vatni yfir (ég nota á milli 2 og 2,5 dl) og hrærið saman í deig. Klæðið bökunarplötu með bökunarpappír og setjið deigið yfir. Notið sleikju og dreifið úr deiginu þannig að það fylli út í bökunarplötuna (reynið að ná því eins þunnt og þið getið). Stráið salti og rósmarín yfir og bakið í 45 mínútur. Ég brýt hrökkbrauðið bara í óreglulega bita þegar það hefur kólnað en ef þið viljið fá reglulegri hrökkbrauðssneiðar þá mæli ég með að þið skerið það með pizzaskera áður en það fer í ofninn.

Feta- og sítrónumauk (uppskrift frá Paul Lowe)

  • 200 g fetakubbur
  • 1 msk rifið sítrónuhýði (passið að taka bara ysta lagið, ekki rífa sítrónuna djúpt niður)
  • 1-2 msk ferskur sítrónusafi
  • 1 hvítlauksrif, hakkað
  • 6 msk extra virgin ólífuolía
  • smá af rauðum piparflögum (ég notaði chili explotion krydd)

Setjið fetaostinn, sítrónuhýðið, 1 msk af sítrónusafa, hvítlauk og ólífuolíu í matvinnsluvél og látið vélina ganga þar allt hefur blandast vel en er enn með aðeins grófri áferð. Smakkið til, ef hræran er of sölt þá er meiri sítrónu bætt við. Setjið í skál, sáldrið smá ólífuolíu yfir og kryddið með rauðum piparflögum.

Fræhrökkbrauð

Fræhrökkbrauð

Ég kíki örstutt inn í kvöld eftir frábæra helgi. Á laugardagsmorgninum vöknuðum við Gunnar og ákváðum að kíkja saman í bæinn. Við röltum um Laugarvegin og Skólavörðustíg, keyptum ullarsokka í Geysi og glugguðum í bækur í Eymundsson. Þegar við komum heim beið mín óvissuferð sem Öggi og Óli, maður Ernu vinkonu minnar, höfðu skipulagt. Þegar þeir tveir taka sig saman er útkoman alltaf ævintýraleg og í þetta sinn enduðum við á hóteli í Borgarfirði, með viðkomu á kaffihúsi í Borgarnesi og kvöldverði á Landnámssetrinu. Ferðin var æðisleg, það var mikið hlegið, allt of mikið borðað og allir komu endurnærðir heim.

Ég hef því lítið verið í eldhúsinu yfir helgina og þegar við komum heim gerði ég kjúklingasúpu sem mig er búið að langa í síðustu dagana.  Á föstudagskvöldinu fengum við okkur hins vegar osta og ég gerði fræhrökkbrauð sem við borðuðum með. Æðislega gott, bæði eitt og sér (eins og sumir völdu að borða það) og á ostabakkann.

Fræhrökkbrauð

Fræhrökkbrauð

  • ½ dl sólblómafræ
  • ½ dl sesamfræ
  • 3/4 dl hörfræ
  • ½ dl graskersfræ
  • ½ tsk salt
  • 1 dl maizenamjöl
  • ½ dl rapsolía (repjuolía)
  • 1 ½ dl sjóðandi vatn

Blandið saman sólblómafræjum, sesamfræjum, hörfræjum, graskersfræjum, salti og maizenamjöli í skál. Hellið rapsolíu og sjóðandi vatni yfir og hrærið saman. Hellið grautnum á bökunarpappírsklædda ofnskúffu. Breiðið þunnt út og stráið maldonsalti (eða öðru grófu salti) yfir.  Bakið við 150° í 1 klst. Slökkvið á ofninum og látið fræhrökkbrauðið standa áfram í ofninum í 15 mínútur. Takið út úr ofninum og látið kólna. Brjótið í passlega stóra bita.