Ofnbakaðir kartöfluhelmingar

Ofnbakaðir kartöfluhelmingar

Við krakkarnir ákváðum að fara ekki með Ögga í sjónvarpssal í kvöld heldur buðum mömmu til okkar í heimagerða pizzu og skammarlega mikið af snakki og nammi. Á eftir júróvisjón kemur Öggi heim og þá ætlum við að horfa saman á American Idol. Það er því óhætt að segja að það sé gott sjónvarpskvöld sem bíður okkar.

Ofnbakaðir kartöfluhelmingar

Ég er sérlega spennt fyrir að deila þessari frábæru uppskrift með ykkur. Ég elska kartöflur og hef eldað óteljandi (og misgóða) kartöflurétti í gegnum tíðina. Þegar ég sá þessa uppskrift á Pinterest réð ég varla við mig af kæti því ég var svo viss um að hún væri góð. Það bara lá í augum uppi og ég furða mig á því að ég hafi ekki eldað kartöflur svona fyrr. Þær verða svo stökkar að utan og mjúkar að innan, alveg eins og ég vil hafa þær. Að elda þær upp úr bræddu smjöri í staðin fyrir olíu gerir gæfumuninn.

Ég eldaði kartöfluhelmingana strax daginn eftir að ég sá uppskriftina og bar þá fram með pretzelpylsum sem vakti gífurlega lukku. Síðan þá hef ég eldað þá við hvert tækifæri sem gefst og við fáum ekki nóg af þeim.

Ofnbakaðir kartöfluhelmingar

Ofnbakaðir kartöfluhelmingar

  • 12 kartöflur
  • ½ bolli brætt smjör
  • rifinn parmesan ostur
  • hvítlauksduft
  • önnur krydd eftir smekk (mér þykir gott að nota kryddblöndu með salti, timjan og sítrónu frá Jamie Oliver)

Hitið ofninn í 200°. Skerið kartöflur í tvennt á langhliðina. Bræðið smjör og setjið í botninn á eldföstu formi (passið að hafa formið ekki of stórt, smjörið þarf að fylla vel út í formið) og rífið vel af parmesan osti yfir. Kryddið með öðrum kryddum og raðið kartöflunum í formið með sárið niður í smjörið. Bakið í 40-45 mínútur. Berið fram með sýrðum rjóma.