Kjúklingabitar og sætar kartöflufranskar með hunangssinnepssósu

Kjúklingabitar og sætar kartöflufranskar með hunangssinnepssósu

Þar sem heimilislífið snýst um júróvisjón þessa dagana þá þykir mér við hæfi að koma aftur með tillögu að kvöldmat fyrir júróvisjónkvöldið. Fyrir síðustu helgi birti ég uppskrift að frábærum mexíkóskum rétti sem ég má til með að stinga aftur upp á fyrir annað kvöld ef þið hafið ekki þegar prófað hann. Nú kem ég þó með nýja tillögu sem mér þykir ekki síður góð.

Kjúklingabitar og sætar kartöflufranskar með hunangssinnepssósu

Ég eldaði þessa kjúklingabita og sætu kartöflufranskar um síðustu helgi. Uppskriftirnar sá ég hjá Ambitious Kitchen og vissi strax að ættu eftir að falla vel í kramið hjá mannskapnum. Kjúklingurinn er marineraður í grískri jógúrt, hunangi og dijon sinnepi sem gerir hann mjúkan og bragðgóðan. Þar á eftir er honum velt upp úr Kornflakes sem gefur honum stökka húð. Þetta getur ekki klikkað. Sætu kartöflufranskarnar eru hreinlega of góðar og við gátum ekki hætt að borða þær. Öggi sá síðan til þess að hunangssinnepssósan kláraðist upp til agna. Namm!

Kjúklingabitar og sætar kartöflufranskar með hunangssinnepssósu

Kjúklingabitar

 • 4 kjúklingabringur (ég notaði kjúklingalundir)
 • 2 bollar grísk jógúrt
 • 2 msk hunang
 • 2 msk dijon sinnep
 • 1/4 tsk sjávarsalt
 • 2 ½ bolli kornflakes

Hitið ofninn í 175°. Skerið kjúklingabringurnar í strimla (eða notið kjúklingalundir). Hrærið saman grískri jógúrt, hunangi, salti og dijon sinnepi í stórri skál. Bætið kjúklingnum í skálina og blandið saman þannig að marineringin hjúpi kjúklinginn. Setjið plastfilmu yfir kjúklinginn og geymið í ískáp í 20 mínútur.

Setjið helminginn af kornflakesinu í poka og myljið. Setjið helminginn af kjúklingnum í pokann og hristið hann svo að kornflakesið hjúpi kjúklinginn. Raðið kjúklingnum á bökunarpappírsklædda ofnplötu og spreyjið smá af olíu yfir. Bakið í 20-25 mínútur.

Bakaðar sætar kartöflufranskar

 • 2-4 stórar sætar kartöflur
 • 1-2 msk maizena mjöl
 • 1-2 ólívuolía
 • sjávarsalt
 • krydd eftir smekk

Hitið ofninn í 210°. Setjið bökunarpappír á ofnplötu og spreyjið smá olíu á hann. Afhýðið kartöflurnar., skerið í strimla á stærð við franskar kartöflur og setjið í stóra skál. Stráið maizenamjöli yfir og hristið vel svo að mjölið myndi létta húð um kartöflurnar. Setjið ólívuolíu yfir og hristið aftur þannig að kartöflurnar fái létta olíuhúð (þið gætuð þurft að bæta við meiri olíu). Dreifið úr kartöflunum á bökunarpappírnum þannig að þær myndi einfalt lag og liggi ekki saman. Bakið kartöflurnar í 15 mínútur, snúið þeim og bakið áfram í 15 mínútur til viðbótar. Fylgist með kartöflunum undir lokin og passið að ofbaka þær ekki.

Hunangssinnepssósa

 • 1/4 bolli majónes
 • 1/4 bolli dijon sinnep
 • 2 msk hunang

Hrærið majónesi og sinnepi vel saman. Bætið hunangi saman við og hrærið aftur þar til allt hefur blandast vel. Geymið í ískáp þar til sósan er borin fram.

Kjúklingabitar og sætar kartöflufranskar með hunangssinnepssósu

Kjúklinganaggar með basilikusósu

Þessir kjúklinganaggar vekja alltaf lukku hjá börnunum og okkur þykja þeir svo miklu betri heldur en keyptir naggar. Það er varla hægt að líkja þeim saman.

Mér finnst þetta vera ekta föstudagsmatur sem hægt er að borða fyrir framan sjónvarpið. Ég fylli stóran disk af nöggum, set franskar kartöflur í skál, sósur í litlar skálar og legg á sjónvarpsborðið. Með þessu hef ég síðan ískalt gos.

Það er eflaust best að gera brauðraspinn sjálfur en ef ég á að vera hreinskilin þá nota ég alltaf ströbröd frá Euroshopper. Hann er fíngerðari en íslenski raspurinn og mér finnst hann passa svo vel á naggana. Krakkarnir borða naggana með kokteilsósu, tómatsósu og frönskum en við Öggi fáum okkur salat og basilikusósu með þeim.

Kjúklinganaggar

 • 500 gr kjúklingabringur
 • 1 egg
 • 1 dl brauðraspur
 • 1/2 dl fínrifinn parmesan (má alveg vera keyptur tilbúinn)
 • 1 tsk sítrónupipar
 • smá salt
 • smjör og olía til að steikja í

Basilikusósa

 • 2 dl sýrður rjómi
 • 1 búnt fersk basilika
 • 1/2 tsk salt

Skerið kjúklingabringurnar í bita. Hrærið eggið létt með gaffli. Blandið í annari skál saman brauðraspi, parmesan, sítrónupipar og salti. Dýfið kjúklingabitunum fyrst í hrærða eggið og síðan í brauðraspblönduna. Steikið bitana í blöndu af smjöri og olíu þar til þeir fá fallegan lit. Ég hef pönnuna á miðlungsháum hita (stillingu 7 af 9) til að þeir nái að eldast í gegn án þess að brenna. Passið að kjúklingurinn sé steiktur í gegn.

Maukið basilikuna með töfrasprota í smá sýrðum rjóma. Blandið saman við restina af sýrða rjómanum og saltið.