Rocky Road

Rocky road

Ég hef aldrei verið mikið fyrir konfekt og geri sjaldan ef nokkurn tímann konfekt fyrir jólin. Ég hef þó alltaf verið mikill sælgætisgrís og það eru fáir sem komast með tærnar þar sem ég hef hælana í þeim efnum.

Rocky Road

Sú hefð hefur myndast á síðustu árum að ég geri „Rocky Road“ fyrir jólin og því kallast það einfaldlega jólanammið hér á bæ. Okkur þykir það betra en orð fá lýst og þegar líður að jólum er beðið með eftirvæntingu eftir að ég hefjist handa.

Rocky Road

Það er mjög einfalt og tekur ekki nokkra stund að töfra þessa dásemd fram. Dumle karamellur, sykurpúðar, salthnetur, pistasíukjarnar og gott súkkulaði. Þetta getur ekki klikkað. Setjið molana í fallega glerkrukku og gefið ástvinum til að njóta yfir jólin.

Rocky Road

Rocky Road

 • 600 g dökkt súkkulaði (veljið það súkkulaði sem ykkur þykir gott)
 • 2 pokar Dumle karamellur (skornar í tvennt)
 • 2 lófafylli litlir sykurpúðar (ef það eru notaðir stórir þá eru þeir klipptir niður)
 • 140 g salthnetur
 • 70 g pistasíukjarnar

Skerið Dumle karamellurnar í tvennt og setjið í skál ásamt sykurpúðum og salthnetum. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og kælið aðeins. Bætið súkkulaðinu í skálina og blandið öllu vel saman.

Setjið smjörpappír í skúffukökumót og hellið blöndunni yfir. Dreifið úr henni þannig að hún verði um 3 sm þykk. Stráið pistasíukjörnum yfir og látið kólna. Skerið í bita og njótið.

Hvítar súkkulaðitrufflur með piparkökuhjúpi

Hvítar súkkulaðitrufflur með piparkökuhjúpi

Ég vona að fyrsta aðventan hafi verið öllum góð. Hér á heimilinu var hún tekin með mikilli ró og óhætt að segja að við nutum hennar vel. Jólaskrautið var tínt upp úr kössum og komið fyrir á sínum stöðum, sörurnar voru bakaðar og jólakortin kláruð. Mér var síðan komið á óvart  þegar bæði mamma og Öggi tóku upp á því, hvort upp á sitt einsdæmi, að færa mér aðventugjafir. Mamma gaf mér hvítt hreindýr sem ég er búin að koma fyrir á stofuskenknum og Öggi bók, Súpur allt árið, eftir Sigurveigu Káradóttur. Ég varð svo hissa og þótti svo ofboðslega vænt um þessi óvæntu uppátæki hjá þeim.

Það er skemmtileg vika framundan með þremur saumaklúbbum og einu jólahlaðborði. Ég tók að mér að koma með köku í kvöld og er spennt að smakka biskmarkbrownies með hvítu súkkulaði sem er í ofninum. Ilmurinn úr eldhúsinu lofar góðu og ef kakan stendur undir væntingum þá set ég uppskriftina inn.

Núna ætla ég hins vegar að gefa uppskrift af hvítum súkkulaðitrufflum með piparkökuhjúpi sem mér þykja bæði jólalegar og góðar. Malín elskar þessar trufflur og var fljót að klára þær þegar ég útbjó þær fyrir jólablað Morgunblaðsins. Þetta konfekt er til að njóta en ekki geyma því mér þykir það ekki geymast vel. Ég vil hafa piparkökuhjúpinn stökkan en hann mýkist með tímanum. Það hefur þó ekki verið vandamál hjá okkur því þær renna út eins og heitar lummur.

Hvítar súkkulaðitrufflur með piparkökuhjúpi

Hvítar súkkulaðitrufflur með piparkökuhjúpi

 • 200 g hvítt súkkulaði
 • 1/2 dl rjómi
 • 25 g smjör
 • fínrifið hýði af 1/2 sítrónu (passið að taka bara ysta lagið og ekkert af þessu hvíta)
 • 2 msk ferskur sítrónusafi
 • 10-15 fínmuldar piparkökur

Hitið rjómann að suðu í potti. Takið pottinn af hitanum og hrærið smjöri og hökkuðu súkkulaði saman við. Hrærið þar til allt hefur bráðnað saman. Bætið sítrónuhýði og sítrónusafa saman við. Setjið blönduna í ísskáp í að minnsta kosti klukkutíma. Myljið piparkökurnar í matvinnsluvél. Mótið kúlur úr súkkulaðiblöndunni og veltið upp úr piparkökumylsnunni. Geymið í ísskáp.

Hvítar súkkulaðitrufflur með piparkökuhjúpi