Gordon Ramsay – Maze Grill

Í gær áttum við Öggi 10 ára brúðkaupsafmæli og héldum upp á það á Gordon Ramsay veitingastaðnum Maze Grill. Ég held að við hefðum ekki getað valið betri stað. Maturinn var æðislegur og staðurinn svo flottur í alla staði.

Við byrjuðum á að fá okkur kampavín í fordrykk. Vínseðillinn kemur á Ipad, ótrúlega smart.

Í forrétt fékk Öggi sér ólívur og hnetur en ég fékk mér þá albestu sveppasúpu sem ég hef smakkað.

Þjónninn kom með kjötbitana og sýndi okkur þegar við vorum að panta aðalréttinn.

Það var ekki einfalt val því bæði þarf að velja á milli tegunda á nautum, hvernig nautið var fóðrað, hversu gamalt kjötið var og á endanum hvaða hluta af nautinu. Við enduðum á T-bone steik af 28 daga Aberdeen Angus sem var alinn á grasi. Með þessu fengum við okkur þykkar franskar kartöflur, salat, béarnaise og piparsósu.

Í eftirrétt fengum við okkur vanillu-ostaköku með ástaraldinkrumbli.

Þetta var ein sú besta máltíð sem við höfum borðað og þjónustan var frábær. Það var fyllt á glösin áður en þau tæmdust, þurrkað af borðinu á milli rétta og séð til þess að ekkert vantaði. Þetta var frábært kvöld í alla staði og Maze Grill er staður sem við getum ekki beðið eftir að fara aftur á.

London

Eldsnemma í morgun flutti mamma inn til krakkana og við Öggi stungum af til London. Við erum búin að eiga frábæran dag hér og ná að borða á tveimur veitingastöðum sem við vorum búin að spotta út áður en við lögðum af stað.

Eftir að við vorum búin að koma okkur fyrir á hótelherberginu gengum við upp Oxford street og á ítalskan veitingastað sem heitir Carluccio´s. Við fengum okkur bruschetta og „baby chicken“ með ruccola, sítrónu og ferskum parmesan osti. Þetta var góður matur en ekkert sem heillaði okkur upp úr skónum. Það breytti því þó ekki að staðurinn var skemmtilegur og það var gaman að borða þar. Það sem stóð upp úr voru þær albestu ólívur sem við höfum smakkað og við stefnum á að fara og kaupa meira af þeim áður en við förum heim.

Eftir að hafa rölt um Oxford street og verslað aðeins tók við smá afslöppun á hótelinu áður en við héldum á næsta veitingastað, Gourmet Burger Kitchen. Það var mjög skemmtilegur staður með æðislegum mat. Ég fékk mér hamborgara með beikoni og avokado og Öggi klassískan borgara. Með þessu fengum við þær bestu franskar sem við höfum smakkað, bæði venjulegar og rósmarín franskar, og hvítlauksmajónes. Þetta var æðislega gott og okkur langar báðum að fara þangað aftur.

Dagurinn endaði á að það var bankað á herbergishurðina okkar og komið inn með rauðvínsflösku í boði hússins. Þetta kom okkur svo á óvart að við héldum að það hefði verið ruglast á herbergi en svo var víst ekki.  Flaskan var til okkar og við þökkuðum vel fyrir.

Ég ætlaði að setja inn uppskrift sem ég eldaði um daginn en er orðin stjörf af þreytu. Hún fær því að bíða betri tíma.