Tacobaka með kjúklingi

Við erum með æði fyrir bökum þessa dagana og það líður varla sú vika sem við höfum ekki böku í matinn. Á föstudagskvöldinu gerði ég þessa tacoböku með kjúklingi sem öllum þótti mjög góð og Ögga svo góð að hann talaði ekki um annað alla helgina.

Ég hef fengið nokkrar fyrirspurnir varðandi bökuformin mín. Ég á tvenn lausbotna form, eitt lágt fyrir eftirréttabökur sem ég keypti í Fjarðarkaupum og síðan það sem ég nota fyrir matarbökur og keypti í Pipar og salt á Klapparstíg. Þar er hægt að fá bökuform í öllum stærðum og gerðum og þau kosta ekki mikið. Mig minnir að mitt hafi kostað um 2500 kr.

Tacobaka með kjúklingi

Skel:

 • 5dl hveiti
 • 250 g smjör við stofuhita
 • 1 tsk salt
 • 4 msk kalt vatn
 • Cayennepipar

Fylling:

 • 3-4 kjúklingabringur
 • 1 laukur
 • 1 hvítlauksrif
 • 3-4 dl sýrður rjómi
 • 1 poki tacokrydd
 • jalapeño úr krukku (eða 1/2 rauð paprika)
 • 3 msk chilisósa
 • salt

Hitið ofninn í 200°. Vinnið saman hráefnin í skelina og fletjið út í lausbotna form (ca 24 cm). Stráið jalapeño yfir botninn og látið standa í ískáp um stund.

Skerið kjúklinginn smátt og steikið á pönnu þar til hann er næstum steiktur í gegn. Bætið fínhökkuðum lauk á pönnuna og steikið þar til laukurinn er mjúkur og kjúklingurinn er steiktur í gegn. Leggið í bökuformið.

Blandið saman sýrðum rjóma, tacokryddi, chilisósu, pressuðum hvítlauk og salti í skál. Setjið blönduna yfir kjúklinginn.

Grjófmyljið nachosflögur og setjið yfir bökuna þannig að þær þekji alveg fyllinguna. Stráið vel af rifnum osti yfir og setjið í ofninn í ca 40 mínútur.

Mexíkósk kjúklingabaka

Ég ákvað fyrir viku að gera þessa böku í kvöld og er búin að hlakka til í allan dag.  Okkur finnst hún æðislega góð og það er ekki hægt annað en að elska hana. Hún er einföld, fljótgerð og fullkominn endir á vinnuvikunni.  Þið bara verðið að prófa.

Botn

 • 3 dl hveiti
 • 100 gr smjör
 • 2 msk vatn

Fylling

 • 3 kjúklingabringur
 • 1 laukur, hakkaður
 • nokkrir niðurskornir sveppir
 • 1 rauð paprika, skorin smátt
 • 150 gr. rjómaostur
 • 1/2 dós chunky salsa
 • 3 dl rifinn ostur

Hitið ofninn í 225°. Blandið hráefninu í botninn saman þannig að það myndi deigklump, fletjið hann út og fyllið út í bökumót (ég nota oft bara venjulegt kökuform). Forbakið í ca 10 mínútur.

Bræðið smjör á pönnu og mýkið laukinn, sveppina og paprikuna við miðlungsháan hita. Á meðan passar vel að skera kjúklingabringurnar í lekkera bita. Þegar grænmetið er tilbúið er það tekið af pönnunni og kjúklingabitarnir steiktir upp úr smjöri. Bætið grænmetinu aftur á pönnuna ásamt rjómaostinum og salsasósunni og leyfið að malla saman um stund.

Setjið fyllinguna í forbakaðan botninn og stráið rifnum osti yfir. Bakið þar til osturinn er bráðnaður og kominn með fallegan lit.

Berið fram með góðu salati, nachos, sýrðum rjóma og guacamole.