Hakkpanna með hvítkáli

Ég kíki stutt inn í kvöld þar sem ég er með saumaklúbb og stelpurnar eru væntanlegar á hverri stundu. Ég ætla að bjóða upp á gríska ofnréttinn og hvítlauksbrauð. Ég er síðan búin að gera tvær kökur í eftirrétt.

Í gær var í mörgu að snúast hér á heimilinu og ég náði aldrei að setja inn færslu. Ég eldaði kvöldmat sem krökkunum þótti svo góður að ég má til með að setja hann inn. Ég átti hvítkál sem var fyrir mér í ískápnum og ég vildi fara að losna við. Ég átti líka tæplega hálfa krukku af tómatþykkni  og rúmlega botnfylli af rifsberjasultu. Allt fékk þetta að fara á pönnuna ásamt kjötkrafti, soyasósu, salti  og pipar og úr varð stórfínn réttur.

Hakkpanna með hvítkáli

  • 1 bakki nautahakk
  • 1 bakki svínahakk
  • 1-2 laukar, skorinn fínt
  • ½ hvítkálshaus, skorinn nokkuð smátt
  • 4-5 msk tómatpuré
  • 3-4 msk rifsberjahlaup
  • 2 teningar kjötkraftur
  • soyasósa
  • salt og pipar

Steikið hvítkál og lauk við miðlungsháan hita upp úr vænni klípu af smjöri þar til það er orðið mjúkt og byrjað að glansa. Takið af pönnunni og leggið til hliðar.

Setjið olíu á pönnuna og steikið hakkið. Bætið hvítkálinu og lauknum ásamt restinni af hráefnunum á pönnuna og látið malla um stund. Smakkið til með salti og pipar og bætið við tómatpuré, rifsberjahlaupi eða soyasósu eftir þörfum.

Það þarf enga sósu með þessu því það myndast sósa af soðinu. Ég sauð kartöflur og dró fram hrásalat og sultu til að hafa með. Krakkarnir elskuðu þetta.