Kanilsykurhúðaðir kleinuhringir

Kanilsykurhúðaðir kleinuhringir

Við fáum okkur oft kvöldkaffi á virkum dögum en um helgar þrái ég helgarkaffið með heimabökuðu og nýju brauði. Það er þó ekki kaffið sem ég þrái heldur sætabrauðið og þegar ég dett niður á girnilegar sætabrauðsuppskriftir þá get ég ekki hætt að hugsa um þær.

Kanilsykurhúðaðir kleinuhringir

Tengdó bauð okkur í kaffi fyrir nokkru og þar sem ég hafði stuttu áður dottið niður á uppskriftina af þessum kleinuhringjum greip ég tækifærið, bakaði þá og tók með mér. Uppskriftina lofaði ég að setja á bloggið en virðist hafa gleymt því. Ég furða mig á því, sérstaklega þar sem mér þóttu kleinuhringirnir svo góðir að ég hef verið á leiðinni að baka þá aftur. Kaffigestirnir voru líka hrifnir og kleinuhringirnir voru fljótir að hverfa af borðinu.

Kanilsykurhúðaðir kleinuhringir

Ég bar kleinuhringina fram heita með vanilluís (það má alltaf ganga að góðum vanilluís sem vísum í frystinum hjá tengdó) en þeir standa þó vel fyrir sínu einir og sér. Þar sem ég hafði bakað þá um morguninn hitaði ég þá aðeins í ofninum áður en ég bar þá fram síðar um daginn.

Kanilsykurhúðaðir kleinuhringir (uppskrift frá Barefoot Contessa)

  • 1 bolli hveiti
  • 3/4 bolli sykur
  • 1 tsk lyftiduft
  • ½ tsk kanill
  • ¼ tsk múskat
  • ¼ tsk salt
  • 1 stórt egg
  • ½ bolli súrmjólk
  • 2 msk smjör, brætt
  • 1 tsk vanilludropar

Til að húða kleinuhringina:

  • 4 msk smjör, brætt
  • 1/2 bolli sykur
  • 1 tsk kanill

Hitið ofninn í 175° og spreyjið kleinuhringjabökunarform með olíu.

Sigtið hveiti, sykur, lyftiduft, kanil, múskat og salt saman í skál.

Hrærið egg, súrmjólk, brætt smjör og vanilludropa saman í annari skál. Hellið blöndunni saman við þurrefnin og hrærið saman í deig. Passið að ofhræra ekki deigið heldur bara hræra þar til það er slétt og kekkjalaust.

Setjið deigið í plastpoka og klippið smá af einu horninu. Sprautið deiginu í kleinuhringjamótið og fyllið það að þremur fjórðu með deigi. Bakið í 15-17 mínútur eða þar til bökunarprjóni stungið í kleinuhringinn kemur hreinn upp.  Látið kleinuhringina kólna í forminu í 5 mínútur áður en þeim er hvolft úr.

Hrærið saman sykri og kanil til að húða kleinuhringina með og bræðið smjörið. Penslið heita kleinuhringina með bræddu smjöri og veltið þeim síðan upp úr kanilsykrinum. Berið kleinuhringina heita fram.

Bananakleinuhringir með súkkulaðiglassúr

Bananakleinuhringir með súkkulaðiglassúr

Mér þykir þessi tími ársins alltaf svolítið ruglingslegur. Krakkarnir eru í sumarfríi en við Öggi ekki. Við hegðum okkur samt eins og við séu í fríi, förum allt of seint að sofa, borðum aðeins betri mat og lifum afslappaðra lífi.

Bananakleinuhringir með súkkulaðiglassúr

Við einfaldlega leyfum okkur meira og undanfarna daga hef ég bakað daglega. Mér þykir fátt jafnast á við það að fá hamingjusöm börn inn á kvöldin og setjast niður með þeim yfir nýbakökuðu bakkelsi. Heyra sögur frá deginum og njóta þess að fá smá gæðatíma saman áður en þau fara að sofa.

Bananakleinuhringir með súkkulaðiglassúr

Það hefur gripið um sig kleinuhringjaæði hjá mér og ég fæ ekki nóg af þeim. Það er svo gaman að baka kleinuhringi og enn skemmtilegra að bera þá fram. Ég hef bakað kleinuhringina hennar Nönnu (sjúklega góðir!) all oft upp á síðkastið og gæti vel gert mér þá að góðu það sem eftir er.

Bananakleinuhringir með súkkulaðiglassúr

Í gær breytti ég þó út af vananum og bakaði bananakleinuhringi með súkkulaðiglassúr. Uppátækið sló í gegn hjá krökkunum og  Gunnar sagðist aldrei hafa smakkað neitt jafn gott. Ég hef það á tilfinningunni að ég eigi eftir að baka þessa ansi oft í sumar.

Bananakleinuhringir með súkkulaðiglassúr

Bananakleinurhringir með súkkulaðiglassúr – uppskriftin gefur 16 kleinuhringi (uppskrift frá Heather Christo Cooks)

  • 2 bollar hveiti
  • 1 ¼ bolli sykur
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1 tsk salt
  • ½ tsk kanil
  • ¼ tsk múskat
  • ¾ bolli súrmjólk
  • ½ bolli stappaður banani (ca 1 banani)
  • 2 egg
  • 2 tsk vanilludropar (ég notaði vanillusykur)
  • 4 msk smjör

Súkkulaðiglassúr

  • ½ bolli rjómi (ég myndi byrja með ¼ bolla og bæta síðan við eftir þörfum)
  • 110 g hakkað dökkt súkkulaði
  • 2 msk sýróp

Hitið ofninn í 175° og spreyið kleinuhringjamót með olíu.

Bræðið smjör í litlum potti og látið það sjóða við vægan hita þar til það hefur brúnast (passið þó vel að brenna það ekki). Setjið til hliðar og látið kólna aðeins.

Blandið öllum þurrefnum saman í stóra skál.

Blandið saman súrmjólk, stöppuðum banana, eggjum og vanilludropum í skál. Setjið blönduna saman við þurrefnin og hrærið vel saman. Bætið brúnuðu smjörinu saman við og hrærið þar til allt hefur blandast vel.

Setjið deigið í kleinuhringjamótið (mér þykir gott að setja deigið í poka, klippa af einu horninu og sprauta deiginu í mótið), fyllið  2/3 af hverri holu. Bakið kleinuhringina í 8-10 mínútur eða þar til þeir eru bakaðir í gegn en þó mjúkir að utan. Mér þykir gott að prufa að þrýsta á þá, ef kleinuhringurinn gefur aðeins eftir en lyftist strax aftur upp þá er hann tilbúinn. Látið kleinuhringina kólna áður en glassúrin er settur á.

Glassúr: Setjið rjóma og hakkað súkkulaði í pott og hitið að suðu. Bætið sýrópinu saman við og takið pottinn af hitanum. Hrærið þar til súkkulaðið er bráðnað og glassúrin er orðin sléttur og glansandi.

Dýfið kleinuhringjunum ofan í glassúrinn og njótið.