Mér þykir þessi tími ársins alltaf svolítið ruglingslegur. Krakkarnir eru í sumarfríi en við Öggi ekki. Við hegðum okkur samt eins og við séu í fríi, förum allt of seint að sofa, borðum aðeins betri mat og lifum afslappaðra lífi.
Við einfaldlega leyfum okkur meira og undanfarna daga hef ég bakað daglega. Mér þykir fátt jafnast á við það að fá hamingjusöm börn inn á kvöldin og setjast niður með þeim yfir nýbakökuðu bakkelsi. Heyra sögur frá deginum og njóta þess að fá smá gæðatíma saman áður en þau fara að sofa.
Það hefur gripið um sig kleinuhringjaæði hjá mér og ég fæ ekki nóg af þeim. Það er svo gaman að baka kleinuhringi og enn skemmtilegra að bera þá fram. Ég hef bakað kleinuhringina hennar Nönnu (sjúklega góðir!) all oft upp á síðkastið og gæti vel gert mér þá að góðu það sem eftir er.
Í gær breytti ég þó út af vananum og bakaði bananakleinuhringi með súkkulaðiglassúr. Uppátækið sló í gegn hjá krökkunum og Gunnar sagðist aldrei hafa smakkað neitt jafn gott. Ég hef það á tilfinningunni að ég eigi eftir að baka þessa ansi oft í sumar.
Bananakleinurhringir með súkkulaðiglassúr – uppskriftin gefur 16 kleinuhringi (uppskrift frá Heather Christo Cooks)
- 2 bollar hveiti
- 1 ¼ bolli sykur
- 2 tsk lyftiduft
- 1 tsk salt
- ½ tsk kanil
- ¼ tsk múskat
- ¾ bolli súrmjólk
- ½ bolli stappaður banani (ca 1 banani)
- 2 egg
- 2 tsk vanilludropar (ég notaði vanillusykur)
- 4 msk smjör
Súkkulaðiglassúr
- ½ bolli rjómi (ég myndi byrja með ¼ bolla og bæta síðan við eftir þörfum)
- 110 g hakkað dökkt súkkulaði
- 2 msk sýróp
Hitið ofninn í 175° og spreyið kleinuhringjamót með olíu.
Bræðið smjör í litlum potti og látið það sjóða við vægan hita þar til það hefur brúnast (passið þó vel að brenna það ekki). Setjið til hliðar og látið kólna aðeins.
Blandið öllum þurrefnum saman í stóra skál.
Blandið saman súrmjólk, stöppuðum banana, eggjum og vanilludropum í skál. Setjið blönduna saman við þurrefnin og hrærið vel saman. Bætið brúnuðu smjörinu saman við og hrærið þar til allt hefur blandast vel.
Setjið deigið í kleinuhringjamótið (mér þykir gott að setja deigið í poka, klippa af einu horninu og sprauta deiginu í mótið), fyllið 2/3 af hverri holu. Bakið kleinuhringina í 8-10 mínútur eða þar til þeir eru bakaðir í gegn en þó mjúkir að utan. Mér þykir gott að prufa að þrýsta á þá, ef kleinuhringurinn gefur aðeins eftir en lyftist strax aftur upp þá er hann tilbúinn. Látið kleinuhringina kólna áður en glassúrin er settur á.
Glassúr: Setjið rjóma og hakkað súkkulaði í pott og hitið að suðu. Bætið sýrópinu saman við og takið pottinn af hitanum. Hrærið þar til súkkulaðið er bráðnað og glassúrin er orðin sléttur og glansandi.
Dýfið kleinuhringjunum ofan í glassúrinn og njótið.
Takk fyrir allar girnilegu uppskriftirnar. Alltaf gaman að fygjast með hjá þér.
Ætli það sé hægt að nota uppskriftina af kleinuhringjunum í muffins ef maður á ekki kleinuhringjamót, hvað heldur þú?
Hvar fær maður svona kleinuhringjamót. Takk fyrir fullt fullt af fràbærum uppskriftum …Skoða bloggið daglega..
Þessir eru mjög girnilegir! Og verða næstir á dagskrá hjá mér þar sem ég er búin að baka kaffihringina vandræðalega oft 😉
váv Svava, hvað þetta er flott.
Þessa langar mig að prófa sem fyrst – líta ekkert smá girnilega út? En ég spyr eins og fávís kona; hvar fær maður svona kleinuhringjamót?
Kleinuhringjamótin fást í verslun í Ármúlanum sem heitir Allt í köku 🙂
Sæl og kærar þakkir fyrir skemmtilegt matarblogg. Búin að nota margar uppskriftir frá þér. Ég á 6 stelpur (barnabörn) sem mundu elska þessa kleinuhringi. En hvar fæ ég þessi bökunarmót?
Með körri kveðju,
Had Hafdís Þórólfsdóttir amma í Árbænum.
Sent from my iPad
Sæl Hafdís.
Ég fékk kleinuhringjamótin í verslun í Ármúla sem heitir Allt í köku.
Bestu kveðjur,
Svava.
Ég er búin að panta kleinuhringjaform hjá Allt í Köku í Ármúla. Það er von á sendingu öðru hvoru megin við helgina. Get ekki beðið því mig langar svo sjúklega í þessa kleinuhringi 😉