Hakkpanna með hvítkáli

Ég kíki stutt inn í kvöld þar sem ég er með saumaklúbb og stelpurnar eru væntanlegar á hverri stundu. Ég ætla að bjóða upp á gríska ofnréttinn og hvítlauksbrauð. Ég er síðan búin að gera tvær kökur í eftirrétt.

Í gær var í mörgu að snúast hér á heimilinu og ég náði aldrei að setja inn færslu. Ég eldaði kvöldmat sem krökkunum þótti svo góður að ég má til með að setja hann inn. Ég átti hvítkál sem var fyrir mér í ískápnum og ég vildi fara að losna við. Ég átti líka tæplega hálfa krukku af tómatþykkni  og rúmlega botnfylli af rifsberjasultu. Allt fékk þetta að fara á pönnuna ásamt kjötkrafti, soyasósu, salti  og pipar og úr varð stórfínn réttur.

Hakkpanna með hvítkáli

 • 1 bakki nautahakk
 • 1 bakki svínahakk
 • 1-2 laukar, skorinn fínt
 • ½ hvítkálshaus, skorinn nokkuð smátt
 • 4-5 msk tómatpuré
 • 3-4 msk rifsberjahlaup
 • 2 teningar kjötkraftur
 • soyasósa
 • salt og pipar

Steikið hvítkál og lauk við miðlungsháan hita upp úr vænni klípu af smjöri þar til það er orðið mjúkt og byrjað að glansa. Takið af pönnunni og leggið til hliðar.

Setjið olíu á pönnuna og steikið hakkið. Bætið hvítkálinu og lauknum ásamt restinni af hráefnunum á pönnuna og látið malla um stund. Smakkið til með salti og pipar og bætið við tómatpuré, rifsberjahlaupi eða soyasósu eftir þörfum.

Það þarf enga sósu með þessu því það myndast sósa af soðinu. Ég sauð kartöflur og dró fram hrásalat og sultu til að hafa með. Krakkarnir elskuðu þetta.

Ostafyllt buff með rjómasósu

Ég er með móral yfir því að hafa ekki náð að svara skilaboðum og kommentum síðustu daga. Það er búið að vera mikið að gera og ég er þess að auki búin að vera í saumaklúbbum síðustu tvö kvöld. Eins og svo oft vill verða kom ég allt of seint heim úr þeim og ætlaði ekki að trúa því þegar vekjaraklukkan hringdi morgnana eftir. Ég bæti bloggleysið í gær vonandi upp með þessari uppskrift af alveg dásamlegum mat sem við borðuðum í kvöld.

Í gær var ömurlegt veður en Öggi og Gunnar létu það ekki aftra sér við að taka þátt í Atlantsolíuhlaupinu. Mér leist ekkert á blikuna þegar ég kvaddi þá og varð ekki róleg fyrr en ég fékk sms frá Ögga um að þeir væru komnir í mark. Gunnar hafði staðið sig vel, eins og alltaf, og hreppti bronsverðlaun. Við erum að springa úr stolti og Gunnar hefur enn ekki tekið medalíuna af sér.

Á meðan feðgarnir hlupu í roki og rigningu sátum við hin inni í hlýjunni við kertaljós og gæddum við okkur á ljúffengri aspassúpu. Ég ætlaði að setja inn uppskriftina af henni en áður en ég vissi af var ég orðin of sein í saumaklúbbinn og mátti því ekkert vera að því að setjast við tölvuna.

Í kvöld var fyrsta rólega kvöld vikunnar og við nutum þess að vera öll heima. Við kveiktum á kertum og sátum lengi yfir kvöldmatnum og höfðum það notalegt. Kvöldmaturinn var dásemd sem ég gef uppskriftina af með gleði og vona að ykkur þyki hann jafn góð og okkur.

Ostafyllt buff með rjómasósu

 • ca 500 gr nautahakk
 • ca 500 gr svínahakk
 • 1 egg
 • 1 dl rjómi
 • nýmalaður svartur pipar
 • 1 tsk timjan
 • 150 gr góður ostur, t.d. gráðostur eða hvítmygluostur (mér þykir gott að nota Ljúfling)

Sósa

 • 4 dl rjómi
 • 1 dl vatn
 • 1-2 grænmetisteningar
 • ca 1-2 tsk rifsberjasulta
 • hvítur pipar

Blandið vel saman nautahakki, svínahakki, eggi, rjóma, pipar og timjan (ég nota K-ið á hrærivélinni en það má vel gera þetta í höndunum).  Mótið 9 buff og gerið holu í miðjuna á þeim. Skerið ostinn í bita, stingið þeim í holurnar og lokið vel fyrir.

Hitið smjör á pönnu og steikið buffin við miðlungshita. Steikið buffin í tveimur umgöngum í 2-3 mínútur á hvorri hlið. Það á ekki að fullsteikja buffin. Hafið engar áhyggjur ef einhver ostur læðist úr þeim, það gerir sósuna bara betri. Þegar buffin hafa verið steikt eru þau lögð til hliðar og gerð sósa úr steikarsoðinu. Hellið rjóma, vatni og grænmetisteningi á pönnuna og látið suðuna koma upp. Smakkið til með rifsberjasultu, hvítum pipar og grænmetiskrafti. Setjið buffin aftur á pönnuna og látið þau sjóða við vægan hita í sósunni í nokkrar mínútur eða þar til þau eru tilbúin. Ég hræri smá Maizena út í sósuna í lokin til að þykkja hana.

Við bárum réttinn fram með soðnum kartöflum, salati og rifsberjasultu sem okkur þótti æðislega góð með.