Kjúklingur í panang karrý

Það styttist í helgina og eflaust margir farnir að gera helgarplön. Sjálf sé ég fram á rólega helgi og hafði því hugsað mér að halda áfram að horfa á Big Little Lies. Við erum búin með fyrstu tvo þættina á jafn mörgum vikum og ég búin að lýsa því yfir hér heima að við munum fara langt með seríuna yfir helgina. Nú er því bara að standa við stóru orðin og leggjast í sófann með popp og nammi.

Fyrir þá sem eru að velta helgarmatnum fyrir sér þá mæli ég með þessum kjúklingi í panang karrý sem við vorum með í kvöldmat um daginn. Ég panta mér alltaf panang karrý þegar ég fer á tælenska veitingastaði og fæ ekki leið á því. Þessi réttur er bæði fljótgerður og súpergóður. Ég mæli með að prófa!

Kjúklingur í panang karrý

Panangkarrýmauk

  • 3 msk rautt karrýmauk
  • 1 msk hnetusmjör (creamy)
  • 1/2 tsk kórianderkrydd
  • 1/4 tsk cumin

Rétturinn

  • 1 msk kókosolía
  • 1 skarlottulaukur
  • 1 msk rifið engifer
  • 1 dós kókosmjólk
  • 300-400 g kjúklingalundir eða -bringur, skornar í þunnar sneiðar
  • 1,5 dl vatn
  • 1 kjúklingateningur
  • 2 tsk fiskisósa
  • 1 msk sykur
  • 10 dl blandað grænmeti (t.d. brokkólí, gulrætur, paprika, kartöflur, sveppir, sætar kartöflur…)
  • 170 g hrísgrjónanúðlur, eldaðar eftir leiðbeiningum á pakkningu
  • ferskt kóriander og lime skorið í báta til að bera fram með réttinum
Skerið grænmetið niður og steikið í smá ólívuolíu á pönnu við miðlungsháan hita þar til grænmetið er komið með fallegan lit (3-5 mínútur). Leggið til hliðar.

Hitið olíu á pönnu, bætið skarlottulauknum á pönnuna og mýkið í 3-4 mínútur, eða þar til laukurinn er orðinn mjúkur og glær. Bætið engifer á pönnuna og steikið í hálfa mínútu áður en 1/4 af kókosmjólkinni er bætt á pönnuna ásamt karrýmaukinu. Steikið saman í 1 mínútu. Bætið kjúklingi á pönnuna og steikið í 2-3 mínútur. Bætið því sem eftir var af kókosmjólkinni ásamt vatninu, kjúklingateningnum, fiskisósunni og sykrinum á pönnuna og látið sjóða saman við vægan hita í 5-10 mínútur. Bætið grænmetinu saman við.

Sjóðið núðlurnar eftir leiðbeiningum á pakkningu.

Berið réttinn fram með núðlum, fersku kóriander og lime sem hefur verið skorið í báta.

SaveSave

Tælenskur kjúklingur í grænu karrýi

Tælenskur kjúklingur í grænu karrýi

Ó, hvað það er alltaf notalegt að fá frídag í miðri viku. Að geta vakað lengur, sofið út og fengið langan helgarmorgunverð án þess að það sé helgi. Frábær hversdagslúxus.

Tælenskur kjúklingur í grænu karrýi

Í dag er síðasti vetrardagur og því ákváðum við að vera með góðan kvöldverð. Eftir miklar vangaveltur féll valið á tælenskan. Við erum öll hrifin af tælenskum mat og þar sem ég átti kjúklingabringur lá beinast við að gera kjúklingarétt. Svo var jú mikilvæg að rétturinn yrði stórgóður. Það er jú síðasti vetrardagur og allt.

Tælenskur kjúklingur í grænu karrýi

Ég fékk þennan kvöldverð á heilann. Það var eins og við værum að fá kóngafólk í heimsókn og ég yrði að standa mig. Ég hugsaði um hann í allan dag og um leið og ég kom heim úr vinnunni tók ég fram það sem mig langaði að setja í réttinn og byrjaði að undirbúa. Sumt var ég ekki viss um en ákvað þó að láta vaða og á pönnuna fóru meðal annars hvítlaukur og lemon grass sem reyndust fara stórvel með græna karrýinu.

Tælenskur kjúklingur í grænu karrýi

Úr varð besti tælenski réttur sem ég hef nokkurn tímann borið á borð. Mér þótti hann dásamlegur. Okkur þótti það öllum. Rétturinn var svo bragðgóður og yfir hann settum við hakkaðar salthnetur, vorlauk og ferskt kóriander sem fullkomnaði allt.  Okkur tókst að kveðja veturinn með stæl og á morgun ætlum við að bjóða sumarið velkomið með grillveislu. Vertu ávalt velkomið sumar, ég vona að þú dveljir sem lengst hjá okkur.

Tælenskur kjúklingur í grænu karrýi

Tælenskur kjúklingur í grænu karrýi

  • 900 g kjúklingabringur
  • 2 msk rapsolía
  • 2 -2,5 msk green curry paste frá Thai Choice
  • 2 hvítlauksrif, fínhökkuð
  • 1 tsk lemon grass frá Thai Choice
  • 1 tsk hrásykur
  • 2 msk fish sauce
  • 1 dós kókosmjólk (400 ml.) frá Thai Choice
  • 1 sæt kartafla, skorin í teninga
  • salthnetur, grófsaxaðar
  • vorlaukur, skorin í sneiðar
  • ferskt kóriander
  • hrísgrjón
  • lime

Hitið olíu á pönnu og setjið hvítlauk og karrýmauk saman við. Steikið við miðlungsháan hita í 1 mínútu. Bætið kjúklingnum á pönnuna og steikið áfram í aðra mínútu. Setjið fiskisósu, lemon grass og hrásykur á pönnuna og látið malla í 3-4 mínútur. Bætið sætum kartöflum á pönnuna og hellið kókosmjólk yfir. Látið sjóða þar til kartöflurnar eru soðnar.

Berið fram með hrísgrjónum, limebátum, salthnetum, vorlauk og fersku kóriander.

Tælenskur kjúklingur í grænu karrýi