Fylltar brauðskálar með eggjum og beikoni

Eitt það besta við helgarnar er að geta byrjað daginn rólega og setið lengi saman yfir morgunmatnum. Mér finnst svo gaman að hafa aðeins fyrir morgunmatnum og vekja fjölskylduna með uppdúkuðu borði fyllt af góðgæti. Á borðinu finnst mér síðan verða að vera góður appelsínusafi eða Floridana heilsusafi sem ég helli í könnu fulla af klökum. Mér þykir safinn verða svo mikið betri við það, hann verður svo ískaldur og svalandi.

Við byrjuðum daginn í dag á þessum fylltu brauðskálum. Þær eru einfaldar og nokkuð fljótgerðar og því alveg tilvaldar á morgunverðarborðið. Ég átti heimilisbrauð og notaði það en eftir á að hyggja held ég að franskbrauð hafi verið enn betra og ætla að prófa það næst.

Þetta er engin heilög uppskrift og alveg kjörið að nota það sem er til að hverju sinni. Aðalmálið er að eiga brauð og egg, síðan má fylla það með hverju sem er. Það er t.d. hægt að nota chorizo-pylsu í staðin fyrir beikon eða að sleppa alveg kjötinu og setja t.d. smjörsteikt spínat, papriku og parmesan ost í brauðið.

Fylltar brauðskálar með eggjum og beikoni

 • 1 1/2 brauðsneið fyrir hverja brauðskál
 • smjör
 • beikon
 • egg
 • maldon salt og pipar

Hitið ofninn í 185° og smyrjið möffinsform (ekki pappírsform heldur möffins-bökunarform eins og sést glitta í hér á myndinni fyrir ofan) með bræddu smjöri. Fletjið brauðsneiðarnar út með kökukefli, skerið í eins stóra hringi og þið náið og skerið síðan hringinn í tvennt. Klæðið möffinsformið með brauðhelmingunum, ég notaði 3 helminga til að fylla formið mitt. Smyrjið brauðið með bræddu smjöri.

Steikið beikonið yfir miðlungs hita þar til það er nánast stökkt, ca 4 mínútur. Leggið 1 beikonsneið í hverja brauðskál og brjótið eitt egg yfir.  Saltið og piprið og bakið í ofninum þar til eggjahvíturnar hafa stífnað, um 20-25 mínútur. Berið fram heitt.

2 athugasemdir á “Fylltar brauðskálar með eggjum og beikoni

 1. En sniðugt og flott að bera fram á borði. Er mikið að spá í að demba mér í þetta eða jamie morgunverðapönnuna með kartöflunum og chorizopylsunni og hafa í morgunmat á Eid hátíðinni hjá okkur. Og að sjálfsögðu amerísku pönnsurnar og heimabakað brauð. Maður finnur þetta allt saman á þessu flotta bloggi hjá þér sis :-*

 2. Reyndi við þessa, en það var ekki möguleiki fyrir mig að móta brauðið almennilega, hvernig ferðu að því? Kannski er ég með of lítið form.. Endaði allt á pönnu og í beikon eggja brauð hræru! Can’t win them all.
  Hef hinsvegar prófað margar uppskriftir hjá þér sem hafa heppnast frábærlega, er daglega hér inni.
  Takk fyrir mig 🙂

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s