Tælenskur matur hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér. Þegar ég var í menntaskóla var tælenskur staður á horni Laugavegs og Smiðjustígs og þar kynntist ég fyrst tælenskum mat. Ég vann með skólanum og í hvert skipti sem ég fékk útborgað hélt ég upp á það með því að fara þangað og kaupa mér stóran skammt af nautakjöti i bambuschili. Mikið þótti mér það gott. Ég syrgi staðinn enn og gæfi mikið fyrir skammt af þessum dásamlega rétti.
Í seinni tíð hef ég orðið hrifnari af tælenskum karrýréttum. Ég hef eldað margar karrý-uppskriftir og hef enn ekki lent á uppskrift sem mér líkaði ekki. Um daginn datt ég niður á síðu sem heitir MedeterrAsian. Mig langaði að prófa rétt af síðunni og var satt að segja lengi að ákveða hvaða rétt ég ætti að velja. Þessi kjúklingur í rauðu karrýi varð fyrir valinu og við vorum mjög ánægð með hann. Malín var í afmæli í kvöld og það voru því bara við Öggi og strákarnir í mat. Okkur tókst að klára réttinn upp til agna og hefðum gjarnan viljað hafa meira af honum.
Tælenskur kjúklingur í rauðu karrý
- 2 msk hnetuolía eða önnur bragðlaus olíka (ekki ólívuolía)
- 1 laukur, skorinn fínt
- 1 msk Thai red curry paste
- 2 hvítlauksrif, skorin fínt
- 1 bolli kókosmjólk
- 1 bolli kjúklingasoð (1 bolli vatn + 1/2 teningur af kjúklingakrafti)
- 2 msk fiskisósa (fish sauce)
- 1 msk púðursykur
- 1/2 tsk salt
- 1 kúrbítur, skorinn í þunnar sneiðar
- 1 rauð paprika, skorin í strimla
- 900 gr kjúklingabringur, skornar í bita
- 2 msk maísmjöl blandað með 2 msk vatni
- 2 msk ferskur sítrónusafi
- 2 stór fersk basilikulauf, skorin fínt
Hitið olíu á pönnu við miðlungshita og steikið laukinn í 5 mínútur, hrærið reglulega í á meðan. Bætið karrýmauki og hvítlauk við laukinn og steikið áfram í um mínútu, hrærið í á meðan. Bætið kókosmjólk, kjúklingasoði, fiskisósu, púðursykri og salti saman við og látið suðuna koma upp. Bætið við kúrbít og papriku, setjið lok á pönnuna og látið sjóða við vægan hita í 12 mínútur. Á meðan passar vel að byrja að sjóða hrísgrjón til að bera fram með réttinum. Bætið kjúklingabitum á pönnuna og sjóðið áfram við vægan hita undir loki í 8 mínútur. Bætið maísmjöli hrærðu út í vatn rólega á pönnuna og hrærið þar til sósan hefur þykknað. Bætið sítrónusafa og basiliku að lokum á pönnuna. Berið fram með hrísgrjónum.
á að setja kjúllan hráan í pönnuna og sjóða þannig með ?