Heslihnetuvöfflur með berjakompóti og léttu rjómakremi

Á föstudagskvöldinu var ég að leita að gamalli uppskriftarbók þegar ég rakst á amerískt morgunverðarblað frá Fine Cooking, The best of breakfast. Ég hef áður skrifað um Fine Cooking blöðin en þau hafa lengi verið í uppáhaldi hjá mér. Ég hef bæði eldað og bakað upp úr þeim og allt hefur verið meiriháttar gott.

Það er meira en ár síðan ég keypti morgunverðarblaðið og ég var búin að gleyma að ég ætti það. Ég lá yfir því allt kvöldið, las uppskriftirnar og bretti upp á hornin á blaðsíðunum. Það er langt síðan ég sá jafn girnilegt matreiðslublað og mig langar að prufa allt í því. Mér þykja uppskriftirnar margar hverjar þó frekar eiga heima á brönsborði en sem morgunverður, eins og til dæmis þessar heslihnetuvöfflur.

Ég ætla ekki að reyna að lýsa því hvað okkur þóttu þessar vöfflur góðar. Í berjakompótinu er smá kanill og pínulítið af negul sem fyllti eldhúsið af dásamlegri lykt sem fékk okkur til að hugsa til jólanna. Það eru svo fallegir litir sem koma af berjunum og með hvíta rjómakreminu er þetta jafn fallegt og það er gott.

Helsihnetuvöfflur

 • 2/3 bolli muldar heslihnetur
 • 2 2/3 bollar hveiti
 • 1 msk lyftiduft
 • 1/2 tsk matarsódi
 • 3/4 tsk salt
 • 2 3/4 bollar sítrónumjólk (setjið 1 msk sítrónusafa í bollamál og fyllið restina  af mjólk og látið standa í 5 mínútur = 1 bolli sítrónumjólk)
 • 1/2 bolli grænmetisolía (Vegetable oil)
 • 4 stór egg
 • 1/3 bolli sykur
 • 1 1/2 tsk vanilludropar

Blandið 2 msk af hveiti saman við heslihneturnar og maukið með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Blandið saman í stórri skál muldum heslihnetum, hveiti, lyftidufti, matarsóda og salti. Í annari skál er sítrónumjólk, olíu, eggjum, sykri og vanilludropum hrært vel saman. Notið stóran þeytara eða sleikju til að hræra smátt og smátt vökvanum saman við þurrefnin. Hrærið þar til allt hefur blandast, það er í góðu lagi þó það séu smáir kögglar í deiginu.

Látið deigið standa í að minnsta kosti 20 mínútur við stofuhita eða allt að tvo tíma í ískáp. Það má baka vöfflurnar á venjulegu eða belgísku vöfflujárni.

Góð ráð við vöfflubakstur:

 • Ekki stafla vöfflunum. Til að halda þeim heitum er gott að setja vöfflurnar beint á grindina í 90° heitum ofni.
 • Sýnið þolinmæði – ekki byrja að baka vöfflurnar fyrr en vöfflujárnið er búið að ná réttum hita. Ef vöfflujárnið er ekki með ljós sem gefur til kynna hvort að vöfflujárnið sé tilbúið má finna það út með því að setja nokkra dropa á vatni á það. Ef droparnir krauma á járninu þá er það tilbúið.
 • Smyrjið vöfflujárnið á milli bakstra. Það er til dæmis þæginlegt að nota PAM olíusprey til að spreyja á vöfflujárnið.

Berjakombót

 • 2 tsk maíssterkja
 • 1 msk vatn eða brandý
 • 4 bollar frosin berjablanda, afþýdd
 • 1 bolli sykur
 • fínrifið hýði af 1 sítrónu
 • 1/4 tsk kanil
 • 1/4 tsk blanda af kanil og negul

Hrærið saman maíssterkju og vatni eða brandý. Setjið þýðin berin ásamt vökvanum af þeim í pott með sykrinum, sítrónuhýðinu og kryddunum. Hrærið í pottinum og hitið við miðlungsháan hita þar til suðan kemur upp. Hrærið þá maíssterkjunni úthrærði í vatn eða brandý út í pottinn og látið sjóða í 1 mínútu. Takið pottinn af hitanum, vökvinn heldur áfram að þykkna þegar blandan kólnar. Berið berjakombótið fram heitt eða við stofuhita.

Létt rjómakrem

 • 1/2 bolli sýrður rjómi
 • 3 msk sykur
 • 1 bolli kaldur rjómi

Hrærið sýrðum rjóma saman við sykur þar til blandan er mjúk. Þeytið rjómann í sér skál þar til hann byrjar að mynda toppa. Passið að þeyta hann ekki of mikið, rjóminn á að halda formi þegar þeytaranum er lyft frá en ekki vera stífþeyttur. Notið sleikju til að hræra fyrst helmingnum af þeytta rjómanum saman við sýrða rjómann og bætið síðan restinni af rjómanum við. Hrærið með sleikjunni þar til allt hefur blandast vel.

2 athugasemdir á “Heslihnetuvöfflur með berjakompóti og léttu rjómakremi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s