
Mér þykir ótrúlegt að hugsa til þess að í dag sé litla bloggið mitt orðið eins árs. Á þessu fyrsta ári hefur bloggið vaxið og dafnað, daglegar heimsóknir sem voru í byrjum örfáar eru í dag um 15 þúsund á bestu dögum og það gleður mig inn að hjartarótum hvað þið hafið skilið falleg spor eftir ykkur.
Bloggið væri ekkert án ykkar og það gleður mig á hverjum degi að þið lítið við hjá mér á vafri ykkar um netið. Mér þykir svo gaman að skrifa ykkur og ég stend mig að því þegar ég borða góðan mat að hlakka til að setja uppskriftina á bloggið. Mér þykir gaman að deila með ykkur uppskriftum sem að mér þykja góðar og ég hef réttlætt kaup á nýjum matreiðslubókum með þeim rökum að við erum svo mörg sem náum að nýta uppskriftirnar. Pínu galið, en alveg dagsatt.

Mér þykir óendanlega vænt um allar kveðjur, tölvupósta og komment sem að þið hafið sent mér og þegar þið heilsið mér á förnum vegi fyllist ég af gleði. Það er svo gaman að fá andlit við bloggheimsóknirnar og ég dáist að ykkur sem hafið stigið fram og heilsað mér. Að gefa sér tíma í dagsins amstri til að staldra við og hrósa öðrum er aðdáunarvert og til fyrirmyndar.
Afmælinu ber að fagna, það er ekki spurning! Helst hefði ég viljað blása til veislu og bjóða ykkur öllum í köku og kaffi, en það væru eflaust öfgafull viðbrögð á eins árs bloggafmæli. Í staðin hófum við daginn á glettilega góðum vöfflum sem við nutum í sólinni úti á palli. Í tilefni dagsins fær síðan svo smá upplyftingu.

Öggi kom mér á óvart og gaf blogginu logo sem hann hafði hannað í afmælisgjöf. Þið sjáið það hér efst á síðunni, á nýju forsíðumyndinni. Hugsunin á bak við hönnunina er sú að logoið eigi að líta út eins og stimpill og stjörnuna setti hann efst því hann veit hvað ég er hrifin af þeim. Mér þykir hönnunin svo falleg hjá honum og logoið hefði ekki getað verið fullkomnara. Takk elskan.
Hnetusmjörs- og súkkulaðivöfflur með bananarjóma (uppskrift frá The sisters café)
- 1 bolli fínmalað spelt
- 1 msk lyftiduft
- ¾ tsk salt
- ½ bolli crunchy hnetusmjör
- ¼ bolli sykur
- 4 msk smjör, brætt
- 2 egg
- 1 bolli mjólk
- ½ bolli grófhakkað suðusúkkulaði (ég notaði Konsum dropa frá Nóa Síríus)
Blandið hveiti lyftidufti og salti saman í skál.
Hrærið hnetusmjör og sykur saman í annarri skál þar til blandan verður mjúk og kremkennd, bætið þá bræddu smjöri saman við. Hrærið eggjum út í, einu í einu, og hrærið þar til deigið er orðið mjúkt og kekkjalaust. Hrærið þurrefnablöndunni varlega saman við og hrærið þar til deigið er kekkjalaust en passið að ofhræra ekki. Hrærið súkkulaðibitunum saman við.
Látið deigið standa í að minnsta kosti 10 mínútur áður en þið bakið úr því. Deigið þykknar örlítið við það. Bakið vöfflurnar á heitu vöfflujárni og berið þær fram með banarjóma.
Bananarjómi
- 2 stórir bananar
- ¼ bolli sykur
- ½ tsk kanil
- ½ tsk sítrónusafi
- 1 bolli rjómi (1 peli)
Stappið bananana í lítilli skál og setjið sykur, kanil og sítrónusafa saman við þá. Þeytið rjómann í annarri skál. Blandið bananablöndunni saman við þeytta rjómann og berið strax fram. Mér fannst passlegt að nota helming af bananablöndunni út í rjómann – smakkið ykkur áfram.
Líkar við:
Líka við Hleð...