Vöfflur með sýrðum rjóma, kavíar, rauðlauki og dilli

Ég veit að það eru ekki allir hrifnir af kavíar en ég fæ ekki nóg af honum, sérstaklega þegar hann er borinn fram með sýrðum rjóma og öðru góðgæti. Ég veit ekki hversu oft ég hef boðið upp á þetta snakk (það er klikkað!) og þessi pizza er með þeim betri sem hægt er að hugsa sér (og passar svo vel með kældu hvítvíni). 

Ég ákvað um helgina að bjóða heim í vöfflur yfir leiknum (Svíþjóð – England, sem útskýrir sænska fánann á borðinu). Ég bar vöfflurnar fram með sultum, nutella og rjóma en þar sem leikurinn var fljótlega eftir hádegi vildi ég líka bjóða upp á matarmeiri vöfflur. Ég átti kavíar í ísskápnum sem fékk að fara á vöfflurnar ásamt sýrðum rjóma, rauðlauki og dilli (eins og á pizzunni góðu). Það kom brjálæðislega vel út! Þetta er einfaldlega nokkuð sem allir þurfa að prófa, líka þeir sem þykjast ekki borða kavíar!

Besta vöffluuppskriftin kemur frá Food 52:

 • 1½ bolli hveiti
 • ½ bolli kornsterkja (maizenamjöl)
 • 1 tsk lyftiduft
 • ½ tsk matarsódi
 • 1 tsk salt
 • 2 bollar nýmjólk eða súrmjólk
 • 2/3 bolli grænmetisolía (vegetable oil) eða brætt smjör
 • 2 egg
 • 3 tsk sykur
 • 1 ½ tsk vanilludropar

Setjið hveiti, kornsterkju, lyftiduft, matarsóda og salt í skál og blandið vel saman. Bætið mjólk, grænmetisolíu, eggjum, sykur og vanillu saman við og blandið vel. Látið deigið standa í 30 mínútur. Bakið vöfflurnar á smurðu vöfflujárni.

Yfir vöfflurnar:

 • sýrður rjómi (hrærið hann aðeins upp, svo hann verði kekkjalaus og mjúkur)
 • kavíar
 • rauðlaukur, fínhakkaður
 • ferskt dill

Sænskar pönnukökur

Sænskar pönnukökurÉg hef alltaf verið ferlega klaufsk þegar kemur að íslenskum pönnukökum og hef satt að segja aldrei komist upp á lagið með að steikja þær þunnar og fallegar. Framan af kenndi ég pönnukökupönnunni um en eftir að tengdamamma mín steikti fullkomnar pönnukökur trekk í trekk á henni neyddist ég til að horfast í augu við að klaufaskapinn yrði ég að skrifa á mig.

Sænskar pönnukökurÞað er mér til happs að okkur þykja sænsku pönnukökurnar ekki síðri og meira að segja örlítið betri en þær íslensku. Það er nefnilega ekkert mál að steikja þær því þær eru aðeins þykkari. Ég virðist svakalega flink þegar ég sný þeim með að henda þeim í loftið og grípa aftur með pönnukökupönnunni en það er þó ástæða fyrir þeim stælum. Ég næ ómöglega að snúa þeim öðruvísi án þess að rífa þær með spaðanum! Það er svo einfalt að gera þetta svona, þegar pönnukakan er orðin laus frá pönnunni þá er tímabært að snúa henni. Þegar seinni hliðin losnar þá er pönnukakan tilbúin. Pönnukökurnar eru þá brotnar saman og bornar fram með sultu og rjóma.

Sænskar pönnukökur

Sænskar pönnukökur (uppskrift frá Kokaihop)

 • 2,5 dl hveiti
 • 1/2 tsk salt
 • smá vanillusykur
 • 6 dl mjólk
 • 4 egg
 • 1 msk sýrður rjómi
 • 3 msk smjör til að steikja upp úr (ég nota mun meira)

Blandið þurrefnum saman í skál. Bætið mjólk og sýrðum rjóma saman við og hrærið vel saman. Hrærið að lokum eggjunum í blönduna. Steikið upp úr smjöri.

Sænskar pönnukökurSænskar pönnukökur

Syndsamlega góðar vöfflur

Syndsamlega góðar vöfflur

Ég hef áður sagt frá vöffluæðinu sem virðist ganga árstíðarbundið yfir heimilið og enn og aftur ætla ég að bjóða upp á nýja vöffluuppskrift. Ég held í alvöru að þessi sé best, eða í það minnsta deili toppsætinu með hnetusmjörs- og súkkulaðivöfflunum, þó að hráefnalistinn sé ekki með hefðbundnu móti. Mig rekur ekki minni til að hafa séð kornsterkju og grænmetisolíu í íslenskum vöffluuppskriftum en hér bregður báðum þessum hráefnum fyrir og gera vöfflunni góð skil. Stökk að utan, mjúk að innan. Þannig vil ég hafa vöfflurnar og þannig eru þessar. Dásamlegar með sultu og rjóma og fara stórvel með sunnudagskaffinu.

Syndsamlega góðar vöfflur

Syndsamlega góðar vöfflur (uppskrift frá Food 52)

 • 1½ bolli hveiti
 • ½ bolli kornsterkja (maizenamjöl)
 • 1 tsk lyftiduft
 • ½ tsk matarsódi
 • 1 tsk salt
 • 2 bollar nýmjólk eða súrmjólk
 • 2/3 bolli grænmetisolía (vegetable oil) eða brætt smjör
 • 2 egg
 • 3 tsk sykur
 • 1 ½ tsk vanilludropar

Setjið hveiti, kornsterkju, lyftiduft, matarsóda og salt í skál og blandið vel saman. Bætið mjólk, grænmetisolíu, eggjum, sykur og vanillu saman við og blandið vel. Látið deigið standa í 30 mínútur.

Bakið vöfflurnar á smurðu vöfflujárni. Berið fram með sultu og rjóma, smjöri og hlynsýrópi eða hverju því sem hugurinn girnist.

Syndsamlega góðar vöfflur

Bloggið 1. árs!

Hnetusmjörs- og súkkulaðivöfflur með bananarjóma

Mér þykir ótrúlegt að hugsa til þess að í dag sé litla bloggið mitt orðið eins árs. Á þessu fyrsta ári hefur bloggið vaxið og dafnað, daglegar heimsóknir sem voru í byrjum örfáar eru í dag um 15 þúsund á bestu dögum og það gleður mig inn að hjartarótum hvað þið hafið skilið falleg spor eftir ykkur.

Bloggið væri ekkert án ykkar og það gleður mig á hverjum degi að þið lítið við hjá mér á vafri ykkar um netið. Mér þykir svo gaman að skrifa ykkur og ég stend mig að því þegar ég borða góðan mat að hlakka til að setja uppskriftina á bloggið. Mér þykir gaman að deila með ykkur uppskriftum sem að mér þykja góðar og ég hef réttlætt kaup á nýjum matreiðslubókum með þeim rökum að við erum svo mörg sem náum að nýta uppskriftirnar. Pínu galið, en alveg dagsatt.

Hnetusmjörs- og súkkulaðivöfflur með bananarjóma

Mér þykir óendanlega vænt um allar kveðjur, tölvupósta og komment sem að þið hafið sent mér og þegar þið heilsið mér á förnum vegi fyllist ég af gleði. Það er svo gaman að fá andlit við bloggheimsóknirnar og ég dáist að ykkur sem hafið stigið fram og heilsað mér. Að gefa sér tíma í dagsins amstri til að staldra við og hrósa öðrum er aðdáunarvert og til fyrirmyndar.

Afmælinu ber að fagna, það er ekki spurning! Helst hefði ég viljað blása til veislu og bjóða ykkur öllum í köku og kaffi, en það væru eflaust öfgafull viðbrögð á eins árs bloggafmæli. Í staðin hófum við daginn á glettilega góðum vöfflum sem við nutum í sólinni úti á palli. Í tilefni dagsins fær síðan svo smá upplyftingu.

Hnetusmjörs- og súkkulaðivöfflur með bananarjóma

Öggi kom mér á óvart og gaf blogginu logo sem hann hafði hannað í afmælisgjöf. Þið sjáið það hér efst á síðunni, á nýju forsíðumyndinni. Hugsunin á bak við hönnunina er sú að logoið eigi að líta út eins og stimpill og stjörnuna setti hann efst því hann veit hvað ég er hrifin af þeim. Mér þykir hönnunin svo falleg hjá honum og logoið hefði ekki getað verið fullkomnara. Takk elskan.

Hnetusmjörs- og súkkulaðivöfflur með bananarjóma (uppskrift frá The sisters café)

 • 1 bolli fínmalað spelt
 • 1 msk lyftiduft
 • ¾ tsk salt
 • ½ bolli crunchy hnetusmjör
 • ¼ bolli sykur
 • 4 msk smjör, brætt
 • 2 egg
 • 1 bolli mjólk
 • ½ bolli grófhakkað suðusúkkulaði (ég notaði Konsum dropa frá Nóa Síríus)

Blandið hveiti lyftidufti og salti saman í skál.

Hrærið hnetusmjör og sykur saman í annarri skál þar til blandan verður mjúk og kremkennd, bætið þá bræddu smjöri saman við. Hrærið eggjum út í, einu í einu, og hrærið þar til deigið er orðið mjúkt og kekkjalaust. Hrærið þurrefnablöndunni varlega saman við og hrærið þar til deigið er kekkjalaust en passið að ofhræra ekki. Hrærið súkkulaðibitunum saman við.

Látið deigið standa í að minnsta kosti 10 mínútur áður en þið bakið úr því. Deigið þykknar örlítið við það. Bakið vöfflurnar á heitu vöfflujárni og berið þær fram með banarjóma.

Bananarjómi

 • 2 stórir bananar
 • ¼ bolli sykur
 • ½ tsk kanil
 • ½ tsk sítrónusafi
 • 1 bolli rjómi (1 peli)

Stappið bananana í lítilli skál og setjið sykur, kanil og sítrónusafa saman við þá. Þeytið rjómann í annarri skál. Blandið bananablöndunni saman við þeytta rjómann og berið strax fram. Mér fannst passlegt að nota helming af bananablöndunni út í rjómann – smakkið ykkur áfram.

Extra stökkar vöfflur

Extra stökkar vöfflur

Ég held að það séu liðnar tvær vikur síðan ég bakaði þessar vöfflur og ástæðan fyrir því að ég hef ekki sett þær inn er sú að mér fannst þær of stökkar. Þær eru stökkar eins og ég veit ekki hvað. Kannski kartöfluflögur? En Ögga þóttu þær svo æðislega góðar og vill ólmur að ég setji þær á bloggið svo í dag ætla ég að gera það. Fyrir hann.

Mér þykja vöfflur með sultu og rjóma æðislega góðar og eftir að ég keypti mér nýtt vöfflujárn síðasta sumar voru vöfflur hér á borðum annan hvern dag. Við fengum ekki nóg! Við prufuðum hinar og þessar uppskriftir og settum allt sem hugurinn girntist ofan á þær. Ís, ber, rjóma, sultur, súkkulaði, Nutella… allt var prófað og okkur þótti allt gott. Þegar leið á haustið fækkaði vöfflukaffinu og í vetur hefur vöfflujárnið meira og minna fengið að liggja inn í skáp. Nú þegar fer að vora finnum við vöfflulöngunina koma til baka og erum aftur byrjuð að prófa nýjar uppskriftir.

Extra stökkar vöfflur

Ég vil hafa vöfflurnar stökkar að utan og mjúkar að innan. Ögga þóttu þessar súperstökku vöfflur frábærar og gestirnir sem voru hjá okkur sögðust vera stórhrifin, en myndu þau kunna við að segja annað? Eitt er víst að vöfflurnar kláruðust upp til agna áður en ég áttaði mig á að ég hafði gleymt að taka almennilegar myndir. 

Extra stökkar vöfflur (uppskrift úr Rutiga kokboken)

 • 100 g smjör
 • 3 dl rjómi
 • 1-1½ dl vatn
 • 3½ dl hveiti
 • 2 tsk lyftiduft
 • 2 tsk vanillusykur (má sleppa)

Bræðið smjörið og látið það kólna. Hrærið saman rjóma, vatni, hveiti, lyftidufti og vanillusykri. Hrærið þar til deigið verður slétt. Hrærið smjörinu saman við.

Hitið vöfflujárn og smyrjið með smá smjöri. Bakið vöfflurnar þar til þær eru fallega gylltar á litinn. Berið fram með t.d. rjóma, sultu, ís, berjum…

Amerískar pönnukökuvöfflur

Amerískar pönnukökuvöfflur

Mér þykir eitt það besta við helgarnar að getað byrjað daginn rólega yfir góðum morgunverði. Þar sem ég er yfirleitt fyrst á fætur hér á morgnana þá er ég oft búin að útbúa morgunverð og leggja á borð þegar Öggi og krakkarnir koma fram. Oft verða amerískar pönnukökur fyrir valinu því mér þykja þær svo æðislega góðar, helst með smjöri, hlynsírópi, beikoni og eggjahræru. Með þessu vil ég síðan hafa góðan djús með helling af klökum út í. Ég get varla hugsað mér betri byrjun á deginum.

Amerískar pönnukökuvöfflur

Um síðustu helgi ákvað ég að prófa að setja pönnukökudeigið í vöfflujárnið. Ég notaði belgíska vöfflujárnið okkar og varð ekki fyrir vonbrigðum. Það var ósköp þægilegt að þurfa ekki að standa yfir pönnunni, passa að vera með réttan hita á henni og að snúa pönnukökunum við á réttum tíma heldur að geta bara ausið deiginu í vöfflujárnið og lokað því. Næst ætla ég að prófa að setja deigið í venjulega vöfflujárnið, það getur varla verið síðra.

Amerískar pönnukökuvöfflur

Ég ákvað að gefa pönnunum alveg frí þennan morguninn og steikti beikonið í ofninum, á 200° í ca 10 mínútur. Einfalt og þæginlegt.

Amerískar pönnukökuvöfflur (uppskriftin passar fyrir 8 belgískar vöfflur)

 • 270 g hveiti
 • 2 tsk lyftiduft
 • 1/2 tsk salt
 • 4 msk sykur
 • 260 ml mjólk
 • 2 egg
 • 4 msk brætt smjör

Sigtið hveiti, lyftiduft, salt og sykur saman í stóra skál. Hrærið léttilega saman mjólk og eggi í annari skál og hrærið síðan bræddu smjöri saman við.

Hellið mjólkurblöndunni í hveitiblönduna og hrærið saman með gaffli þar til blandan er mjúk og nokkuð kekkjalaus. Látið deigið standa í nokkrar mínútur.

Hitið vöfflujárn og bakið vöfflur úr deiginu líkt og um venjulegt vöffludeig væri að ræða. Einnig má baka venjulegar amerískar pönnukökur á pönnu úr deiginu.

Berið fram með smjöri, hlynsírópi, eggjahræru og beikoni.

Heslihnetuvöfflur með berjakompóti og léttu rjómakremi

Á föstudagskvöldinu var ég að leita að gamalli uppskriftarbók þegar ég rakst á amerískt morgunverðarblað frá Fine Cooking, The best of breakfast. Ég hef áður skrifað um Fine Cooking blöðin en þau hafa lengi verið í uppáhaldi hjá mér. Ég hef bæði eldað og bakað upp úr þeim og allt hefur verið meiriháttar gott.

Það er meira en ár síðan ég keypti morgunverðarblaðið og ég var búin að gleyma að ég ætti það. Ég lá yfir því allt kvöldið, las uppskriftirnar og bretti upp á hornin á blaðsíðunum. Það er langt síðan ég sá jafn girnilegt matreiðslublað og mig langar að prufa allt í því. Mér þykja uppskriftirnar margar hverjar þó frekar eiga heima á brönsborði en sem morgunverður, eins og til dæmis þessar heslihnetuvöfflur.

Ég ætla ekki að reyna að lýsa því hvað okkur þóttu þessar vöfflur góðar. Í berjakompótinu er smá kanill og pínulítið af negul sem fyllti eldhúsið af dásamlegri lykt sem fékk okkur til að hugsa til jólanna. Það eru svo fallegir litir sem koma af berjunum og með hvíta rjómakreminu er þetta jafn fallegt og það er gott.

Helsihnetuvöfflur

 • 2/3 bolli muldar heslihnetur
 • 2 2/3 bollar hveiti
 • 1 msk lyftiduft
 • 1/2 tsk matarsódi
 • 3/4 tsk salt
 • 2 3/4 bollar sítrónumjólk (setjið 1 msk sítrónusafa í bollamál og fyllið restina  af mjólk og látið standa í 5 mínútur = 1 bolli sítrónumjólk)
 • 1/2 bolli grænmetisolía (Vegetable oil)
 • 4 stór egg
 • 1/3 bolli sykur
 • 1 1/2 tsk vanilludropar

Blandið 2 msk af hveiti saman við heslihneturnar og maukið með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Blandið saman í stórri skál muldum heslihnetum, hveiti, lyftidufti, matarsóda og salti. Í annari skál er sítrónumjólk, olíu, eggjum, sykri og vanilludropum hrært vel saman. Notið stóran þeytara eða sleikju til að hræra smátt og smátt vökvanum saman við þurrefnin. Hrærið þar til allt hefur blandast, það er í góðu lagi þó það séu smáir kögglar í deiginu.

Látið deigið standa í að minnsta kosti 20 mínútur við stofuhita eða allt að tvo tíma í ískáp. Það má baka vöfflurnar á venjulegu eða belgísku vöfflujárni.

Góð ráð við vöfflubakstur:

 • Ekki stafla vöfflunum. Til að halda þeim heitum er gott að setja vöfflurnar beint á grindina í 90° heitum ofni.
 • Sýnið þolinmæði – ekki byrja að baka vöfflurnar fyrr en vöfflujárnið er búið að ná réttum hita. Ef vöfflujárnið er ekki með ljós sem gefur til kynna hvort að vöfflujárnið sé tilbúið má finna það út með því að setja nokkra dropa á vatni á það. Ef droparnir krauma á járninu þá er það tilbúið.
 • Smyrjið vöfflujárnið á milli bakstra. Það er til dæmis þæginlegt að nota PAM olíusprey til að spreyja á vöfflujárnið.

Berjakombót

 • 2 tsk maíssterkja
 • 1 msk vatn eða brandý
 • 4 bollar frosin berjablanda, afþýdd
 • 1 bolli sykur
 • fínrifið hýði af 1 sítrónu
 • 1/4 tsk kanil
 • 1/4 tsk blanda af kanil og negul

Hrærið saman maíssterkju og vatni eða brandý. Setjið þýðin berin ásamt vökvanum af þeim í pott með sykrinum, sítrónuhýðinu og kryddunum. Hrærið í pottinum og hitið við miðlungsháan hita þar til suðan kemur upp. Hrærið þá maíssterkjunni úthrærði í vatn eða brandý út í pottinn og látið sjóða í 1 mínútu. Takið pottinn af hitanum, vökvinn heldur áfram að þykkna þegar blandan kólnar. Berið berjakombótið fram heitt eða við stofuhita.

Létt rjómakrem

 • 1/2 bolli sýrður rjómi
 • 3 msk sykur
 • 1 bolli kaldur rjómi

Hrærið sýrðum rjóma saman við sykur þar til blandan er mjúk. Þeytið rjómann í sér skál þar til hann byrjar að mynda toppa. Passið að þeyta hann ekki of mikið, rjóminn á að halda formi þegar þeytaranum er lyft frá en ekki vera stífþeyttur. Notið sleikju til að hræra fyrst helmingnum af þeytta rjómanum saman við sýrða rjómann og bætið síðan restinni af rjómanum við. Hrærið með sleikjunni þar til allt hefur blandast vel.

Stökkar vöfflur

Mér þykja vöfflur svo góðar og vil hafa þær stökkar að utan og mjúkar að innan. Hér áður fyrr gerði ég oft vöfflur en fyrir ári síðan gaf vöfflujárnið mitt upp öndina. Ég er búin að vera á leiðnni síðan þá að fá mér nýtt og lét loksins verða af því í dag. Það var því  upplagt að hafa vöfflur með kaffinu.

Þó að sulta og rjómi sé æðislega gott á vöfflur getur verið gaman að breyta til. Það er til dæmis hægt að bragðbæta þær með því að setja fínrifið sítrónuhýði, vanillusykur eða kakó út í deigið. Ég hef stundum haft vöfflur í eftirrétt og er þá búin að gera deigið tilbúið þannig að ég er enga stund að baka nokkrar vöfflur eftir matinn. Ég set þá góðan vanilluís, fersk ber og heita karamellusósu á þær. Það er æðislega gott. Í dag áttum við Nutella síðan ég bakaði bananakökuna með Nutella kreminu í fyrradag. Við smurðum því vöfflurnar með Nutella, brutum þær saman og settum rjóma, sultu og rifið súkkulaði á þær. Þvílík dásemd.

Vöfflur

 • 4 egg
 • 6 dl sódavatn (án bragðefna)
 • 6 dl hveiti
 • 4 tsk lyftiduft
 • 4 msk sykur
 • 3/4 tsk salt
 • 200 gr smjör

Bræðið smjörið og látið það kólna. Hrærið eggjunum saman og bætið sódavatninu saman við. Blandið þurrefnunum saman og hrærið saman við eggjablönduna þar til bandan er kekkjalaus. Hrærið að lokum smjörinu út í deigið. Ef þið hafið tíma þá er gott að láta deigið standa í kæli í  klukkutíma áður en þið bakið vöfflurnar. Til að fá vöfflurnar vel stökkar að utan þá er gott að smyrja vöfflujárnið með smjöri áður en þær eru bakaðar.