Ég hef eytt mörgum kvöldstundum í að skoða uppskriftasíður og -blogg á netinu og hef fundið margar góðar uppskriftir fyrir vikið. Um daginn þegar ég var að ráfa um netið rakst ég á þessa uppskrift af sítrónusmákökum. Það sem vakti forvitni mína var að þær höfðu unnið smákökusamkeppni amerísks tímarits sem ég hef aldrei heyrt nefnt áður, LDS Living. Þar sem ég er bæði veik fyrir sítrónum og hef svo gaman af að nota nýju sítrónupressuna mína þá mátti ég til með að baka þær og sjá hvort þær stæðu undir væntingum.
Það kom mér á óvart hvað kökurnar voru fljótbakaðar og þær voru komnar á borðið áður en ég vissi af. Kökurnar voru bæði ferskar og sætar en samt mildar. Stökkar að utan og seigar að innan. Okkur þóttu þær mjög góðar en sítrónuformkakan hennar Nigellu er þó enn fremst í flokki yfir bestu sítrónuköku sem ég hef bakað.
Sítrónusmákökur
- 125 gr smjör við stofuhita
- 200 gr sykur
- 1/2 tsk vanilludropar
- 1 egg
- 1 tsk sítrónuhýði
- 1 msk ferskur sítrónusafi
- 1/4 salt
- 1/4 tsk lyftiduft
- 1/8 tsk matarsódi
- 200 gr hveiti
- 75 gr flórsykur
Hitið ofninn í 175°. Hrærið smjör og sykur saman þar til það verður ljóst og létt. Hrærið vanilludropum, eggi, sítrónuhýði og sítrónusafa út í. Skafið niður með hliðunum og hrærið áfram. Bætið þurrefnunum, fyrir utan flórsykurinn, rólega saman við þar til allt hefur blandast. Ekki hræra lengur en þörf er á.
Hellið flórsykri á disk. Mótið kúlu úr teskeið af deigi (ath. deigið er mjög mjúkt og blautt) og veltið upp úr flórsykri. Leggið kúluna á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Endurtakið með afganginn af deiginu. Bakið í 9-11 mínútur.
Þú getur kallað þær Mormónakökurnar. LDS er stytting á Mormónakirkjunni (Latter Day Saints).
En fyndið. Ekki áttaði ég mig á þessu þegar ég sá blaðið, enda fór ég beint í uppskriftirnar 🙂
Hvað á að baka þessar lengi?
Það á að baka þær í 9-11 mínútur. Ég sé að ég hef gleymt að setja bökunartímann í uppskriftina en er búin að laga það núna 🙂
Takk fyrir svarið. Ég prófaði að baka þær og þær bragðast mjög vel 🙂
Mjog godar, spennandi og odruvisi. Strax klassiskar. Takk fyrir.