Bresk fiskibaka að hætti Gordon Ramsey

Ég fór á bókamarkaðinn í Borgartúninu um daginn og keypti mér matreiðslubók eftir Gordon Ramsey, Eldað um veröld víða. Bókin kostaði rétt undir þúsund krónum og mér sýnist hún hafa verið hin bestu kaup. Það eru margar girnilegar uppskriftir í henni sem verður gaman að prófa.

Á meðan ég beið eftir að Öggi lyki sínum vinnudegi ákvað ég að drepa tímann í einni af fallegustu búðum bæjarins, Pipar og salt. Ég gæti eytt heilu dögunum þar og kem aldrei tómhent þaðan út. Í gær sá ég eldhúsvog sem mér fannst ég þurfa að eignast. Þeir sem hafa séð gömlu eldhúsvogina mína furða sig á að mér takist yfir höfuð að baka. Hún er  eldgömul og ónákvæm og ofan á allt þá skemmdist skálin fyrir rúmu ári síðan. Nýja vogin þykir mér hátæknileg, hún er stafræn og hægt að stilla á milli gramma og punda. Ég er í skýjunum yfir þessum kaupum.

Eftir að við komum heim eldaði ég breska fiskiböku upp úr Gordon Ramsey bókinni. Eftir á að hyggja þá hefði ég varla getað valið verri dag til að elda hana. Við komum seint heim og allir voru orðnir sársvangir. Ofan á allt var Malín með vinkonum sínum á leiðinni í félagsmiðstöðina með glæsilega sælgætisköku sem þær höfðu bakað.

Eins og mér þykir gaman að dunda mér í eldhúsinu þá þykir mér ekkert gaman að elda í svona stressi. Ég held þó að öllum hafi þótt biðin vel þess virði því bakan var stórgóð og fór vel í mannskapinn.

Bresk fiskibaka

  • 1 laukur, afhýddur og skorin í fjórðunga
  • 3-4 negulnaglar
  • 1 lárviðarlauf
  • 250 ml rjómi
  • 250 ml mjólk
  • 400 gr þétt, hvít fiskflök (ég notaði þorsk)
  • 400 gr reykt ýsa
  • 30 gr smjör
  • 2 blaðlaukar, þvegnir og skornir í þunnar sneiðar
  • 30 gr hveiti
  • maldonsalt og svartur pipar
  • lófafylli af saxaðri steinselju
  • 300 gr hrár skelflettar rækjur (ég var ekki með þær)

Þekja

  • 750 gr afhýddar kartöflur
  • 75 gr smjör í bitum
  • 50 ml heit mjólk
  • 2 eggjarauður
  • 75-100 gr rifinn cheddar ostur

Stingið negulnöglum í laukinn og setjið í pott ásamt rjóma, mjólk og lárviðarlaufi. Látið suðuna koma upp og bætið þá hvíta fiskinum og reyktu ýsunni í pottinn. Sjóðið í 3-4 mínútur, fiskurinn þarf ekki að vera soðinn í gegn. Hellið úr pottinum í sigti og geymið vökvann.

Bræðið smjör í potti og steikið blaðlaukinn þar til hann mýkist, um 4-6 mínútur. Bætið hveitinu saman við og hrærið í 2 mínútur. Hellið vökvanum af fiskinum rólega út í og hrærið vel á milli. Látið sjóða við vægan hita í 10-15 mínútur og hrærið öðru hverju í pottinum. Kryddið með salti og pipar og bætið steinselju saman við.

Skerið afhýddar kartöflur í bita og setjið í pott með saltvatni. Sjóðið þar til kartöflurnar eru orðnar mjúkar í gegn. Hellið vatninu frá og stappið kartöflurnar. Hrærið smjöri og mjólk vel saman við og látið stöppuna kólna aðeins. Hrærið eggjarauðum saman við  og kryddið með salti og pipar.

Hitið ofninn í 180°. Skerið fiskinn niður í munnbitastærð og blandið bitunum, ásamt rækjunum, saman við blaðlaukssósuna. Setjið fiskinn og sósuna í eldfast mót og breiðið kartöflustöppunni yfir. Gerið rákir með gaffli yfir kartöflumúsina og stráið rifnum cheddar osti yfir. Bakið í 25-30 mínútur eða þar til sósan í bökunni bullsýður og osturinn er kominn með fallegan lit.

3 athugasemdir á “Bresk fiskibaka að hætti Gordon Ramsey

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s