Steiktur fiskur í parmesanraspi

Helgin leið hraðar en nokkurn tímann áður og áður en við vissum af var kominn mánudagur. Í kvöld nutum við góðs af því að hafa ekki eldað sunnudagsmatinn í gær og borðuðum indverskan kjúklingarétt með heimabökuðum nanbrauðum. Uppskriftin kom úr einni af nýju bókunum frá tengdó sem heitir Fredag. Við létum nafnið á bókinni ekki á okkur fá og brutum eflaust allar reglur með því að elda úr henni á mánudegi. Það virtist ekki koma að sök því rétturinn var stórgóður þó að mér hafi þótt hann fullsterkur, börnunum til mikillar furðu.

Síðasta mánudag var allt með hefðbundnari sniði og við borðuðum steikan fisk í parmesanraspi. Hann var alveg meiriháttar góður. Ég bar hann fram með soðnum kartöflum, hvítlaukssósu og hrásalati en það er líka mjög gott að bera hann fram með fersku salati og ofnbökuðum kartöflubátum.

Steiktur fiskur með parmesanraspi (uppskrift frá Vinotek)

  • 600-700 gr beinhreinsuð og roðlaus ýsu- eða þorskflök
  • 1 ½ bolli rifinn parmesanostur
  • 1 bolli brauðrasp. Best er að nota til helminga venjulegt brauðrasp og rasp úr grófu brauði (ristið brauðið, látið kolna og myljið í matvinnsluvél)
  • 2 egg
  • mjólk
  • hveiti
  • sítrónupipar

Skerið fiskinn í passlega bita. Pískið eggjunum og smá mjólk saman. Blandið saman 1 bolla af parmesan og brauðraspinu.

Veltið fiskbitunum upp úr hveitinu, síðan eggjablöndunni og að lokum parmesanraspinu. Hitið olíu og smjör saman á pönnu (passið að hafa hana ekki of heita) og steikið fiskinn á hvorri hlið þar til hann er kominn með fallegan lit. Kryddið með sítrónupipar og leggið í eldfast mót. Stráið afgangnum af parmesanostinum yfir og setjið í 170° heitan ofn í nokkrar mínútur eða þar til að osturinn byrjar að bráðna.

8 athugasemdir á “Steiktur fiskur í parmesanraspi

  1. Sæl . Eins og annað frá þér er þessi rosalega girnileg og ég ætla að prófa hana, nota ég Parmesan ost í krukku eða ferskan og ríf niður sjálf? Hvernig hvítlaukssósu notar þú með fiskinu?..Ég hlakka til að borða þennan girnilega rétt á föstudagskvöldið og fá mér kannski gott hvítvíns glas með.
    Takk fyrir frábæra síðu.

    Sigríður G

    1. Sæl Sigríður.
      Ég nota ferskan parmesan sem ég ríf niður og keypti hvítlaukssósuna sem ég hafði með. Þetta er alveg æðislega góður fiskur og fer eflaust vel með hvítvíninu 🙂
      Bestu kveðjur,
      Svava.

  2. Þessi lítur mjög girnilega út, en ég er að velta einu fyrir mér. Af hverju veltirðu fiskinum bæði upp úr hveiti og raspi ? Ég hef hingað til bara steikt fisk eins og mamma gerir og hún notar alltaf bara eggjablöndu og rasp ….

    Kv, frá Danmörku, Ragga

  3. Ætlaði svo sannarlega að prófa þennan en fékk ekki Parmesan ostinn því miður. En maður deyr ekki ráðalaus svo ég notaði Mexíkóost í staðinn, það kom bara mjög vel út en á samt örugglega eftir að prófa samt með Parmesan orstinum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s