Aðventugjafir

Aðventugjafir

Mér þykir gaman að færa fólki aðventugjafir og hingað til hafa þær gjafir sem ég hef gefið verið matarkyns. Það er svo einfalt að setja nokkrar sörur, smákökur eða jólasælgæti í fallegan poka og hnýta slaufu um hann. Ég held að allir verða glaðir af þess háttar gjöfum, ja nema kannski þeir sem eru í megrun en þeim er þá nær að standa í slíkri vitleysu í sjálfum jólamánuðinum.

Aðventugjafir

Um daginn fór Öggi til Péturs vinar síns og þá nýtti ég tækifærið og sendi Pétri piparmyntustykki. Ég vona að honum hafi þótt þau góð en er mest hrædd um að Öggi hafi borðað þau frá honum á meðan þeir sátu yfir kaffibolla og tölvuuppfærslum. Öggi vill nefnilega meina að piparmyntustykkin fari glæsilega með kaffinu og fær sér varla kaffibolla hér heima án þess að brjóta sér bita af þeim.

Aðventugjafir

Um daginn færði ég svo mömmu og tengdamömmu sinn hvorn pokann af heimagerðu granóla með pekanhnetum. Þær urðu mjög glaðar en eflaust varð ég glöðust af öllum því mér þótti svo gaman að færa þeim þetta. Ég er með æði fyrir þessu granóla og hef upp á síðkastið byrjað dagana á skál með ab-mjólk og vænum skammti af granóla. Það er æðislega gott og ekki skemmir fyrir hversu einfalt er að útbúa það.

Aðventugjafir

Granóla með pekanhnetum

  • 3 bollar tröllahafrar
  • 1 bolli grófsaxaðar pekanhnetur
  • 2 tsk kanil
  • ¼ tsk salt
  • ½ bolli ljós púðursykur
  • ¼ bolli vatn
  • 2 msk bragðlaus olía
  • 1 msk vanillusykur

Hitið ofninn í 150° og leggið bökunarpappír á tvær ofnplötur. Blandið tröllahöfrum, pekanhnetum, kanil, vanillusykri og salti í skál. Blandið ljósum púðursykri og ¼ bolla af vatni saman í pott og hitið að suðu yfir miðlungsháum hita. Hrærið í þar til sykurinn hefur bráðnað. Bætið olíunni saman við. Takið pottinn af hitanum og hellið yfir þurrefnin. Hrærið í blöndunni þar til allt hefur blandast vel.

Skiptið blöndunni á bökunarplöturnar og dreifið úr þeim. Bakið í 15 mínútur, hrærið í granólanu og færið plöturnar þannig að sú sem var ofar í ofninum fari fyrir neðan og öfugt. Bakið áfram í 10-15 mínútur til viðbótar eða þar til granólað er komið með fallegan lit. Tröllahafrarnir geta verði mjúkir þegar þeir koma úr ofninum en þeir verða stökkir þegar þeir kólna. Látið kólna alveg á bökunarplötunum.

4 athugasemdir á “Aðventugjafir

  1. Er með svona í ofninum, átti að vísu bara venjulegan púðursykur og valhnetur, vona að það komi ekki að sök. Er að spá í að skella rúsínum með þegar þetta er búið að kólna 🙂

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s