Mér þykir janúar hafa liðið óvenju hratt og dagarnir hreinlega hlaupa frá mér. Uppskriftirnar sem ég á eftir að setja hingað inn safnast upp og það er orðið af nógu að taka. Þó að helgin sé framundan má ég til með að setja inn dásamlega uppskrift að hversdagsmat sem sló í gegn hér á heimilinu í vikunni, hakkbuff í raspi.
Þegar ég gerði buffinn setti ég öll hráefnin fyrir utan raspinn í hrærivélina og blandað þeim saman þar. Síðan bræddi ég smjörlíki á pönnu (mér þykir gott að steikja upp úr smjörlíki, það brennur ekki eins og smjörið vill gera), mótaði buff, velti upp úr raspinum og steikti í nokkrar mínútur á hvorri hlið. Síðan kláraði ég að elda þau í ofninum á meðan ég gerði sósuna og kartöflumús. Einfalt og súpergott!
Uppskriftin er stór og því getur verið snjallt að frysta helminginn af buffunum til að eiga síðar.
Hakkbuff í raspi (fyrir 10 manns)
- 500 g nautahakk
- 500 g svínahakk
- 2 egg
- 1 ½ dl rjómi
- 2 msk dijonsinnep
- salt og pipar
- rasp
Blandið öllum hráefnunum fyrir utan raspinn saman í skál. Mótið buff úr blöndunni, veltið þeim upp úr raspi og steikið á pönnu þar til þau fá fallega steikingarhúð. Raðið steiktu buffunum í smurt eldfast mót og látið í 180° heitan ofn þar til fullelduð.
Sósa:
- steikingarsoðið sem er eftir á pönnunni
- 2½ dl vatn
- 2½ dl rjómi
- 1½ – 2 grænmetisteningar
- ½ msk rifsberjahlaup
- salt og pipar
- maizena til að þykkja sósuna og jafnvel sósulit til að dekkja hana (má sleppa)
Hellið vatninu á pönnuna og látið sjóða saman við steikingarkraftinn sem er á pönnunni eftir buffin. Hrærið hann upp svo að ekkert verði eftir á pönnunni. Sigtið yfir í pott og bætið rjóma, grænmetisteningi og rifsberjahlaupi saman við. Látið sjóða saman og smakkið til með salti og pipar, og jafnvel meiri grænmetiskrafti. Þykkið sósuna með maizena og viljið þið dekkri sósu bætið þá nokkrum dropum af sósulit út í.
Berið fram með kartöflumús og rifsberjahlaupi.
Ég hef prófað þessa uppskrift og notað mulið Ritz kex í staðinn fyrir rasp. Miklu betra
Það er ekki oft sem ég fæ „thumbs up“ frá öllum við matarborðið, bónda og börnum☺ Mjög gott, verður örugglega aftur á matseðlinum á þessu heimili.
Ég bauð í mat og gerði þessa uppskrift og allir voru mjög sáttir. Breytti smá og setti mixaðan lauk útí hakkið og smá brauðrasp og setti sveppi í sósuna og fór eftir hakkabuffsuppskriftinni með parmesan og velti uppúr hveiti,eggi og síðan raspinu. Mæli algjörlega með þessum rétti. Takk fyrir frábærar uppskriftir !