Fyrir nokkrum árum gaf Arla út matreiðslubók sem hét Fredag, eða föstudagur. Ég las góða dóma um bókina og varð ekki róleg fyrr en ég eignaðist hana, sem reyndist þrautinni þyngri þar sem það var ekki hægt að panta hana til Íslands. Þegar bókin loks varð mín las ég hana í þaula og setti hana svo upp í hillu, þar sem hún hefur fengið að dúsa alla daga síðan. Það var því tími til kominn að draga bókina fram og prófa einhverja af öllum þeim girnilegu uppskriftum sem hún hefur upp á að bjóða.
Fyrir valinu varð einaldur mexíkófiskur, einfaldlega af því að ég átti öll hráefnin í hann. Rétturinn hreif mannskapinn og krakkarnir hrósuðu honum óspart. Þessi verður klárlega eldaður oftar hér heima. Einfalt og stórgott!
Mexíkófiskur – uppskrift fyrir 4
- 600 g þorskur eða ýsa
- 1 tsk salt
- 1 peli rjómi eða matreiðslurjómi (2,5 dl)
- 1 krukka tacosósa (230 g eða um 2 dl)
- 2 dl rifinn ostur
- um 20 nachos flögur, muldar
Hitið ofninn í 200°. Smyrjið eldfast mót með smjöri, leggið fiskstykkin í og saltið þau. Hrærið saman rjóma, tacosósu og rifnum osti og hellið yfir fiskinn. Setjið í ofninn í 15 mínútur, stráið þá muldum nachosflögum yfir og setjið aftur í ofninn í 10 mínútur til viðbótar (samtals 25 mínútur í ofninum).
Geggjuð leið til að koma fisknum ofaní unglingana. Æðislegur réttur! 🙂
Kærar þakkir fyrir uppskriftina af þessum fiskrétt. Hann kom verulega á óvart. Ætla að hafa þennan rétt i næsta saumó.
Gaman að heyra 🙂
>