Portúgalskur saltfiskréttur og ávextir með hrákremi

Portúgalskur saltfiskréttur

Um daginn bauð mamma okkur í mat. Mamma gerir svo góðan mat að það er alltaf tilhlökkunarefni að fara í mat til hennar. Hún eldar rétti sem mér myndi aldrei detta í hug að elda, eins og þennan saltfiskrétt, og opnar augu mín fyrir nýjungum. Ég minnist þess ekki að hafa eldað saltfisk en mun gera það eftir að hafa fengið þennan rétt. Hann var svo góður! Krakkarnir fengu sér öll ábót og ég borðaði svo yfir mig að ég lá í sófanum hjá mömmu í þrjá tíma að jafna mig.

Portúgalskur saltfiskréttur

Ég var ekki með myndavélina með mér heldur smellti af myndum á símann og gæðin eru eftir því. Ég vona að það fyrirgefist, mig langaði bara svo til að deila uppskriftinni með ykkur. Eftir matinn bauð mamma upp á eftirrétt sem er í miklu uppáhaldi hjá strákunum, ávexti með hrákremi. Svo gott!

Portúgalskur saltfiskréttur og ávextir með hrákremi

Portúgalskur saltfiskréttur

  • 600 g saltfiskur, soðinn og skorinn í bita (passið að hafa fiskinn ekki of saltan)
  • 600 g kartöflur, soðnar og skornar í bita
  • 1 laukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 rauð paprika
  • 100 g smjör
  • 3 msk olía
  • 1 stk Gull ostur, skorinn í bita
  • 1 poki gratín ostur
  • 1 askja kokteil tómatar

Byrjið á að sjóða fiskinn í einum potti og kartöflurnar í öðrum. Skerið fiskinn og kartöflurnar í bita og leggið til hliðar.

Hakkið lauk, papriku og hvítlauk. Bræðið smjör og olíu á pönnu og mýkjið laukinn, paprikuna og hvítlaukinn. Bætið fiskinum, kartöflunum og Gull ostinum saman við. Setjið blönduna í eldfast mót, stráið gratín ostinum yfir og að lokum kokteiltómötum sem hafa verið skornir til helminga. Bakið í 15 mínútur við 180°.

Hrákrem

  • 3 eggjarauður
  • 3 msk flórsykur
  • 5 dl rjómi

Þeytið eggjarauður og flórsykur saman í skál. Þeytið rjómann í annari skál. Blandið eggjablöndunni varlega saman við rjómann. Berið fram með ferskum ávöxtum.

 

4 athugasemdir á “Portúgalskur saltfiskréttur og ávextir með hrákremi

  1. Var að prófa hrákremið með jarðaber og bláber, mjög ljúffengt og einfalt. Er aldrei með eftirrétt nema við hátíðarborðið og verð greinilega að bæta úr því og hafa oftar eftirrétt á virkum degi með syninum. Ekki eins mikið mál og ég hef gaman af því að búa til eftirrétti.

  2. Er að elda saltfiskréttinn núna og mjög spennt að prófa. Ætla að prófa kremið með ferskum ávöxtum líka

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s