Fyrir mörgum árum sagði vinkona mín mér að þegar þau vildu poppa plokkfisk upp þá settu þau muldar kartöfluflögur með salti og pipar yfir hann áður en hann færi í ofninn. Þetta hef ég stundum hermt eftir henni og verið ánægð með hvað svona lítið twist getur breytt miklu.
Það er sömu sögu að segja um þennan fisk með snakkhjúpi, sem á einfaldan hátt gefur skemmtilega tilbreytingu við hinn hefðibundna fisk í raspi. Hér má í raun nota hvaða fisk sem er en sjálf er ég hrifnust af því að nota þorskinn. Fiskstykkin eru pensluð með majónesi sem festir snakkið við fiskinn, sem er síðan kryddaður með salti og pipar áður en mulið snakkið er sett yfir hann. Snakkið gefur fiskinum stökkan og bragðmikinn hjúp. Einfalt, fljótlegt og stórgott!
Þorskur með snakkhjúpi
- þorskur (eða annar fiskur)
- majónes
- salt og pipar
- snakk með salti og ediki (það stendur salt and vinegar á pokanum)
Hitið ofninn í 200°. Þerrið fiskinn og leggið á bökunarplötu sem hefur verið klædd með bökunarpappír. Penslið majónesi yfir fiskinn, kryddið með salti og pipar, og setjið síðan mulið snakkið yfir. Þrýstið aðeins á snakkið svo það festist betur við fiskinn. Setjið í ofninn í um ca 12-15 mínútur, passið að ofelda ekki fiskinn.