Þá er aftur komið fimmtudagskvöld og bara einn vinnudagur eftir áður en helgarfríið skellur á. Þessa helgina verða strákarnir ekki heima og þá er nánast alltaf það sama í kvöldmatinn hjá okkur, ostar og rauðvín. Þær helgar sem við erum bara tvö höfum við því oftar en ekki fengið okkur bíltúr í Ostabúðina eða í ostaborðið í Hagkaup (mér þykir það eiginlega betra, bæði bjóða þeir upp á meira úrval og betra verð) og eytt kvöldinu sitjandi við eldhúsborðið yfir kertaljósi, ostum og rauðvíni. Malín furðar sig oft á því hvað við getum setið lengi yfir þessu en það er bara svo notalegt!
Mér datt í hug að gefa hugmyndir af ostabakka, eða öllu heldur að deila með ykkur því sem við viljum hafa á ostabakkanum. Við höfum í sumar smakkað að ég held allt Alegro vínið sem Hrefna Rósa Sætran og Emil Hallfreðsson eru að flytja inn og verið ánægð með. Varðandi ostabakkann þá er gott að hafa í huga að velja frekar færri osta en fleiri. Það er engin þörf á 10 tegundum af ostum heldur er betra að kaupa 2-3 osta til að gera vínvalið auðveldara. Passið líka að taka ostana tímalega fram. Það er ekkert varið í kalda osta heldur eru þeir bestir eftir að hafa staðið við stofuhita í 2-3 tíma áður en þeir eru borðaðir. Síðan má hafa í huga að þó að ostar og rauðvín fari vel saman þá passar þurrt og sætt hvítvín líka stórvel með ostum.
Nú er ég enginn snillingur í efninu en það sem við höfum oftast á ostabakkanum er:
- Primadonna (í rauðu umbúðunum). Uppáhald og ómissandi á ostabakkann.
- Hvítmygluost, t.d. Auði, Ljúfling, Stóra Dímon eða Gullost.
- Blámygluost, t.d. Ljótur.
- Góðar sultur. Sulturnar frá St. Dalfour eru í algjöru uppáhaldi!
- Chorizo, góð hráskinka og sterkar pylsur. Áleggið frá Espuña og Ítalíu er gott (bæði fæst í Hagkaup)
- Gott súkkulaði! Dökkt súkkulaði frá Himnesk með stökkri karamellu og sjávarsalti er æði en fæst því miður allt of sjaldan. Dökkar súkkulaðirúsínur fylla ósjaldan í skarðið í fjarveru þess.
- Snittubrauð. Ég kaupi nýbakað snittubrauð og hita það aðeins áður en ég sker það niður og ber fram.
- Þegar við vorum í Brussel í vor keyptum við „cheese baker“ sem er eldfast mót með loki, sem passar utan um osta á stærð við camembert. Þetta höfum við ósjaldan notað og það er æðislegt að hita camembert með smá karrý, hökkuðum pekanhnetum og mango chutney yfir. Ég mæli með að fjárfesta í slíku ef þið rekist á það.
- Ólívur og pestó getur verið gott að hafa með (antipasti barinn í Hagkaup kemur hér sterkur inn)
- Gott vín.
Síðan er auðvitað alltaf huggulegt að kaupa afskorin blóm til að fegra borðið og kveikja á kertum. Að því sögðu óska ég ykkur góðrar helgar!
Kærar þakkir fyrir að deila. Sama hér á mínu heimili. Bóndinn er rauðvínspælari en ostar og matur mín megin. Gaman að fá allar þinar frábæru uppskriftir og auka frásagnir. Góða helgi með ostum og rauðvíni 🙂
Takk fyrir falleg orð og sömuleiðis góða helgi!
Hvað er þetta í krukkunni? 🙂
Kveðja, ein forvitin 😏
Þetta er rjómaostur með sólþurrkuðum tómötum, hvítlauk og ólivum. Keypt í Ostabúðinni á Skólavörðustíg 🙂