Marmara-bananakaka

Mér finnst ég hafa hrúgað ansi mörgum uppskriftum af bananakökum hingað inn og held nú áfram að bera í barmafullan lækinn. Það er bara ekki hægt að eiga of margar uppskriftir af bananakökum. Þær geymast vel en klárast þó alltaf strax. Ég baka því oftast tvær í einu því ég veit að fyrri kakan klárast samdægurs. Þessi uppskrift kemur frá Smitten Kitchen og er jafn dásamleg og allt sem kemur þaðan.

Marmara-bananakaka

  • 3 stórir þroskaðir bananar
  • 1/2 bolli (115 g) smjör, brætt
  • 3/4 bolli (145 g) ljós púðursykur
  • 1 stórt egg
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1 tsk matarsódi
  • 1/4 tsk salt
  • 1 bolli (130 g) plús 1/4 bolli (35 g) hveiti
  • 1/2 tsk kanill
  • 1/4 bolli (20 g) kakó
  • 3/4 bolli (130 g) súkkulaðidropar (eða hakkað súkkulaði)

Hitið ofn í 180° og smyrjið formkökuform.

Bræðið smjörið og stappið bananana saman við það. Hrærið púðursykri, eggi, vanilludropum, matarsóda og salti saman við. Bætið 1 bolla (130 g) af hveiti saman við og hrærið snögglega saman við deigið.

Setjið helminginn af deiginu í aðra skál (þarf ekki að vera nákvæmt mál en helmingurinn af deiginu er um 365 g, veltur þó á stærðinni á bönununum). Hrærið því sem eftir var af hveitinu  ásamt kanilnum saman við annan helming deigsins. Hrærið kakó og súkkulaðibitum saman við hinn helming deigsins.

Setjið stórar doppur af deigunum í botninn á forminu (það getur verið gott að miða við að setja einn lit í miðjuna á forminu og hinn sitt hvoru megin við). Setjið næsta lag af deigi þannig að ljóst deig fari yfir dökkt deig og öfugt. Endurtakið þar til allt deigið er komið í formið. Notið smjörhníf eða spaða til að blanda deiginu örlítið saman (það getur verið gott að miða við að gera áttur með hnífnum á tveim til þrem stöðum – passið að gera ekki of mikið!).

Bakið kökuna í 55-65 mínútur eða þar til prjónn sem hefur verið stungið í kökuna kemur hreinn upp (það má þó gera ráð fyrir að það komi brætt súkkulaði á hann). Látið kökuna standa í forminu í smá stund áður en hún er tekin úr því.

Súkkulaði- og bananakaka

Súkkulaði- og bananakaka

Ég á alltaf erfitt með að henda mat en sá matur sem ég get alls ekki hent eru bananar. Þeir eru svo ljúffengir í brauðum og kökum, þó þeir séu orðnir ljótir og enginn hefur lyst á þeim, að ég enda alltaf á að baka úr þeim. Í langfelstum tilfellum enda gamlir bananar í þessu bananabrauði sem hverfur síðan undantekningarlaust á svipstundu ofan í krakkana, en annað slagið bregð ég út af vananum og prófa nýjar uppskriftir. Þessa uppskrift sá ég hjá Smitten Kitchen og get lofað að hún er dásamlegri en orð fá lýst.

Í kökunni eru bæði kakó og súkkulaðibitar (tvöfalt súkkulaðibragð!!) sem blandast saman við bananabragðið og gerir kökuna gjörsamlega ómótstæðilega. Ég hakka súkkulaðið gróft því mér þykir gott að finna fyrir súkkulaðibitunum í kökunni.

Súkkulaði- og bananakaka

Kakan er í algjöru uppáhaldi hjá okkur þessa dagana og ég hef ekki tölu yfir hversu oft ég hef bakað hana á undanförnum vikum. Ég fann þó síðastliðið fimmtudagskvöld, þegar ég tók kökuna út úr ofninum kl. 11 um kvöldið og settist í sæluvímu niður með heita kökusneið og ískalt mjólkurglas og það var ó, svo dásamleg stund, að kannski væri þetta of langt gengið. Ég ætla því ekki að baka kökuna í komandi viku en þið getið gert það. Hér kemur uppskriftin…

Súkkulaði- og bananakaka

  • 3 mjög þroskaðir bananar
  • 115 g smjör, brætt
  • 145 g púðursykur
  • 1 stórt egg
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1 tsk matarsódi
  • 1/4 tsk salt
  • 1/2 tsk kanil
  • 125 g hveiti
  • 50 g kakó
  • 170 g súkkulaði, grófhakkað (ég nota suðusúkkulaði)

Hitið ofninn í 175° og smyrjið formkökuform.

Stappið banana í botni á stórri skál (ég nota hrærivélina). Hrærið bræddu smjöri saman við, síðan púðursykri, eggi og vanilludropum. Bætið matarsóda, salti, kanil, hveiti og kakó saman við og hrærið varlega þar til hefur blandast vel (passið að hræra ekki of lengi). Hrærið súkkulaðibitunum í deigið og setjið það í smurt formið. Bakið í 55-65 mínútur, eða þar til próni stungið í kökuna kemur deiglaus upp. Látið kökuna kólna í forminu í 10-15 mínútur.

Kakan geymist í 4 daga í plasti við stofuhita en ég get nánast fullyrt að hún mun aldrei endast svo lengi!

 

Bananakaka með súkkulaði og hnetusmjöri

Bananakaka með súkkulaði og hnetusmjöri

Síðasta helgin fyrir skólasetningu er runnin upp og haustið framundan. Mér þykir þetta einn af bestu tímum ársins, hálfgerð áramót þegar allt byrjar upp á nýtt. Best þykir mér þó að allt fer í rútínu á ný. Ég er svo mikil rútínumanneskja að það nær engri átt.

Bananakaka með súkkulaði og hnetusmjöri

Við ætlum að njóta þessarar síðustu helgar sumarfrísins hjá krökkunum. Við fórum út að borða saman í gærkvöldi og í dag liggur leiðin í bókabúðirnar að kaupa skóladót. Öggi mun þeyta skífum í brúðkaupi í kvöld og við Malín ætlum að nýta kvöldið í að merkja skólabækurnar og horfa á stelpumynd.

Bananakaka með súkkulaði og hnetusmjöri

Áður en dagurinn fer í gang hér á heimilinu nýti ég tímann í að blogga því mig langar svo að gefa ykkur uppskriftina af þessari ljúffengu bananaköku með súkkulaðibitum sem ég baka reglulega og fer afskaplega vel með helgarkaffinu. Kakan er fjölskylduvæn og fellur í kramið hjá öllum aldurshópum. Hún endist ekki lengi á borðinu, enda svo sem ekki ætluð upp á punt.

Bananakaka með súkkulaði og hnetusmjöri

Bananakaka með súkkulaði og hnetusmjöri

  • 5 dl hveiti
  • 3/4 tsk matarsódi
  • ½ tsk salt
  • 3 þroskaðir bananar
  • 1 dl hnetusmjör
  • 1 ¼ dl sykur
  • 1 dl púðursykur
  • 3/4 dl súrmjólk
  • 75 g brætt smjör
  • 2 egg
  • 100 g hakkað suðusúkkulaði (eða það súkkulaði sem þú velur)

Hitið ofninn í 175°. Smyrjið formkökuform og klæðið með bökunarpappír.

Blandið hveiti, matarsóda og salti saman í skál. Stappið bananana í annarri skál  og blandið hnetusmjöri, sykri , súrmjólk, smjöri og eggjum saman við þá. Hrærið blöndunni saman í kekkjalaust deig. Bætið þurrefnunum saman við og hrærið saman þar til deigið er slétt. Hrærið að lokum súkkulaðibitunum í deigið.

Setjið deigið í formið og bakið í miðjum ofni í um 60 mínútur, eða þar til prjóni stungið í kökuna kemur þurr upp.

Bananakaka með súkkulaðibitum

Bananakaka með súkkulaðibitum

Ég get fengið svakaleg æði fyrir sætindum og það er leitun að jafn miklum sælgætiskálfi og mér. Þessa dagana er ég með æði fyrir hlaupkörlum sem fást í Iceland og Dumlekaramellunum með hnetunum sem fást í flestum verslunum. Ég gæti í alvöru lifað á þessu. Síðan er ég með æði fyrir poppi sem fæst í Kosti. Ég þarf því að rúnta milli verslana til að fullkomna veisluna en finnst það algjörlega þess virði.

Um daginn fékk ég æði fyrir 70% súkkulaðinu frá Lindt og fyllti skápinn af því. Æðið gekk hins vegar jafn snögglega yfir og það kom og eftir sat ég með súkkulaðibyrgðir sem máttu gjarnan hverfa. Hver vill 70% súkkulaði þegar til eru hnetuhúðaðar Dumlekaramellur? Ekki ég.

Bananakaka með súkkulaðibitum

Systir mín var nýbúin að senda mér uppskrift að bananaköku sem þeim hjónunum þótti svo góð að þau kláruðu heila köku á einu kvöldi. Þegar ég las yfir uppskriftina sá ég strax ástæðuna, það voru súkkulaðibitar í henni. Mér þykja súkkulaði og bananar vera ómótstæðileg blanda og fannst því upplagt að nýta súkkulaðið mitt í bananakökuna.

Okkur tókst líka að klára kökuna á einu kvöldi og fórum létt með það. Namm.

Bananakaka með súkkulaðibitum

Bananakaka með súkkulaðibitum

  • 2 dl sykur
  • 2 tsk vanillusykur
  • 3 egg
  • 2 dl hveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • 100 g smjör
  • 2 bananar
  • 100 g dökkt súkkulaði

Hitið ofninn í 175°. Hrærið sykur, vanillusykur og egg saman þar til blandan verður létt. Hrærið hveiti og lyftidufti saman við ásamt mjúku smjöri. Stappið bananana og hakkið súkkulaðið og hrærið í deigið.

Setjið deigið í smurt formkökuform og bakið neðarlega í ofninum í ca 55 mínútur.