Súkkulaðiformkaka með súkkulaðikremi

Súkkulaðiformkaka með súkkulaðikremi

Ég er með óteljandi myndir af uppskriftum í símanum mínum, sem ég hef tekið hér og þar. Þegar ég fæ gott að borða hjá vinkonum mínum eða sé girnilega uppskrift í gömlu tímariti sem er ekki lengur hægt að kaupa þá tek ég einfaldlega mynd af uppskriftinni. Ég er hins vegar ekki nógu dugleg við að muna hvaðan þessar uppskriftir koma sem er pínu synd.

Súkkulaðiformkaka með súkkulaðikremi

Þessi súkkulaðikaka er ein af þessum uppskriftum sem koma úr myndaalbúminu í símanum. Hún var á ensku sem gerir málið dálítið dularfullt en ég get þó ómöglega munað hvaðan uppskriftin kom. Ég bakaði kökuna aðeins of lengi og því var hún of þurr fyrir minn smekk en bragðgóð var hún fyrir því. Hún fer auðvitað stórvel með helgarkaffinu og ef einhver ætlar að baka hana þá mæli ég með að fylgjast vel með kökunni undir lokin á bökunartímanum.

Súkkulaðiformkaka með súkkulaðikremi

Súkkulaðiformkaka með súkkulaðikremi

 • ¾ bolli kakó
 • 1/3 bolli heitt kaffi
 • 1 ¾ bolli hveiti
 • 1 tsk lyftiduft
 • ½ tsk salt
 • 1 bolli smjör við stofuhita
 • 1 bolli sykur
 • 2 egg
 • 2 tsk vanilludropar
 • ¼ bolli súrmjólk
 • ¾ bolli grófhakkað suðusúkkulaði

Hitið ofninn í 175° og smyrjið formkökuform. Setjið kakó og kaffi í litla skál og hrærið þar til blandan er slétt. Hrærið saman, í annarri skál, hveiti, lyftiduft og salt. Hrærið saman í hrærivél eða með handþeytara smjör og sykur þar til blandan er orðin ljós og létt í sér. Bætið eggjunum saman við, einu í einu, og hrærið í um mínútu á milli. Hrærið vanilludropum saman við. Hrærið nú hveitiblöndunni saman við og þar á eftir er kaffiblöndunni hrært varlega saman við. Hrærið súrmjólkinni saman við og að lokum súkkulaðibitunum. Setjið deigið í smurt formkökuformið og bakið í um 50-60 mínútur. Látið kökuna kólna áður en kremið er sett yfir.

Súkkulaðikrem

 • 1 ½ bolli flórsykur
 • 3 msk kakó
 • smá salt
 • 2 tsk vanilludropar
 • 2-4 msk mjólk eða vatn

Sigtið saman flórsykur og kakó í skál. Bætið salti saman við. Hrærið vanilludropum og 2 msk af mjólk saman við og bætið 1-2 msk af mjólk við eftir þörfum.

Marmarakaka með súkkulaði og sítrónu

Marmarakaka með súkkulaði og sítrónu

Það er ekki óalgeng sjón hér á heimilinu að það standi kaka á eldhúsborðinu. Á virkum dögum passa ég upp á að láta skál með ávöxtum standa frammi og hef ísskápinn fullan af skyri og ab-mjólk sem strákarnir geti gripið í milli skóla og æfinga, en um helgar þykir mér notalegt að hafa köku á borðinu.

Marmarakaka með súkkulaði og sítrónu

Ef einhverjum vantar hugmynd að helgarbakstri þá mæli ég með þessari marmaraköku. Hún er frábrugðin hefðbundnum marmarakökum að því leiti að hún er með fersku sítrónubragði á móti súkkulaðinu. Kakan er sérlega góð og fer ljómandi vel með helgarkaffinu.

Marmarakaka með súkkulaði og sítrónu (uppskrift frá Hembakat)

 • 3 egg
 • 2 ½ dl sykur
 • 1 ½ tsk lyftiduft
 • 3 dl hveiti
 • 100 g smjör
 • 1 dl mjólk
 • 2 tsk vanillusykur
 • sítrónuhýði af einni sítrónu (passið að rífa léttilega þannig að hvíti hlutinn komi ekki með)
 • 1 ½ msk kakó

Yfir kökuna:

 • um 25 g suðusúkkulaði, brætt

Hitið ofninn í 180°. Hrærið egg og sykur saman þar til blandan er létt og ljós. Bætið hveiti og lyftidufti saman við. Bræðið smjörið og blandið því saman við mjólkina. Hrærið blöndunni saman við deigið, þar til það er orðið slétt.

Setjið helminginn af deiginu í aðra skál. Hrærið vanillusykri og rifnu sítrónuhýði saman við deigið í annarri skálinni og kakói saman við deigið í hinni skálinni.

Setjið ljósa deigið í smurt formkökuform (ca 1 ½ líter að stærð). Setjið súkkulaðideigið yfir og blandið varlega saman með gaffli. Bakið neðst í ofninum í 40-45 mínútur. Látið kökuna kólna í forminu. Skreytið með bræddu súkkulaði.

Súkkulaði- og bananakaka

Súkkulaði- og bananakaka

Ég á alltaf erfitt með að henda mat en sá matur sem ég get alls ekki hent eru bananar. Þeir eru svo ljúffengir í brauðum og kökum, þó þeir séu orðnir ljótir og enginn hefur lyst á þeim, að ég enda alltaf á að baka úr þeim. Í langfelstum tilfellum enda gamlir bananar í þessu bananabrauði sem hverfur síðan undantekningarlaust á svipstundu ofan í krakkana, en annað slagið bregð ég út af vananum og prófa nýjar uppskriftir. Þessa uppskrift sá ég hjá Smitten Kitchen og get lofað að hún er dásamlegri en orð fá lýst.

Í kökunni eru bæði kakó og súkkulaðibitar (tvöfalt súkkulaðibragð!!) sem blandast saman við bananabragðið og gerir kökuna gjörsamlega ómótstæðilega. Ég hakka súkkulaðið gróft því mér þykir gott að finna fyrir súkkulaðibitunum í kökunni.

Súkkulaði- og bananakaka

Kakan er í algjöru uppáhaldi hjá okkur þessa dagana og ég hef ekki tölu yfir hversu oft ég hef bakað hana á undanförnum vikum. Ég fann þó síðastliðið fimmtudagskvöld, þegar ég tók kökuna út úr ofninum kl. 11 um kvöldið og settist í sæluvímu niður með heita kökusneið og ískalt mjólkurglas og það var ó, svo dásamleg stund, að kannski væri þetta of langt gengið. Ég ætla því ekki að baka kökuna í komandi viku en þið getið gert það. Hér kemur uppskriftin…

Súkkulaði- og bananakaka

 • 3 mjög þroskaðir bananar
 • 115 g smjör, brætt
 • 145 g púðursykur
 • 1 stórt egg
 • 1 tsk vanilludropar
 • 1 tsk matarsódi
 • 1/4 tsk salt
 • 1/2 tsk kanil
 • 125 g hveiti
 • 50 g kakó
 • 170 g súkkulaði, grófhakkað (ég nota suðusúkkulaði)

Hitið ofninn í 175° og smyrjið formkökuform.

Stappið banana í botni á stórri skál (ég nota hrærivélina). Hrærið bræddu smjöri saman við, síðan púðursykri, eggi og vanilludropum. Bætið matarsóda, salti, kanil, hveiti og kakó saman við og hrærið varlega þar til hefur blandast vel (passið að hræra ekki of lengi). Hrærið súkkulaðibitunum í deigið og setjið það í smurt formið. Bakið í 55-65 mínútur, eða þar til próni stungið í kökuna kemur deiglaus upp. Látið kökuna kólna í forminu í 10-15 mínútur.

Kakan geymist í 4 daga í plasti við stofuhita en ég get nánast fullyrt að hún mun aldrei endast svo lengi!

 

Appelsínuformkaka með súkkulaðibitum

Appelsínuformkaka með súkkulaðibitum

Ég tók forskot á helgarbaksturinn í gær og bakaði þessa appelsínuformköku með súkkulaðibitum til að eiga með kaffinu. Uppskriftina sá ég hjá Joy the Baker og hugsaði strax með mér að Malín ætti eftir að verða hrifin af henni. Hún elskar appelsínur og súkkulaði og velur sér oftast appelsínusúkkulaði sem laugardagsnammi. Það lék því ekki nokkur vafi á því að þessi kaka ætti eftir að skora hátt hjá henni.

Appelsínuformkaka með súkkulaðibitum

Það er helst frá því að segja að það mun engin fá sneið af kökunni með kaffibollanum þessa helgina því kakan er búin. Hún kláraðist strax í gær og skyldi engan sem smakkaði hana furða. Hún var dásamlega góð og við erum ákveðin í að baka hana fljótlega aftur.

Appelsínuformkaka með súkkulaðibitum

Eins og með aðra sítrusávexti þá þykir mér svo mikilvægt þegar verið er að rífa hýðið af að taka bara þunnt lag. Haldið á ávextinum í annarri hendi og rennið mjúklega með rifjárninu yfir hann með hinni hendinni. Þið finnið um leið hvað það kemur góð lykt við þetta, allt önnur en þegar hvíta skorpan kemur með. Í þessa uppskrift notaði ég hýði af tveimur appelsínum.

Appelsínuformkaka með súkkulaðibitum

 • 2 bollar hveiti
 • 1 ½ tsk lyftiduft
 •  ½ tsk salt
 • 1  ½ bolli sykur
 • 2 msk appelsínuhýði (passið að taka bara efsta lagið svo það komi ekki beiskt bragð)
 • 225 g rjómaostur
 • 3/4 bolli smjör við stofuhita
 • 4 stór egg
 • 2 tsk vanilludropar
 • 1 bolli grófhakkað dökkt súkkulaði

Hitið ofninn í 165°. Hrærið saman hveiti, lyftidufti og salti og setjið til hliðar.

Setjið sykur í skál. Rífið appelsínuhýðið (bara efsta lagið) og blandið því saman við sykurinn. Hrærið vel saman svo sykurinn fái bragð af appelsínuhýðinu. Setjið til hliðar.

Hrærið saman smjör og rjómaost. Skrapið reglulega niður með hliðum skálarinnar og passið að allt blandist vel. Bætið appelsínusykrinum saman við og hrærið á miðlungshraða í um 3 mínútur. Bætið eggjum saman við, einu í einu, og hrærið í 1 mínútu á milli. Hrærið vanilludropum saman við.

Bætið öllum þurrefnunum saman við og hrærið saman á hægum hraða þar til allt hefur blandast vel. Hrærið súkkulaðibitunum varlega saman við með sleif.

Setjið deigið í smurt formkökuform (mér þykir best að nota PAM-sprey). Bakið í 50-65 mínútur, eða þar til prjóni stungið í kökuna kemur hreinn upp.  (Joy bendir á að sumir lesenda hennar hafi þurft að baka kökuna í allt að 75 mínútur og bendir þá á að leggja álpappír yfir hana í lokin til að kakan verði ekki of dökk. Ég lenti þó ekki í vandræðum með þetta heldur dugði mér að baka hana í 65 mínútur með engum álpappír).