Vöfflur með sýrðum rjóma, kavíar, rauðlauki og dilli

Ég veit að það eru ekki allir hrifnir af kavíar en ég fæ ekki nóg af honum, sérstaklega þegar hann er borinn fram með sýrðum rjóma og öðru góðgæti. Ég veit ekki hversu oft ég hef boðið upp á þetta snakk (það er klikkað!) og þessi pizza er með þeim betri sem hægt er að hugsa sér (og passar svo vel með kældu hvítvíni). 

Ég ákvað um helgina að bjóða heim í vöfflur yfir leiknum (Svíþjóð – England, sem útskýrir sænska fánann á borðinu). Ég bar vöfflurnar fram með sultum, nutella og rjóma en þar sem leikurinn var fljótlega eftir hádegi vildi ég líka bjóða upp á matarmeiri vöfflur. Ég átti kavíar í ísskápnum sem fékk að fara á vöfflurnar ásamt sýrðum rjóma, rauðlauki og dilli (eins og á pizzunni góðu). Það kom brjálæðislega vel út! Þetta er einfaldlega nokkuð sem allir þurfa að prófa, líka þeir sem þykjast ekki borða kavíar!

Besta vöffluuppskriftin kemur frá Food 52:

 • 1½ bolli hveiti
 • ½ bolli kornsterkja (maizenamjöl)
 • 1 tsk lyftiduft
 • ½ tsk matarsódi
 • 1 tsk salt
 • 2 bollar nýmjólk eða súrmjólk
 • 2/3 bolli grænmetisolía (vegetable oil) eða brætt smjör
 • 2 egg
 • 3 tsk sykur
 • 1 ½ tsk vanilludropar

Setjið hveiti, kornsterkju, lyftiduft, matarsóda og salt í skál og blandið vel saman. Bætið mjólk, grænmetisolíu, eggjum, sykur og vanillu saman við og blandið vel. Látið deigið standa í 30 mínútur. Bakið vöfflurnar á smurðu vöfflujárni.

Yfir vöfflurnar:

 • sýrður rjómi (hrærið hann aðeins upp, svo hann verði kekkjalaus og mjúkur)
 • kavíar
 • rauðlaukur, fínhakkaður
 • ferskt dill

Syndsamlega góðar vöfflur

Syndsamlega góðar vöfflur

Ég hef áður sagt frá vöffluæðinu sem virðist ganga árstíðarbundið yfir heimilið og enn og aftur ætla ég að bjóða upp á nýja vöffluuppskrift. Ég held í alvöru að þessi sé best, eða í það minnsta deili toppsætinu með hnetusmjörs- og súkkulaðivöfflunum, þó að hráefnalistinn sé ekki með hefðbundnu móti. Mig rekur ekki minni til að hafa séð kornsterkju og grænmetisolíu í íslenskum vöffluuppskriftum en hér bregður báðum þessum hráefnum fyrir og gera vöfflunni góð skil. Stökk að utan, mjúk að innan. Þannig vil ég hafa vöfflurnar og þannig eru þessar. Dásamlegar með sultu og rjóma og fara stórvel með sunnudagskaffinu.

Syndsamlega góðar vöfflur

Syndsamlega góðar vöfflur (uppskrift frá Food 52)

 • 1½ bolli hveiti
 • ½ bolli kornsterkja (maizenamjöl)
 • 1 tsk lyftiduft
 • ½ tsk matarsódi
 • 1 tsk salt
 • 2 bollar nýmjólk eða súrmjólk
 • 2/3 bolli grænmetisolía (vegetable oil) eða brætt smjör
 • 2 egg
 • 3 tsk sykur
 • 1 ½ tsk vanilludropar

Setjið hveiti, kornsterkju, lyftiduft, matarsóda og salt í skál og blandið vel saman. Bætið mjólk, grænmetisolíu, eggjum, sykur og vanillu saman við og blandið vel. Látið deigið standa í 30 mínútur.

Bakið vöfflurnar á smurðu vöfflujárni. Berið fram með sultu og rjóma, smjöri og hlynsýrópi eða hverju því sem hugurinn girnist.

Syndsamlega góðar vöfflur