Humar með eplarjómasósu

Eins og fram hefur komið var ég með humarforrétt á gamlárskvöld. Þennan rétt smakkaði ég fyrst hjá Ernu vinkonu minni fyrir mörgum árum og kolféll fyrir honum. Sósan er himnesk! Uppskriftin kemur úr Veislubók Hagkaups (eftir matreiðslumeistara Argentínu-steikhúss) og ég hef greinilega eldað þennan rétt oftar en ég vil kannast við, því bókin hangir saman á lyginni og blaðsíðan með humaruppskriftinni er laus í henni.

Í uppskriftinni er talað um að nota súputening frá Maggi (eru þeir ennþá til?) en ég nota grænmetistening frá Knorr í staðin. Síðan á að bera réttinn fram með grófu brauði en ég hef alltaf borið hann fram á ristuðu fransbrauði, eins og Erna gerir. Þá rista ég brauðið, sker það i tvennt þannig að brauðsneiðin myndi tvo þríhyrninga og set svo réttinn yfir brauðsneiðina. Ég skreyti síðan réttinn með steinselju en ég hafi hreinlega gleymt að kaupa hana núna. Það kom þó ekki að sök. Þetta er svo brjálæðislega gott að það fengu sér allir aftur á diskinn og Jakob matgæðingurinn minn fékk sér þrjá diska og bræðurnir fengu sér síðan afganginn í morgunmat daginn eftir. Það er ekki lélegt að byrja árið með humarmorgunverði!

Humar með eplarjómasósu (fyrir 6)

 • 500 g skelflettur humar
 • 2 gul epli
 • 50 g smjör

Sósa:

 • 2 skalottlaukar, litlir
 • 1 dl hvítvín
 • 2,5 dl rjómi
 • 1 tsk dijon sinnep
 • 1/2 stk fiskikraftur (teningur frá Knorr)
 • 1/2 – 1 grænmetisteningur frá Knorr
 • salt og pipar
 • sósujafnari

Byrjið á sósunni. Saxið laukinn og steikið glæran í olíu á pönnu (passið að hafa hitann ekki of háan, ég nota stillingu 5 af 9). Bætið hvítvíni og rjóma saman við og sjóðið við vægan hita í 5 mínútur. Þykkið ögn með sósujafnara. Bragðbætið með súputeningi, salti, pipar og sinnepi.

Afhýðið og kjarnhreinsið eplin og skerið í smáa teninga. Bræðið smjörið á pönnu og steikið humarinn ásamt eplunum í 1-2 mínútur. Hellið sósunni á pönnuna og látið sjóða í 1 mínútu. Berið strax fram.

 

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

Beikonvafin grilluð hörpuskel

Beikonvafin grilluð hörpuskelÉg minnist þess ekki að hafa áður eldað hörpuskel og það kom mér skemmtilega á óvart hvað það er einfalt að grilla hana. Þessi uppskrift er einföld en ó, svo góð. Hörpuskelinni er velt upp úr hvítlaukssmjöri, beikoni vafið utan um og grillteini stungið í gegn. Stökkt beikonið fer æðislega vel með mjúkri hörpuskelinni (beikon og fiskur er svo gott saman, þessi fiskréttur er annað gott dæmi um það) og að kreista sítrónu yfir eftir grillun gefur ferskt bragð á móti söltu beikoninu. Mér þykir þetta vera æðislegur forréttur sem er bæði fallegur á borði og ljúffengur undir tönn.

Beikonvafin grilluð hörpuskel

Beikonvafin grilluð hörpuskel

 • 10 beikonsneiðar
 • 1 poki hörpuskeljar frá Sælkerafiski (í pokanum eru 10 hörpuskeljar)
 • 50 g smjör
 • salt og pipar
 • sítrónur

Byrjið á að forelda beikonið í örbylgjuofni. Setjið eldhúspappír á disk, helminginn af beikoninu yfir, annað lag af eldhúspappír yfir beikonið og seinni helminginn af beikoninu yfir. Endið á að setja eldhúspappír yfir beikonið og þrýstið á þannig að beikonið verði flatt. Hitið í örbylgjuofninum í 4 mínútur.

Beikonvafin grilluð hörpuskel

Látið hörpuskelina þiðna í ísskáp. Bræðið smjör og veltið hörpuskelinni upp úr því. Saltið og piprið. Vefjið beikonsneið utan um hörpuskeljarnar (1 beikonsneið á hverja hörpuskel) og stingið grillprjóni í gegn.

Beikonvafin grilluð hörpuskel

Hitið grillið á háum hita og lækkið það síðan í miðlungshita. Setjið spjótin á grillið með beikonhliðina niður og lokið grillinu. Látið grillast þar til beikonið er stökkt (tekur um 4 mínútur) og snúið þá spjótinu þannig að hin beikonhliðin snúi niður. Grillið áfram þar til sú hlið er líka orðin stökk. Grillið að lokum spjótin með hörpuskelina niður og grillið þar til hörpuskelin er stinn og ekki lengur gegnsæ (tekur um 4 mínútur). Grillið hörpuskelina bara á annari hliðinni.

Skerið sítrónur í tvennt og grillið þar til þær hafa fengið fallega grilláferð.

Berið hörpuskelina fram með grilluðum sítrónuhelmingum sem eru kreistir yfir hörpuskelina áður en hún er borðuð.

Pestósnúðar

Pestósnúðar

Nú styttist í helgina og ég ætla að eyða kvöldinu í lakkrísveislu á Kolabrautinni. Ég hlakka mikið til að bragða á réttum sem eiga allir það sameiginlegt að innihalda gæðalakkrísinn frá Johan Bülow. Áður en ég legg af stað langar mig þó til að gefa ykkur frábæra uppskrift að pestósnúðum sem passar vel að bjóða upp á um helgina.

Pestósnúðar

Snúðarnir eru æðislegir sem léttur forréttur með freyðivíni eða léttvíni, sem meðlæti í saumaklúbbinn eða einfaldlega sem létt snarl. Við fengum vini í heimsókn um síðustu helgi og buðum þeim upp á þetta góðgæti. Ég ákvað að hafa snúðana með mismunandi pestótegundum og Jakob rak upp stór augu þegar hann sá pestókrukkurnar. Hann veit fátt betra en pestó og fannst hann heldur betur hafa dottið í lukkupottinn þegar ég bar 4 ólíkar tegundir í hús. Þvílík sæla.

Pestósnúðar

Snúðarnir vöktu slíka lukku að þeir ruku út og ég þakkaði fyrir að hafa myndað þá áður en ég bauð upp á þá. Stundum er það einfalda best og hér á það svo sannarlega við. Þetta geta allir gert á svipstundu og slegið í gegn. Súpergott!

Pestósnúðar

Pestósnúðar

 • frosið smjördeig
 • pestó að eigin vali (ég mæli með tómata og ricotta pestó frá Filippo Berio)
 • rifinn ostur, t.d. Ísbúi
 • gróft salt

Látið smjördeigið þiðna og fletjið það síðan út. Breiðið pestó yfir og stráið rifnum osti yfir. Rúllið upp, skerið í sneiðar og raðið á smjörpappír. Stráið grófu salti yfir og bakið í 225° heitum ofni þar til snúðarnir hafa fengið fallegan lit. Berið strax fram.

Pestósnúðar