Gróft brauð með rúgmjöli og tröllahöfrum

Við höfum ekki átt gott brauð í nokkra daga og við Öggi vorum farin að sakna þess að fá okkur væna brauðsneið á morgnana. Ég ákvað því að baka brauð í gærkvöldi og þvílíkur munur það er að byrja daginn svona vel.

Það er svo myndarlegt að segjast baka brauð í hverri viku en satt að segja þá er það bæði fljótlegra en að fara út í búð og svo margfalt betra. Brauðið er gerlaust og þarf því ekki að hefast, það er bara öllu blandað vel saman og sett í form áður en það fer inn í heitan ofninn.

Þó að þetta brauð sé í algjöru uppáhaldi hjá okkur, ásamt speltbrauðinu, þá þótti okkur rúgmjölsblandan í þessu grófa brauði skemmtileg tilbreyting. Næst ætla ég að prófa að bæta rúsínum í það, ég gæti trúað að það væri gott.

Gróft brauð með rúgmjöli og tröllahöfrum

 • 5 dl rúgmjöl
 • 5 dl hveiti
 • 1 dl tröllahafrar
 • 1 dl hörfræ
 • 1 tsk salt
 • 1 msk matarsódi
 • 1 dl týtuberjasulta (ég nota lyngonsylt sem fæst í Ikea)
 • 2 msk síróp
 • 5 dl jógúrt (eða ab-mjólk eða súrmjólk)
 • graskersfræ til að strá yfir brauðið

Hitið ofninn í 175°. Blandið öllum þurrefnunum saman. Hrærið týtuberjasultu, sýrópi og jógúrti saman við þurrefnin og blandið vel. Setjið deigið í smurt brauðform. Stráið graskersfræjum yfir og bakið í neðri hlutanum á ofninum í ca 1 klukkustund.

Brauð

Ég baka brauð í hverri viku. Þetta brauð er eitt af uppáhalds brauðunum okkar og það brauð sem ég baka hvað oftast. Það er fljótlegt, æðislega gott og við fáum ekki leið á því. Ef það er enn til á þriðja degi þá skellum við því í brauðristina og látum smjörið bráðna á heitu brauðinu áður en við setjum áleggið á.

 • 2 dl tröllahafrar (eða venjulegir hafrar)
 • 5 dl hveiti
 • 1 dl hörfræ
 • 1 dl rúsínur
 • 1 dl hakkaðar heslihnétur
 • 2 tsk matarsóti
 • 1 tsk salt
 • 4 dl hrein jógúrt
 • 1/2 dl fljótandi hunang
 • 1/2 dl lingonsylt (fæst í Ikea)
Hitið ofninn í 190°. Blandið þurrefnunum saman í skál og hrærið jógúrtinu, hunanginu og sultunni saman við. Ég skelli þessu öllu í KitchenAid vélina og læt hana hræra þessu saman. Degið er sett í smurt brauðform (fyrir ca. 1 1/2 líter) og bakað í neðri hluta ofnsins í 50-60 mínútur.